Háskóli í Michigan hefur ákveðið að uppfærsla á „Píkusögum“ (The Vagina Monologues) verði ekki sviðsett. Verkið fer eitthvað öfugt ofan í pólitísku rétttrúnaðarkirkjuna. Það yrði víst mismunun gagnvart ákveðnum hópi kvenna ef það færi á fjalirnar. Nefnilega þeim konum sem eru ekki með píku. Ég hélt fyrst að þetta væri grín en það eru víst fleiri skólar sama sinnis.

Píkulist

Nú hafa píkur verið á dagskránni í 30 ár eða lengur um allan hinn vestræna heim og hreinlega tröllriðið samfélaginu amk síðustu 10 árin. Enginn veit samt hvort markmiðið er að afhelga píkuna eða endurvekja helgi hennar. Það eina sem virðist vera á hreinu er að sálarlíf kvenna byrjar og endar í píkunni.

Við höfum orðið vitni að píkulistaverkum í öllum geirum menningarlífsins bæði erlendis og á Íslandi. Ekki bara sviðsettar píkur heldur einnig höggmyndapíkur, málaðar píkur, útsaumaðar píkurtónlistarpíkur og píkumyndbönd með tilheyrandi píkutónlist. Þá er píkublætið nýtt í gerningalist í pólitískum mótmælum og kjarabaráttu. Samninganefnd ríkisins var t.d. ætlað að fara „í gegnum píkuna“ af samningafundi við ljósmæður fyrr á þessu ári en fékkst víst ekki til þess.

Píkulistaverkum er troðið upp á opinberar stofnanir, meira að segja kirkjuna. Á sama tíma kallar rétttrúnaðarkórinn svo á Drottin hersveitanna þegar uppgötvast að klassískt málverk sem sýnir nekt hangir í húsakynnum Seðlabankans. Að maður tali nú ekki um áköllin um stjórnvaldsaðgerðir og föðurlegt tiltal, ungdómnum til hjálpræðis, ef einhver segir píkubrandra eða verður uppvís að því að horfa á klám.

Ég veit ekki frá hvaða atburði þessi mynd er eða hver tók hana.
Fannst hún bara viðeigandi því hún er áreiðanlega móðgandi fyrir þær konur sem eru ekki með píku.

Píkupólitík

Þessi klámlausa píkuástríða tekur á sig undarlegustu myndir. Sem dæmi má nefna píkuhárapólitíkina sem var áberandi fyrir nokkrum árum, þar sem sú tíska að fjarlægja kynhár var sögð fela í sér upphafningu á barnagirnd. Annað dæmi eru strippskrúðgöngur. Þar mótmæla konur kynferðisofbeldi með því að klæða sig eins og sleikipinna og áhuga karla á brjóstum með því að bera á sér júllurnar. Í  kisuhúfugöngunni í Washington voru þær reyndar fullklæddar en bleika kisuhúfan mun vera vísun í þetta margumrædda líffæri.

Og skrúðgöngurnar fara ekki bara fram á götum úti. Við höfum líka séð hjarðir kvenna blæðandi yfir internetið með tilheyrandi myllumerkjaherferðum í heilagri baráttu fyrir rofi „þagnarinnar“ um píkuna. Á Twitter var t.d. barist fyrir jafn gríðarlegu réttlætismáli og afnámi skatts á tíðabindi. Nauðsyn þess að opna umræðuna um píkuna getur svo af sér spjallmyndbönd á YouTube þar sem umræðuefnið er píkan.

Áhugakonur um heilsusamlegan lífstíl hafa látið píkurunkið til sín taka þótt ekki hafi myndast fjöldahreyfingar um píkuafurðir sem heilsuvöru.  Víða um hinn vestræna heim hafa einstaka konur hafa barist fyrir því réttlætismáli að fá að éta fylgjuna úr sér eftir barnsburð því það á víst að vera svo hollt. Og dýrðin er ekki bara góð fyrir líkamlega heilsu, einnig mun þykja sálarbætandi að velta sér upp úr tíðablóði eins og sænsk kona gerði svo snilldarlega á dögunum og birti myndir á Instagam því til sönnunar. Íslensk kona lagði sitt af mörkum með því maka á sig píkusafa en ég hef ekki séð myndir af þeim gjörningi.

Hinsegin fræðsla frá fyrsta bekk og uppúr?„Hinsegin fólk“ hefur verið ofsótt í gegnum tíðina og þótt ótrúlega mikið hafi unnist sætir það enn fordómum. Nú á að uppræta þá fordóma með því að búa til sérstaka námsgrein fyrir grunnskólabörn „hinseginfræðslu“.

Píkuöfund

Þegar hópur háskólastúdenta fær svo loksins nóg af því að gramsa í píkunni á sér þarf helst að banna píkur eða að minnsta kosti píkulistaverk. Af því að slík list er móðgandi fyrir konur sem eru ekki með píku. Fyrst fá þessir snillingar útrás fyrir typpaöfundina með því að hampa píkunni. Svo þegar það er orðið þreytt þá þarf að taka tillit til þeirra sem þjást af píkuöfund.

Það eru sennilega engin takmörk fyrir því hversu langt pólitískur rétttrúnaður getur teygt sig. Nú bara bíð ég eftir yfirlýsingu um að konur með tvo X-litninga séu móðgun við konur sem hafa aðeins einn X litning.