Sigrún Daníelsdóttir á erindi við íslenskt samfélag.  Ég get alveg mælt með blogginu hennar þar sem hún hefur birt fjölda fróðlegra greina og hugleiðingar sem sannarlega eru gott innlegg í umræðuna um fordóma, útlitsdýrkun og heilsu. Hún virðist samt ekki hafa náð eyrum almennings, því auglýsingaherferðin sem líkamsvirðingarhreyfingin stendur fyrir í tengslum við megrunarlausa daginn er með því kaldhæðnislegra sem sést hefur í íslensku samfélagi lengi. Flestir þeirra sem skiluðu inn myndum standa fullkomlega undir almennum hugmyndum um æskilegt útlit og þeir fáu sem samkvæmt almennum skilgreiningum eru í yfirþyngd, sýna aðeins andlit sitt.

Gegn útlitsfordómum

Markmiðið er að vinna gegn útlitsfordómum og létta af okkur endalausum kröfum um að standa undir ímyndum tískubransans og það er gott markmið. Mér finnst verulega þarft að spyrna gegn fitumýtum og fínt að benda á að það hljóti að vera flóknari skýringar á bak við offitufaraldur síðustu áratuga en leti og ofát. Og jafnvel þótt ofáti sé um að kenna er það manninum varla eðlilegt að borða meira en hann þarf svo hver veit nema eigi eftir að koma í ljós að dulinn sjúkdómur eða eitthvað í umhverfinu valdi óhóflegri matarlyst? Ekkert bendir til þess að hamingja og velferð standi í orsakasambandi við grannan líkama þótt þeirri arfavitlausu tengingu sé stöðugt haldið að okkur og bara gott mál að einhverjir skuli vekja athygli á því. Hinsvegar kaupi ég það ekki að flest þetta fólk á íslensku plakötunum sæti fordómum vegna holdafars svo um hvað snýst málið eiginlega?

Mér finnst gott mál að benda á að útlitsstandardar tískuheimsins eru ekki til þess fallnir að meðalmaðurinn standi undir þeim. Útlitsiðnaðurinn hefur okkur að fíflum, fær okkur til að eyða óheyrilegum fjárhæðum í hegóma sem aukinheldur skilar alls ekki þeim árangri sem umbúðir og auglýsingar lofa. Ef einhversstaðar er ástæða til að setja ritfrelsi takmörk þá er það gagnvart staðreyndafölsun í nafni vísinda og ekki myndi mínu hjarta blæða ef tekið yrði fyrir skottulækningar og fyrirheit um eilífa æsku undir yfirskini rannsókna.

Mér finnst líka fínt að benda á að stór hluti af þeirri speki sem haldið er að okkur um næringu og líkamsrækt er óáreiðanlegur. Holdafar ræðst ekki eingöngu af því hvaða hitaeiningafjölda við innbyrðum. Vísindin á bak við ráðlagða dagskammta af næringarefnum eru umdeilanleg. Fólk deyr ekki af neyslu kóladrykkja og klisan um að morgunmaturinn sé mikilvægasta máltíð dagsins er álíka gáfuleg og fullyrðingar bakara á mínum barndómsárum um að fólk þyrfti að borða 6-8 brauðsneiðar á dag.

BMI stuðlar

Það er líka stórgott hjá líkamsvirðingarfólkinu að benda á að BMI stuðlar eru ekkert óhrekjanleg viðmið heldur byggðir á geðþótta nokkurra manna. Kjörþyngd ætti auðvitað að miðast við að manni líði vel og sá sem lítur út fyrir að vera grannur er grannur, hvað sem öllum stuðlum líður. Það er óþarfi að setja einhverja tilbúna stuðla ofar dómgreind sinni. En bíddu aðeins …  er virkilega ekkert að marka BMI stuðla? Hér er t.d.myndasíða sem á að sýna fram á hvað sé lítið að marka þá og jújú, þarna eru nokkur dæmi þar sem stuðullinn stenst ekki heilbrigða skynsemi, fólk sem sagt er í yfirvigt þótt engum heilbrigðum manni finnist það raunverulega feitt. Þetta skýrist kannski af því að upphaflega var tilgangur BMI stuðla alls ekki sá að segja til um kjörþyngd einstaklinga, heldur að bera saman stóra hópa og fylgjast með þyngdarþróun þeirra.

Í flestum tilvikum eru þó bein tengsl milli holdafars og þess hvar skrokkurinn lendir á BMI skalanum. Ég sé því ekki betur en að fyrir meirihlutann séu þessir stuðlar bara ágæt viðmið, svona ef maðurinn er á annaðborð í vafa um það hvort hann eigi að vera sáttur við holdafar sitt. Þegar allt kemur til alls þá hafa milljónir manns misst gjörsamlega tökin á mataræði sínu og fjölmargir stríða jafnvel við fötlun af völdum offitu.

