Biðlað til Eddu

Mín eina hjartans löngun um það snýst
að yrkja til að anda til að skrifa
og ekki hættir tímans úr að tifa
og tækifærum fjölgar allra síst.

Ef ekkert svar af söngli mínu hlýst
sem segir mér að ljóð mín megi lifa
ég sífellt mun á sama tóni klifa
uns sál þín greinir sandlóunnar tíst.

Í fjarskanum ég greini fljótsins drunur
er fjötra íssins brýtur vorsól hlý
þótt ljóð mitt beri lítinn vott um snilli

en hvort það verður meira en mynd og grunur
að mestu leyti veltur nú á því
sem lestu sjálfur línanna á milli.

Stjörnurnar hennar Rebekku

Nú hylja skýin himins stjörnur sýnum
og helgrá fjöllin sveipa þokuslæður.
Á þorpið herjar hríðarbylur skæður
og hrekur lítinn fugl úr garði þínum.

Í mannsins heimi finnst þó fegurð síður,
þar fyrir völd og gróða berjast bræður
og fjandinn sjálfur flestum ríkjum ræður
er fátækt, stríð og spilling húsum ríður.

Þó áttu sjálfa veröldina að vini
því verðugt er að líta jörðu nær
þá fegurð sem við fætur þína grær,
í garðinum, frá götuljóssins skini
glitra allt um kring og undir skónum
þúsund stjörnur, þér til gleði, í snjónum.

Gímaldin gerði lag við þetta kvæði og gaf út 2012.