Lík á víðavangi

Opið bréf til forsætis- og utanríkisráðherra Íslands
varðandi mál Hauks Hilmarssonar

(Bréfið var sent ráðherrum nú í morgun. Hér er myndatextum bætt við)

Sæl Katrín og Guðlaugur

Á þessari slóð má sjá myndir sem sagðar eru sýna lík af almennum borgurum sem bandamenn ríkisstjórnar ykkar í NATO drápu í Afrín fyrr á þessu ári. Sá sem fyrst birti þær kveðst hafa fundið þær í síðustu viku á vefsíðu stuðningsmanna Erdoğans en að þær hafi nú verið fjarlægðar. Hann segir slíkar myndir stundum birtar til þess að senda út þau skilaboð að andstæðingarnir séu þess óverðugir að lík þeirra fái sómasamlega meðferð. Myndirnar styðja frásagnir heimamanna um ástandið á svæðinu – enn ekki búið að hreinsa upp – og í hlíðunum í kringum borgina liggja líkin fyrir hunda og manna fótum. Rauða krossinum var ekki hleypt inn á svæðið fyrr en í maí og þá aðeins til að hlúa að slösuðum og afhenda nauðsynjar. Nú hefur okkur borist til eyrna að verið sé að reyna að semja við Tyrki um að fá að leita að líkum. Það ætti þó að vera sjálfsagt mál, en ekki samningsatriði. Samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum ber aðilum að stríðsátökum að hirða lík og veita þeim viðeigandi meðferð tafarlaust, sbr. t.d. 15. gr. Genfarsamnings frá 1949 um bætta meðferð særðra og sjúkra hermanna. Er þvi vandséð annað en að hér séu bandamenn ykkar Tyrkir að brjóta gegn alþjóðasáttmálum um framferði í stríði.

Enn hefur ekki fengist staðfest að Haukur Hilmarsson sé látinn. Utanríkisráðuneytið hefur synjað okkur um gögn sem sýna fram á að tyrknesk yfirvöld hafi yfirhöfuð tjáð sig um málið. Við teljum meintar staðhæfingar tyrkneskra yfirvalda um að Haukur sé hvergi á skrá hjá þeim ekki neina sönnun þess að hann sé ekki í haldi Tyrkja, sem hafa verið harðlega gagnrýndir m.a. af Mannréttindadómstóli Evrópu, fyrir að láta fólk hverfa en ef Haukur er á annað borð látinn þá eiga aðstandendur hans heimtingu á því að líkið sé meðhöndlað í samræmi við alþjóðalög.

Samkvæmt okkar heimildamanni birtust þessar myndir á
vefsíðu stuðningsmanna Erdoğans fyrr í þessum mánuði

Svo virðist sem þessi mynd sýni sama lík og fyrsta myndin
en það hefur verið fært úr stað og hettan dregin niður

Samkvæmt upplýsingum frá Borgaraþjónustu Utanríkisráðuneytisins neita tyrknesk stjórnvöld því að þau hafi lík Hauks undir höndum. Það stangast reyndar á við fréttir tyrkneskra fjölmiðla sem héldu því fram í marsmánuði að líkið yrði sent heim. Eins og ykkur mun kunnugt um hafa ráðuneyti ykkar synjað óskum fjölskyldu og vina Hauks um að leita skýringa á þeim fréttum. Starfsmenn ykkar skýla sér á bak við þau fráleitu rök að íslensk stjórnvöld hafi ekki rannsóknarheimildir í Tyrklandi, rétt eins og einföld fyrirspurn um efni fréttar eigi eitthvað skylt við lögreglurannsókn. Á sömu forsendum hafa starfsmenn ykkar neitað að spyrja tyrknesk stjórnvöld hvort búið sé að hirða lík af svæðinu. Sé það rétt sem tyrknesk stjórnvöld segja, að þau hafi lík Hauks ekki undir höndum, gæti verið að það sé í fjöldagröf eða undir rúst af eina mannvirkinu á svæðinu þar sem sagt er að hann hafi verið drepinn. Líklegast er þó, samkvæmt frásögnum íbúa Afrín og myndum sem nú eru í dreifingu á samfélagsmiðlum, að lík hans liggi á víðavangi, óvarið ágangi dýra.

