Enn og aftur er verið að dreifa þeirri lygi að kynfæri kvenna séu ægilegt tabú. Nú er það einhver sérfræðingur sem telur mikilvægt að viðra píkuna. Ekki bara að virða hana, heldur líka að viðra hana, eins og gæludýr eða rykfallna mottu. Ekki nóg með það, heldur þarf líka að „leyfa henni að anda“. Píkugreyið hlýtur að vera alveg á innsoginu þegar hún loksins kemst í tæri við súrefni. Undarlegt nokk á sú súrefnisgjöf að fara fram í rúminu, með því að konan sofi nakin. Sofa ekki flestar konur með súrefnisheftandi sæng ofan á sér? Væri ekki nær að viðra dýrðina á sér utandyra um leið og hundinn og leyfa henni að mása svolítið?

Um leið er því haldið fram að það sé skömm að ræða píkuna, að stelpum sé bannað að fróa sér og að strákar séu alltaf að fikta í typpinu á sér. Þessi lygi er að verða dálítið þreytt. Þessi undarlega píkuárátta reyndar líka.

Píkan er í alvöru talað ekkert merkilegra eða ómerkilegra líffæri en eyru eða vélinda. Fólk forðast almennt að ræða „heilbrigði píkunnar“ við tilteknar aðstæður, sömu aðstæður og þar sem við sneiðum hjá umræðum um meltingarkvilla, nefrennsli og fleira tengt starfsemi líkamans – ekki af því að fólk þurfi að skammast sín fyrir líkama sinn heldur af því það þykir ekki lystaukandi að ræða líkamsvessa og úrgang við matborðið og ákveðnir líkamshlutar þjóna einkalífi fólks og eru því ekki til umræðu við hvaða aðstæður sem er. Af sömu ástæðu þykir ekki viðeigandi að birta kynfæramyndir á samfélagsmiðlum eða forsíðum meginstraumsmiðla, það á jafnt við um kynfæri karla og kvenna.

Það er auðvitað sjálfsagt að tala um píkur ef fólk hefur áhuga á því en það er ekki í lagi að ljúga. Sannleikurinn er sá að það eru áratugir síðan píkan hætti að vera meira feimnismál en typpið. Það er engin samfélagsleg þörf á að ræða píkuna fram yfir aðra líkamshluta mannsins en það er kannski ástæða til þess að opna umræðuna um þær hvatir sem liggja að baki þessu þráhyggjukennda þrugli um píkutabú.

Ég skora hér með á þá sem telja þörf á meiri fjölmiðlaumfjöllun og samfélagsumræðu um píkur að benda á tíða umfjöllun meginstraums- og menningarmiðla um typpi. Einnig þætti mér áhugavert að heyra kenningar um það hvað konum gengur til með þessari þvælu um að píkan sé meira tabú en typpið. Þær vita nefnilega betur.