Guðmundur Andri Thorsson kallar vændiskaupendur „vændismenn“. Ég hef séð þetta orð sem og „vændiskarlar“ notað um viðskiptavini vændiskvenna á fleiri stöðum. Skil í raun vel að fólki þyki óviðeigandi að nota orðið vændiskúnni. Það getur nefnilega átt við um fólk af báðum kynjum og þar með felur orðið ekki í sér nógu mikla áherslu á það að allur viðbjóður sé í eðli sínu karlkyns.

Það er dálítið umhugsunarvert að orðið vændiskaupandi hefur mjög lítið verið notað fyrr en á allra síðustu árum. Áður var engin þörf á því að merkja viðskiptavini vændiskvenna, þeir voru bara karlar sem heimsóttu gleðikonur. Líklega er ástæða til að finna þeim eitthvert heiti, svona til að greina illmennin frá öðlingum en ég efast þó um að vændismaður sé gott orð. Einar Steingrímsson benti á það á knúzinu í gær að þar með væri orðið flókið að finna hentugt orð yfir konu sem kaupir vændi. Soffía V. Jónsdóttir telur að það megi nota sama orð um vændiskaupendur af báðum kynjum. Hmmm…. Vændiskonur eru þar með fólk sem vinnur við vændi en vændismenn fólk (af báðum kynjum) sem kaupir það. Þetta má svo færa yfir á önnur viðskipti. T.d. bankakona = starfsmaður banka, bankamaður = sá sem kaupir banka. Gengur kannski ekki alveg upp.

Mér finnst þessi orðapæling skemmtileg. Við höfum notað hórur og hórkarlar um fólk sem hegðar sér ósiðlega (að mati fjöldans.) Hóra hefur náð bæði yfir lausláta konu sem leyfir öðrum að njóta örlætis síns frítt (og nýtur þess væntanlega með þeim) og einnig þær sem hafa tekjur af lauslæti sínu (og geta þar með ómögulega haft gaman af því.) Hórkarl er hinsvegar bara notað um graða karla sem vaða úr einu klofinu í annað en ekki þá sem rukka fyrir dráttinn. Oftar eru þeir þó kallaðir gosar eða „hustlerar“, Þeir sem rukka eru aftur á móti engir hórkarlar. Ekkert ljótt við að vera gígoló og ég veit ekki til þess að til sé neitt íslenskt orð fyrir karlkyns kynlífsþjón, hvorki þann sem þjónar konum né körlum. Ég hefði haldið að vændismaður væri ágætt orð en nú er það víst notað um kúnnana. Kannski er hugmyndin sú að allir karlar séu vændsmenn þegar peningar kona við sögu, að enginn munur sé á kúk og skít þegar tittlingur er annars vegar?

Mér finnst vændi dálítið vont orð. Hvað er vændiskona eiginlega? Væn kona eða hvað? Eða kona sem er vænd um eitthvað óþægilegt? (Skotið inn kl. 23.54: Reyndar var Guðmundur Andri að benda á það á fb núna áðan að vondir menn hafi áður verið kallaðir vændismenn svo líklega er orðið viðeigandi, vændiskonur eru náttúrulega óskaplega vondar.) Mér finnst orðið hóra miklu betra en þar sem það er líka notað um lauslátar konur sem hafa ekki rænu á að rukka, er það kannski ekkert sérlega heppilegt. Orðið gleðikona sést varla lengur. Ég hætti sjálf að nota það vegna þess að mér fannst eitthvað óþægilegt við að gleðimenn væru karlar sem skemmta sér mikið en konur væru hinsvegar konur sem vinna við að skemmta körlum. Það er þessi merkingarmunur eftir kynjum sem vafðist fyrir mér eins og orðið sjálft er annars gott. Gleðikona -semsagt kona sem veitir gleði, rétt eins og hárgreiðslukona veitir öðrum hárgreiðslu.

En það er annað en bara merkingarmunurinn á gleðimanni og gleðikonu sem gerir það að verkum að orðið gleðikona er ekki æskilegt. Í dag má nefnilega helst ekki kyngera störf. Skúringakonur eru ekki lengur til. Í dag heita þær (þau) ræstitæknar. Vegavinnumenn eru heldur ekki til. Þegar fyrrum eiginmaður minn vann við að leggja gangstéttarhellur stóð „stéttatæknir“ á launaseðlinum hans.

Ég legg til að við tökum þessa tæknareglu upp í klám- og kynlífsgeiranum líka. Fyrirsæta verðu þannig klámtæknir, símamella verður stunutæknir, erótískur nuddari runktæknir, strippari verður glennitæknir og hefðbundin hóra samfaratæknir. Yfirheitið að sjálfsögðu kynlífstæknir.

Og hvað á þá að kalla kúnnana? Það er út af fyrir sig dálítið umhugunarvert að það skuli yfirhöfuð vera þörf á því. Ekki höfum við nein sérstök orð yfir viðskiptavini pylsusala, byggingavöruverslana eða nuddara sem nudda aðra líkamsparta en kynfæri, þeir eru bara viðskiptavinir.

Það gengur náttúrulega ekki að tala um þá sem borga fyrir kynlíf sem „viðskiptavini“. Það orð er alltof vingjarnlegt og gefur til kynna að þetta séu eðlilegir menn. Þeir sömu og skipta við Pylsuvagninn og BYKO. Við verðum að stigmatisera það, einhvernveginn. Og nú dettur mér í hug lausn. Orðið gleðikona var haft um bersyndugar konur áður en femninstar komust að þeirri niðurstöðu að allar hórur væru fórnarlömb og síður en svo glaðar, heldur þvert á móti alltaf grátandi. Það telst ekki lengur viðeigandi að nota það orð um kynlífstækna. Reyndar notum við það eiginlega ekki neitt svo hví ekki að yfirfæra þetta ljóta orð yfir á karla sem heimsækja hórur? Hættum að kalla þá vændismenn því það gæti vakið upp þá hugmynd að þeir séu, eins og allar vændiskonur, viljalaus fórnarlömb sem hafa hvorki sjálfstæðan vilja né stjórn á lífi sínu. Köllum þá frekar gleðimenn. Það gæti líka verið ágætis málamiðlun milli þeirra sem vilja að kynlífskaup séu ólögleg og þeirra sem vilja lögleiða þau. Þeir sem líta á kynlífskaup sem ofbeldi velkjast nenfilega varla í vafa um að það veiti hórkörlum sérstaka gleði að beita fórnarlömb sín ofbeldi með því að borga 25.000 kall fyrir eina sæðiskvettu.