Við höfum áður bent á að Tyrkir eru alræmdir fyrir þá ósvinnu að fleygja líkum andstæðinga sinna í fjöldagrafir án þess að gera nokkra tilraun til að bera kennsl á þau eða koma þeim í hendur ættingja. Það getur verið réttlætanleg neyðarráðstöfun að setja lík í fjöldagröf en það er ekki ásættanlegt að slík meðferð sé viðtekin venja. Nóg er um sannanir fyrir mun grófari meðferð Tyrkja á líkum og í sumum tilvikum engum vafa undirorpið að um hreina og klára stríðsglæpi er að ræða. Sem dæmi má nefna að til er myndskeið frá október 2015, sem sýnir hertrukk Tyrkja draga lík af kúrdískum borgara eftir götunni. Tyrknesk stjórnvöld héldu því í fyrstu fram að myndskeiðið væri falsað en sögðu síðar að meðferðin á líkinu hefði verið varúðarráðstöfun þar sem grunur hefði leikið á um að sprengja væri fest við líkið. Nýlegt myndband frá Afrín sýnir hermenn misþyrma líki kúrdískrar bardagakonu. Þar eru að verki FSA-liðar, sem ásamt liðsmönnum Islamska ríkisins herjuðu á Kúrda í Afrín í umboði Tyrkja á þeim tíma sem myndskeiðið var tekið. Þetta eru aðeins tvö dæmi um glæpi af þessu tagi sem eru á ábyrgð tyrkneskra stjórnvalda, mörg álíka eru auðfundin. Og nú koma fram þessar myndir af líkum sem hafa legið mánuðum saman á víðavangi í nágrenni þéttbýlis. Það er ekki aðeins vanvirðandi meðferð á líkum heldur einnig verulega ámælisvert af heilbrigðisástæðum, ekki síst í héraði þar sem aðgengi stríðshrjáðra íbúa að hreinu vatni og heilbrigðisþjónustu er takmarkað.

Í nágrenni Afrín eru ræktarlönd, beitilönd og leiksvæði barna sem mörg hafa misst
vini og aðstandendur í árásum Tyrkja og bandamanna þeirra – Islamska ríkisins

Vísbendingar um að tyrknesk stjórnvöld meðhöndli lík þeirra sem hersveitir þeirra hafa drepið, þar með talið lík íslensks ríkisborgara (ef hann er þá látinn) sem hvert annað hundshræ, í trássi við alþjóðalög, hljóta að vekja athygli og hneykslan íslenskra stjórnvalda. Því spyrjum við:

  1. Ætlið þið enn að halda því fram að þið GETIÐ EKKI haft samband við tyrknesk stjórnvöld og spurt þau að minnsta kosti að því hvort þau hafi staðið við þá skyldu sína að hirða lík af svæðinu, og ef ekki, hversvegna þau telji sér stætt á því?
    .
  2. Hafið þið beitt ykkur gagnvart NATO, sem þið sem ríkisstjórn eruð hluti af, og krafist þess að bandalagið gangi hart að tyrkneskum yfirvöldum með kröfu um að þau sinni þeirri skyldu sinni að leita uppi öll lík á svæðinu og koma þeim til aðstandenda?  Ef svo er, með hvaða hætti?  Ef ekki, hvers vegna ekki?
    .
  3. Ef það er virkilega ætlun íslenskra stjórnvalda að krefja Tyrki ekki neinna svara um hugsanleg brot þeirra á alþjóðalögum í tengslum við mál Hauks Hilmarssonar – hvað þarf þá eiginlega til þess að ykkur finnist slík afskipti viðeigandi? Væri afstaða ykkar önnur ef faðir Hauks héti ekki Hilmar Bjarnason, heldur Bjarni Benediktsson eða ef móðir hans væri ekki pistlahöfundur heldur forsætisráðherra?

Með ósk um skjót svör og afdráttarlaus
Hilmar Bjarnason, Fatima Hossaini, Darri Hilmarsson og Eva Hauksdóttir

 

 

Yfirlýsing Íslands vegna árásanna á Sýrland er fundin!

Vera má að hernaðarbandlög séu nauðsynlegt (en ekki nægjanlegt) skilyrði þess að fyrirbyggja átök og stöðva grimmdarverk. Nú skulum við gefa okkur það í smástund og sömuleiðis að aðild Íslands að NATO eigi rétt á sér. Margt bendir til þess að ógnarstjórn Assads Sýrlandsforseta hafi, með fulltingi Rússa, beitt efnavopnum í Douma nú á dögunum. Slíkt á aldrei að líðast en þar sem Öryggsráð Sameinuðu þjóðanna þjónar ekki heimsfriði heldur hagsmunum fimm stórvelda er ekki hægt að ná samstöðu um refsiaðgerðir eða nokkrar þær aðgerðir sem gætu dregið úr hættunni á eiturefnahernaði. Og þegar alþjóðastofanir bregðast kann að vera réttlætanlegt að fara fram hjá alþjóðalögum. Lög á aldrei að setja ofar mannúðarsjónarmiðum.

Gefum okkur þetta allt en spyrjum samt: til hvers eru hernaðarbandalög ef ekki einmitt til þess að tryggja að staðið sé skynsamlega og réttlátlega að þeim hernaðaraðgerðum sem þykja nauðsynlegar? Hverskonar bandalag er það sem lætur einstaka meðlimi komast upp með einleik án nokkurs samráðs við þjóðþing sín, bandalagið sjálft eða önnur aðildarríki, og samþykkir aðgerðir þeirra eftir á?