Gevivísindi og afneitun

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort það fólk sem er bara fullkomlega ánægt með að safna spiki, eins og t.d. þessi kona, sé líka sátt við að þurfa hjálp við að skeina sig. En sennilega þarf það ekki hjálp, það eru til ótrúlegustu hjálpartæki, svo það er engin ástæða til að láta það stoppa sig.

Sigrún Daníelsdóttir á marga ágæta pistla en það runnu á mig tvær grímur þegar ég fór að skoða ýmis blogg og myndbönd sem hún vísar á. Þar koma fram vægast sagt vafasamar hugmyndir og eftir að hafa kynnt mér pínulítið hvað þessi „fat acceptance hreyfing“ er að bardúsa í Bandaríkjunum, sannfærðist ég um að hér er á ferð fyrirbæri sem er full ástæða til að vera gagnrýninn á. Auðvitað á fólk að fá að vera eins feitt og því bara sýnist en það er mikilvægt að fólk viti raunverulega hvað það getur kostað og þessi hreyfing heldur að áhangendum sínum  fullyrðingum um að offita hafi engin áhrif á heilsufar og að megrunarkúrar beri engan árangur. FA hreyfingin hefur jafnvel smyglað sér inn í háskólana undir merkjum vísinda  (fat studies) sem líkt og guðfræði og kvennafræði byggja á hugmyndafræði fremur en alvöru rannsóknum. Það er algerlega nauðsynlegt halda uppi rökræðu gegn slíkri vitleysu því það er stór hætta á því að fólk sem er í áhættuhópi gagnvart áunninni sykursýki og hjarta- og æðasjúkdómum taki feginshendi öllum réttlætingum og afneitun á óheilbrigðu líferni.

Ekki líkamsvirðing heldur feitabollufeminismi

Það kemur kannski ekki á óvart að FA hreyfingin er upprunnin í herbúðum dólgafeminista. Hún einkennist af samskonar fórnarlambsvæðingu og samskonar ýkjum og rangfærslum. Forvitnileg er t.d. frásögn þessarar stúlku  sem heldur því fram að til að tolla í kjörþyngd þyrfti hún að stunda líkamsrækt 2 klst á dag og borða innan við 800 hitaeiningar. Ég gæti trúað að til sé fólk sem brennir svo litlu t.d. vegna sjúkdóms en ef þetta er rétt, þá verður stúlkan 300 kg á nokkrum árum með því að gefa bara skít í það hvað hún lætur ofan í sig. Það er varla farsæl lausn.  Eins og konan frá samtökunum sem vinna gegn offitu bendir á í seinni hluta þessarar FA umfjöllunar, var upphaflega markmiðið að vinna gegn fordómum en áherslan virðist þó vera á feminismatengda offitudýrkun.

Fínt að vinna gegn mjónudýrkun og allt það. Feitir búa áreiðanlega við mismunun og kannski er það stærra vandamál en t.d. kynjamismunun. En verum meðvituð um að „fat acceptance“ hreyfingin í Bandaríkjum hampar öfgum og falsvísindum, ekkert síður en þeir útlitsdýrkendur sem reyna að telja okkur trú um að það sé vörðuð leið til lífshamingju að eyða 10 tímum á viku í ræktinni og lifa á próteindufti. Við skulum hafa hugfast að það sem Sigrún Daníelsdóttir kallar „líkamsvirðingu“ heitir á ensku „fat acceptance“ eða það að sætta sig við fitu og það hefur ósköp lítið með virðingu að gera að bjóða hnjánum á sér upp á að bera tugi kílóa af umframspiki. Ég liti allavega ekki á það sem virðingarvott ef einhver annar neyddi mig til að dragast með tugi smjörlíksstykkja að óþörfu.

Hvert stefnir?

Reyndar má svo telja það alveg lýsandi fyrir vandamálið sem verið er að reyna að uppræta  að þeir sem „stíga fram“ og birta myndir af sér undir merkjum fjölbreytilegs vaxtarlags, skuli langflestir tilheyra þeim hópi sem ekki þarf að hafa neinar áhyggjur af útlitsfordómum. Svo kaldhæðnislegt sem það er þá eykur það enn á íróníuna að kannski er það bara góðs viti. Mér finnst allavega gott að sjá að „líkamsvirðing“ standi enn sem komið er ekki fyrir neitt annað en fólk sem notar heilann í sér, bæði til að mynda sér skoðanir og til að borða. Við getum nefnilega alveg búist við því að innan fárra ára verði líkamsvirðingarhreyfingin farin að snúast um ofeldisdýrkun, dulbúna sem mannréttindabaráttu.