Maður vaknaði við Jón Múla Árnason og vissi að pabbi var í eldhúsinu að taka til morgunmat, Mogginn á eldhússborðinu, og allt eins og það átti að vera. Ég er í náttfötum með bangsamyndum. Hleyp fram og fæ pabbakoss. Svo brestur á með veðurfréttum. Eini tíminn sem pabbi vildi alls ekki láta trufla sig var rétt á meðan hann hlustaði á veðurfréttir. Þær voru lengsti og leiðinlegasti dagskrárliður útvarpsins.

Trítla fram á bað á meðan pabbi hlustar á veðrið. Það er teppi á ganginum en góllfísarnar á baðinu eru kaldar. Mér finnst eins og öll baðherbergi hafi verið með taflborðsflísum nema heima hjá mér en hjá okkur voru baðmottur eins og á öðrum menningarheimilum. Baðmottusett samanstóð af áklæði á klósettsetuna, klósettmottu og baðmottu. Motturnar voru settar í þvottavélina af og til en samt … Guði almáttugum og öllum hans árum sé lof fyrir hlýrri gólfefni en þessar köldu flísar. Datt fólki ekkert í hug að nota bara inniskó?

Klósettpappírinn var kannski ekki eins mjúkur og á síðari árum en hann var allavega í björtum litum.

Ég man eftir sápustykkjum með íþrykkti mynd af konu sem hlaut að vera drottning. Fegurstu konur heims notuðu samt Lúx. Móðir mín var ein þeirra svo ég spurði hana hversvegna hún notaði ekki Lúx. Hún gerði það reyndar síðar en hafnaði því algerlega að það væri fegurð hennar á nokkurn hátt viðkomandi.

Amma keypti ekki íþrykkra sápu enda hefði maður ekki séð myndina hvort sem er því amma átti sápuhaldara með segli. Málmstykki var fest við sápuna og hún hékk svo á segli fyrir ofan handlaugina. Þetta var gríðarlega flott græja.

Einhvernveginn er ég svo komin í fötin. Man enn hvað var erfitt að komast í sokkabuxurnar. Skálmarnar flæktust og stundum sneri hællinn upp. En einhvernveginn hefst það og maður fær soðið egg með salti og svo súrmjólk í skál með bangsamynd og kornflex út á.

Ég man eftir gráyrjóttu borðplötunni og þrífættu stólkollunum. Mamma var morgunsvæf en ef hún var komin fram var mjólkurkanna á borðinu því hún notaði mjólk í teið. Pabbi notaði sítrónu. Ég var mjög ung þegar ég komst að því að það er ekki hægt að nota hvort tveggja í senn. Foreldrar mínir drukku te á morgnana en kaffi síðdegis. Ég veit ekki hvort það var algengt.

Ég fékk kornflex þótt börn ættu helst að borða hafragraut. Hann var víst hollur, hvað sem það nú merkir, en mér bauð við honum og þótt börn ættu ekki að stjórna heimilinu hlaut það að vera eitthvað alvarlegra en óþekkt sem olli beinlínis uppköstum. En lýsið skyldi í mann. Sléttfull matskeið, sú stærsta sem til var á heimilinu og svo sopi af djús eða teskeið af mysingi til að bæta manni upp áþjánina. Þegar pabbi fór á sjóinn keypti mamma Sana-sol. Það var vítamínbætt sykurleðja en mamma hafði ekki orku til að standa i barnauppeldi fyrir hádegi.

Auk eggja, súrmjólkur, kornflex og lýsis var ristað brauð og marmelaði í boði. Og ostur með rauðri vaxhúð. Ég hafði ekki magamál fyrir bæði morgunkorn og ristað brauð en stundum valdi ég brauðið frekar. Og mjólk auðvitað. Hún var drukkin með öllu.

Mjólkin var seld í hyrnum. Mig minnir að súrmjólkin hafi verið í samskonar hyrnum nema með grænum skrautborða í stað þess gula á nýmjólkinni en það er sennilega misminni því ég fann mynd þar sem súrmjólkurfernan er með brúnum borða (eða er hann fjólublár) en grænum stöfum. Ég man samt greinilega eftir jarðarberjasúrmjólk í grænum hyrnum. Þær tóku einn pela eins og rjóminn og kókómjólkin í brúnu hyrnunum.

Ég ólst upp við kvartlítra sem „pela“. Amma keypti alla tíð einn pott af mjólk en mamma fór með tímanum að tala um „líter“ frekar en pott. Ég man eftir gremju móður minnar yfir löguninni á hyrnunum. Það var ekki gott að hella úr þeim og eftir að tveggja lítra fernur komu á markað voru þær alltaf keyptar heima.

Mér er reyndar sérlega hlýtt til mjólkurfernunnar því ég uppgötvaði að ég var orðin læs alveg í alvöru við morgunverðarverðarborðið þegar ég las „þannig á að opna“ alveg hjálparlaust. Það hafði örugglega enginn lesið þá myndasögu fyrir mig og þótt ég hefði myndir fyrir framan mig var orðalag eins og „beygið hornin eins langt aftur og hægt er“ ekki eitthvað sem ég hefði giskað á.

Ég hef verið orðin fjörugga ára þegar ég komst að því að á betri heimilinu var keypt kókópuffs og þessháttar fínerí. Upp frá því var annað morgunkorn en kornflex keypt til hátíðabrigða eða ef ástæða þótti til verðlauna okkur. Gullkorn var frá himnaríki og í þá daga var kókópöffsið alvöru. Hvítar yrjur í kúlunum. Það var áfall þegar því var breytt. Því var haldið fram að það hefðu verið einhver eiturefni í hvíta efninu en ætli það hafi ekki bara verið sykur?.

Af einhverjum ástæðum trúðu foreldrar mínir því að seríós væri óhollara en kornflex. Ég var orðin 13 ára þegar sú villutrú var loks leiðrétt. Ég fór með ömmu að heimsækja barn á spítala. Hún sá starfstúlku mata fárveikt barn á seríósi og varð hissa á því að slíkur óþverri væri í boði á barnadeild. Spurði, undrandi en ekki með neinum þjósti, hvort það tæki ekki lystina frá alvörumat að gefa veikum börnum svona rusl. Hjúkrunarkona sagði henni að seríós væri reyndar sykurlaust og ekkert verra en hafgrautur. Ég hafði aldrei séð ömmu mína eins hissa.