Þessi færsla tilheyrir pistlaröð sem  fjallar um Kennivald kvenhyggjunnar. Til þess að draga fram þau sjónarhorn á jafnréttismál sem feministar eru að reyna að innleiða í skólakerfið, er tilvalið að skoða Kynungabók, kennslubók fyrir unglinga skrifaða á forsendum feminisma og mótunarhyggju.

Í fyrstu köflum Kynungabókar vantar sjónarhorn karla. Í Fjölmiðlakaflanum hófst fórnarlambsfemnisminn á loft og hann heldur fluginu í heilsufarskaflanum, þar sem vandamál karla eru lítt til umræðu. Verra er þó að í heilsufarskaflanum er predikuð sú ranghugmynd að holdafar skipti ekki máli.

Hin kynbundna heilsufarsþversögn

Í heilsufarskaflanum er fyrst kynnt til sögunnar „hin kynbundna þversögn í heilsufari“.

Meðalævi kvenna er lengri en karla. Konur leita oftar til læknis, fá oftar greiningu og fara oftar í aðgerðir. Þetta telja höfundar Kynungabókar stórmerkilega þversögn; konur virðast samkvæmt notkun sinni á heilbrigðisþjónustu veikari en karlar en lifa samt lengur!

Fólk sem hugar að heilsu sinni og fær viðeigandi meðferð lifir lengur en fólk sem fær ekki viðeigandi meðferð við sjúkdómum, þetta er „hin kynbundna heilsufarsþversögn.“ Allt verður nú kynjafræðinni að vísindum.

Mér finnst mun áhugaverðari spurning hversvegna karlmenn drusli sér ekki til læknis þegar eitthvað amar að þeim og hefði haldið að þar væri tilefni til að skoða kynjaímyndirnar sem feministum eru svo hugleiknar. Þær eru líka sannarlega til umfjöllunar í þessum kafla sem öðrum, en ekki þó í þessu samhengi; hér er niðurstaðan sú að heilsufar kvenna sé verra en karla.

Gjald karlmennskunnar

Í heilsufarskaflanum gerast þó þau undur og stórmerki, í fyrsta sinn í þessari bók, að nefnt er jafnréttismarkmið sem snýr fremur að körlum en konum; það markmið að draga úr þáttum sem skerða lífslíkur karla. Þessir þættir eru samkvæmt Kynungabók kallaðir „gjald karlmennskunnar“, þar sem kynjaímyndir séu stærsta orsök þeirra.

Um er að ræða afleiðingar af áhættuhegðun, álagssjúkdóma tengda vinnu, vinnuslys, fíknsjúkdóma og sjálfsvíg, jafnvel árásarhegðun. Ég lýsi ánægju minni með að þessir þættir séu nefndir en auglýsi um leið eftir því hvar og hvernig jafnréttisbaráttan hefur brugðist við þessum vandamálum á Íslandi. Það kemur ekki fram í Kynungabók og ég hef aldrei nokkruntíma séð eða heyrt neitt um þetta háleita markmið í tengslum við jafnréttisbaráttu. Slysavarnir á vinnustöðum hafa verið algerlega óháðar jafnréttismálum og miðað að því að auka öryggi óháð kynferði og ég ætla rétt að vona að ekki verði tekin upp „jákvæð mismunun“ í þeim efnum.

Þótt aðeins sé tæpt á kynímyndartengdum heilbrigðisvandamálum karla eru algengustu heilbrigðisvandamál pilta ekki til umræðu. Ofvirkni, athyglisbrestur og ýmsir sértækir námserfiðleikar greinast mun oftar hjá drengjum en stúlkum og valda gjarnan verulegum vanda í daglega lífi. Ekki er þó vikið að þeim orði.

Kynheilbrigðis og ofbeldiskaflinn

Kynungabók ræðir einnig kynheilbrigði og árásarhegðun. Ég er í megindráttum sátt við þá umfjöllun en hef þó eina athugasemd við hvorn þátt.

Í kynheilbrigðiskaflanum er þessi staðhæfing á bls. 30

Ýmislegt í menningu okkar virðist t.d. ýta undir gagnkynhneigðarrembu þrátt fyrir að umburðarlyndi gagnvart hommum og lesbíum hafi aukist á síðustu árum.

Nú efast ég ekkert um að samkynhneigðir og transfólk verði ennþá fyrir fordómum en mér finnst þetta þarfnast útskýringar. Hvernig birtist „gagnkynhneigðarremba“ og hvaða „ýmislegt“ er það sem ýtir undir hana? Þarna er áhugaverður punktur sem ekkert er unnið úr.

Í ofbeldiskaflanum kemur fram að karlmenn fremji flestar líkamsárásir. Þess er hinsvegar ekki getið að það eru líka karlmenn sem í yfirgnæfandi meirihluta tilvika verða fyrir þeim. Raunin er sú að karlmenn eru í meirihluta brotaþola í öllum flokkum afbrota nema kynferðisbrotamálum. Ég hefði haldið að í jafnréttisumfjöllun væri viðeigandi að taka það fram, ekki síst þegar fjölmiðlaumfjöllun vinsælustu miðla um ofbeldi gagnvart konum er meiri en öll önnur umfjöllun um heilbrigðisvandamál og glæpi samanlagt.

Feitabollufeminismi heldur innreið sína í skólakerfið

Í heilsufarskaflanum er athygli vakin á því að stúlkur hætti fyrr að stunda íþróttir en drengir og áhersla lögð á að hreyfing og góð heilsa fari saman, ekkert annað en gott um það að segja.

Umfjöllun Kynungabókar um næringu og holdafar er hinsvegar stórkostlega gagnrýniverð. Ofeldi er eitt algengasta heilbrigðisvandamál ungs fólks á Íslandi og, fyrir utan neyslu ávanabindandi efna, það sem mest er komið undir líferni. Offita unglinga er ekki nefnd einu orði, aðeins tæpt á því í einni setningu að fólki yfir kjörþyngd hafi fjölgað, körlum þó meira en konum. Áherslan er öll á álagið sem fylgir því að reyna að standast útlitskröfur dægurmenningarinnar og átröskun er kynnt sérstaklega sem heilbrigðisvandamál.

Það er ástæða til að ræða útlitskröfur og  átraskanir. Útlitskröfur eru vafalítið sterkur áhrifaþáttur í þróun átraskana og stærsti áhættuhópurinn er samkvæmt þessari grein íþróttastúlkur (svo það er nú kannski ekki eingöngu klámvæðingunni um að kenna.) Langvinnt lystarstol er ekki tískufyrirbæri heldur geðsjúkdómur, tíðni þess hefur haldist stöðug í amk tvo áratugi og má því ætla að tilraunir feminista til að breyta hugmyndum unglinga um æskilegt útlit hafi sáralítil áhrif á nýgengi hans. Svar feminista við útlitsdýrkuninni er sú lygi að offita sé ekkert vandamál. Ég hef enga trú á að margir muni gleypa þá kenningu hráa, hvað þá staðhæfinguna um að „fegurð sé til í öllum stærðum“. Einu unglingarnir sem munu taka mark á því eru þeir sem eru í áhættu á að koma sér upp offitusjúkdómum.

Heimildin fyrir því að heilsa sé óháð holdafari er ekki læknisfræði af neinu tagi, heldur netsíða áhugafólks um megrunarlausa daginn, likamsvirding.is. Blogg Sigrúnar Daníelsdóttur ber sama heiti, líkamsvirðing, og sama netfang er gefið upp á báðum síðum. Það liggur því beinast við að upplýsingarnar sem unglingunum er boðið upp á um tengslaleysi heilbrigðis og fitu, séu frá Sigrúnu komnar.

Sigrún Daníelsdóttir er góður bloggari. Hún hefur vakið athygli á ýmsum öfgum og mýtum sem tengjast næringu, líkamsrækt og heilbrigði. En hún er ekki sérfræðingur í næringarfræði eða næringartengdum sjúkdómum, heldur sálfræðingur. Það er út af fyrir sig áhugavert að fá innsýn sálfræðings í útlitsdýrkunarsamfélagið en gallinn er sá að Sigrún byggir sínar skoðanir á því sem ég hef kallað feitabollufeminisma, þ.e. feminiskri hugmyndafræði sem afneitar offitu sem heilbrigðisvandamáli og staðhæfir að megrun virki ekki.

Í Kynungabók eru það ekki vísindi, heldur skoðanir Sigrúnar Daníelsdóttur, sem eru nefndar sem rök fyrir því að fólki eigi að borða; eins og segir á bls. 29:

 samkvæmt innri merkjum hungurs og saðningar, matarlystar og næringarþarfar hvers og eins í stað þess að fylgja utanaðkomandi matarplönum, reglum, boðum og bönnum.

Þetta er í samræmi við þá kenningu að það að takast á við ofát með matarplani, eða yfirhöfuð að stjórna mataræði sínu í þeim tilgangi að grennast, sé bæði óþarft og tilgangslaust. Þessari hugmyndafræði er haldið fram sem staðreynd, í kennslubók fyrir krakka sem hafa alist upp í samfélagi þar sem auglýsingum um skyndifæði og sælgæti er miskunnarlaust beint að unglingum með öllum sálfræðitrixum sem auglýsingabransinn kann að nefna. Unglingum sem búa í samfélagi þar sem  20% barna eru of feit. Við erum ekki að tala um einkaframtak einhverrar grasrótarhreyfingar, heldur kennslubók sem gefin er út af Menntamálaráðuneytinu. Í alvöru talað, finnst ykkur þetta í lagi?