Ljóð handa fiðlara

Svo tónar þínir ljóð mitt galdri glæði
ég grönnum boga snerti fiðlustrengi
sem styður þú með liprum fingrum lengi
uns líf mitt faðmar þitt í söng og kvæði.

Og ef þú heyrir annarlegan tón
sem ekki fellur rétt að þínu lagi
það gæti verið tónn af æðra tagi
þá titrar barmur Óðreris við Són.

Því ég skal gjarnan verða þín ef viltu
vekja hjá mér meira en orðin tóm
og finna þína fingurgóma loga.

Þá komdu nær og strengi þína stilltu
ég strjúka skal úr hverjum þeirra hljóm
því fiðla þín er fánýtt hjóm án boga.

Ástkonan

Er klæðist mánagyðjan möttli skýja
og myrkrið drýpur hljótt af birkigreinum
og skuggaverur skjótast undan steinum
skæruárar óttans dyra knýja.

Þá napur gjóstur nístir inn að beinum
og náköld skelfing grafarhúmsins hvískrar
og ryðgað hliðið hriktir, marrar, ískrar
með harmaþrungnum sorgarinnar kveinum.

Þar moldarinnar yfir opnu sári
ein hún grætur einu köldu tári
sem falli hrím á fylgju elskhugans

en engin blóm hún leggur á hans leiði
Í leynd svo engan veruleikinn meiði
vill hún í myrkri vitja grafar hans.

 

 

Bónorðsbréf

Lánsamlegt er að ljúka dotorsprófi
lipur og fín er vörn þín vinur góður
menningarviti og Morkinfræðasjóður
mælskur en beitir þófi í besta hófi.

Þér vil ég klappa tífalt lof í lófa
legg ég svo á að happ þig elti og hróður
aukist með ári hverju og andans móður
að endingu ber þér spurn úr hófi grófa;

hvort mærin ljúf þín bíði, björt og hrein
blíðlynd trutildúfa, dáfríð píka
engill með húfu, siðprúð auðnarhlín?

Og verði ég þrjá um fertugt ennþá ein
(ætla ég þá þú sért að pipra líka)
hvort Morkinskinna má ég verða þín?

Kvæði handa skúffuskáldum

Í merkri bók er sagt að sönnum þyki
það sælla vera að gefa en að þiggja
en allar mínar sögur ennþá liggja
oní skúffu í haug og safna ryki.

Á meðan ég hef skúrað, skeint og þvegið,
skemmti ég mér við að binda í kvæði
líf mitt; sælu, sorgir ást og bræði
og síðan hefur það í möppum legið.

Ung ég þóttist undragáfu hafa
og áleit það sem telpukrakki dreyminn
að ættu ljóð mín erindi við heiminn
en eitthvað þóttist heimurinn í vafa;

það virtist enginn af þeim ýkja hrifinn
og hentug reyndist skúffan fyrir skrifin.