Þessa dagana heyrist oft talað um friðsöm mótmæli.

Mótmæli eru ekki friðsöm en þau eru oftast friðsamleg. Þegar mótmæli eru friðsamleg og fara friðsamlega fram má ætla að mótmælendur séu friðsamir.

Ákvarðanir eru ekki skynsamar en þær geta verið skynsamlegar þegar skynsamt fólk tekur þær.

Menn eru friðsamir, siðsamir, skynsamir og lánsamir, Einnig kvensamir, raupsamir, stjórnsamir o.s.frv.

Athafnir manna og ákvarðanir eru friðsamlegar, siðsamlegar, skynsamlegar, lánsamlegar og jafnvel dásamlegar.

Það eru örugglega til margar undantekningar frá þessu, menn geta t.d. verið dásamlegir en ekki dásamir. En meginreglan er sú að -samur/-söm/-samt á við um manneskjur en þegar -legur/-leg/-legt bætist við er um að ræða hugmyndir, orð og athafnir.

Þetta flækist reyndar þegar um er að ræða eitthvað óhlutstætt sem ekki er hugmynd, orð eða athöfn. Úrskurður getur verið vafasamur, starf getur verið erilsamt og vorið rigningarsamt.

En munum í augnablikinu: Mómælendur eru friðsamir. Mótmæli friðsamleg.


Þessu tengt: