Fengitíminn er að hefjast hjá ferðaþjónustunni en tilhleypingar hefjast ekki fyrir alvöru fyrr en í júní þegar hægt verður að komast hjá sóttkví með því að undirgangast veiruskimun við komu til landins. En hversu örugg er slík skimun? Ef marka má nýja rannsóknaskýrslu eru talsverðar líkur á fölskum niðurstöðum.

Sóttvarnaparadís, tækifæri í kófinu!

Þegar varúðaraðgerðir vegna kórónuveirunnar voru teknar upp á Íslandi héldu sóttvarnayfirvöld því fram að engin ástæða væri til að takmarka komur ferðamanna til landsins. Þeir áttu víst að hegða sér allt öðruvísi en heimamenn og því sáralítil smithætta af þeim, ólíkt Íslendingum sem eru „inni í samfélaginu“. Síðan þá hefur hegðun ferðamanna gerbreyst – a.m.k. þykir nú þörf á sóttkví þeirra sem koma fá hættusvæðum þótt engin ástæða væri til að íþyngja ferðaþjónustunni með slíku inngripi í mars.

Ríkisvaldið hefur þó ráð undir rifi hverju er er nú stefnt að því að markaðssetja Ísland sem sóttvarnaparadís. Veiruskimun við komu til landsins á að tryggja lágmarks útbreiðslu veirunnar og brátt munu sundlaugar fyllast af nöktum kröppum, kórónulausum að sjálfsögðu, og túristar munu skilja eftir veirufrían klósettpappír og veirufrían kúk á hálendinu. Allir glaðir, jabadabadú.

Fengitími ferðaþjónustunnar – Ísland opnar landamærin bráttTilslakanir ríkisstjórnarinnar og víruspróf þau sem útlendingum verður boðið upp á við komu til landsins eftir 15. júní eru fréttamatur víða um veröld þótt ekki sé liðinn nema sólarhringur síðan tilslakanir voru kynntar.

Mæla vísindin með þessum áformum?

En gleðispillar eru aldrei langt undan. Í síðustu viku kom út rannsóknarskýrsla sem gefur ástæðu til að efast um ágæti þessara tilhleypingaáforma.

Jákvæð niðurstaða kórónuskimunar getur ekki verið fölsk en neikvæðar niðurstöður geta verið vafasamar og markmið greiningarinnar var að finna út líkurnar á falskri niðurstöðu eftir því hversu langt líður frá smiti þar til strok er tekið. Að jafnaði líða fimm dagar frá smiti og þar til einkenni koma fram. Skoðuð voru sýni sem tekin voru úr Covid-smituðum, bæði eftir að þátttakendur voru orðnir veikir og dagana áður en einkenni fóru að gera vart við sig.

Í stuttu máli er niðurstaðan sú að líkurnar á falskri niðurstöðu minnka eftir því sem lengra líður frá smiti. Á fimmta degi frá smiti, þ.e. fyrsta degi sem búast má við einkennum voru neikvæðar niðurstöður veiruskimunar 38%. Við erum að tala um 38 tilvik af hverjum hundrað, þar sem einstaklingur sem var sannarlega smitaður svaraði ekki prófi eftir að einkenni voru komin fram. Á fjórða degi frá smitun voru falskar niðurstöður 67%. Afar litlar líkur virðast vera á því að smit greinist sama dag og maður smitast, 95%-100% þeirra sem fengu veiruskimun sama dag og þeir höfðu smitast svöruðu ekki prófi.

95%-100% þeirra sem fengu veiruskimun sama dag og þeir höfðu smitast svöruðu ekki prófi.

Ef eitthvað er að marka þessa skýrslu þá þýðir þetta einfaldlega það að ferðamenn sem leggja af stað til Íslands ókrýndir með öllu en smitast á leiðinni, munu ekki svara veiruskimun við komu til landsins.

En ferðamenn eru ekkert inni í samfélaginu

Hverjar eru líkurnar á því að sá sem fyrst ferðast með lest, rútu eða ferju, fer svo í gegnum einn eða fleiri flugvelli, notar þar almenningssalerni, verslanir og veitingahús og situr svo klukkustundum saman við hlið smitbera í flugvél beri veiruna til landsins? Ég veit það ekki. En sá sem smitast á leiðinni mun mjög ólíklega hafa hugmynd um það fyrr en hann er búinn að skilja þessa dásemd eftir í hótelherbergi þar sem láglaunafólk meðhöndlar óhrein rúmföt, á veitingahúsum þar sem láglaunafólk fjarlægir diska af borðum, í búningsklefum sundlauga þar sem láglaunafólk þrífur bekki, skápa og gólf, á almenningssalernum sem láglaunafólk sér um þrifin o.s.frv.

Og hvað gera ráðsnjallir þá? Verður aftur tekin upp sú hugmynd að það sé allt í lagi þótt kórónusmitaðir ferðamenn komi til landsins því af þeim stafi svo lítil smithætta?

Þeir ferðamenn sem koma til Íslands í sumar verða auðvitað ekkert í samfélaginu frekar en þeir sem komu í febrúar og mars. Þeir munu ekki knúsa Íslendinga að ráði nema auðvitað þá sem halda að hættan sé liðin hjá og fagna fengitímanum á öldurhúsum. Fólkið sem þjónustar ferðamenn og þrífur eftir þá tilheyrir nefnilega ekki samfélagi. Það er einhver svona aukastærð sem ekki er talin með þegar hættan er metin.