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar
Ríkistjórn Katrínar Jakobsdóttur lagði nafn sitt við yfirlýsingu NATO, þar sem lýst var yfir „fullum stuðningi“ við loftárásir á Sýrland. Katrín reyndi síðar að klóra yfir það með þeirri furðulegu þversögn að Ísland hefði ekki stutt aðgerðinar „sérstaklega“. Eins og það dragi eitthvað úr alvarleika sameiginlegrar yfirlýsingar þótt henni sé ekki fylgt eftir með yfirlýsingu einstaka ríkis. Í þessum pistli gerði ég að umræðuefni fullyrðingar Kristrúnar Heimisdóttur um yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem að hennar sögn var eða verður lesin upp „í sendiráðum og utanríkisráðuneytum um allan heim“. Mátti af orðum Kristrúnar skilja að með þeirri yfirlýsingu hefði ríkisstjórnin á einhvern hátt komið því til skila að stuðningur hennar við aðgerðirnar væri ekki eins „fullur“ og yfirlýsing NATO ber með sér. Ég undraðist að svo mikilvæg yfirlýsing hefði hvergi birst í fjölmiðlum eða á vef Utanríkisráðuneytisins og sendi því fyrirspurn til Kristrúnar og til aðstoðarmanna utanríkisráðherra og forsætisráðherra.

Í fyrradag barst mér svar frá aðstoðarmanni Katrínar Jakobsdóttur. „Yfirlýsingin“ sem um ræðir mun vera þessi Twitter-færsla Utanríkisráðherra.

„Aðrar yfirlýsingar ráðamanna“ voru að sögn aðstoðarmannsins birtar í fjölmiðlaumfjöllun helgarinnar.

Nú skiptir að sönnu töluverðu máli hvað valdafólk segir á samfélagsmiðlum. Ekki hefði mér þó dottíð í hug að Twitter-síða Guðlaugs Þórs væri vettvangur fyrir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar til NATO eða alþjóðasamfélagsins. Ég hélt satt að segja að Twitter væri persónulegur vettvangur og þótt grannt sé fylgst með Twitter-vegg valdamesta manns veraldar hef ég enn ekki heyrt talað um tíst Donalds Trump sem yfirlýsingu ríkisstjórnar Bandaríkjanna. Ísland er kannski forystusauður í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum? Ætli þetta tíst flokkist einnig sem yfirlýsing ríkisstjórnarinnar?

https://twitter.com/GudlaugurThor/status/970043032346222592

Hvorki tíst Guðlaugs Þórs né nokkuð af því sem Katrín Jakobsdóttir sagði í fjölmiðlum um síðustu helgi hefur á sér blæ yfirlýsingar af hálfu ríkisstjórnar sem líklegt er að stjórnvöld eða sendiráð annarra ríkja sjái ástæðu til að lesa upp eða gefa nokkurt vægi. Eitthvað finnst mér líka ósennilegt við að Twitter-veggur Guðlaugs Þórs sé vaktaður. Hann kann að vera álíka mikill hálfviti og Donald Trump en hann er ekki nógu voldugur eða áhugaverður til þess að líklegt sé að utanríkisráðuneyti annarra ríkja leggi sig eftir orðum hans, hvort heldur það eru skoðanir hans á alþjóðamálum eða dálæti hans á Kúst og fæjó. Því síður er trúlegt að ráðuneyti og sendiráð fylgist með Víglínunni eða lesi fréttir íslenskra fjölmiðla.

Vannýtt tækifæri
Ríkisstjórn Íslands þurfti ekkert að samþykkja þessa yfirlýsingu. Það hefði ekki haft neinar neikvæðar afleiðingar að hafna því en hefði hinsvegar vakið athygli og gefið íslenskum ráðamönnum tækifæri til að tala fyrir friðsamlegum lausnum og ræða eðli hernaðarsamvinnu á alþjóðlegum vettvangi. Jafnvel þótt stjórnvöld telji loftárásir á Sýrland „viðbúnar og skiljanlegar“, hefðu þau getað notað þetta tækifæri til þess að brýna fyrir stórveldunum að hernaðarsamstarf hljóti að byggja á samráði og að „bandalag“ merki ekki að stóru strákarnir séu með litlu krakkana í bandi. Þau hefðu getað lýst yfir skilningi á þeirri afstöðu að hernaðaraðgerðir kunni að vera réttmætar en sagt um leið að slíkar ákvarðanir séu ekki á hendi einstakra ríkja. Þau hefðu meira að segja getað bjargað heiðri sínum með því að samþykkja yfirlýsingu NATO en gefa um leið út formlega yfirlýsingu um að Ísland muni ekki framar styðja hernarðaraðgerðir aðildaríkja NATO nema fá tækifæri til að ræða þær áður en farið er af stað.

Sannleikurinn um yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna geðþóttaákvörðunar þriggja stórvelda um loftárásir á Sýrland er sá að Guðlaugur Þór Þórðarson og Katrín Jakobsdóttir lýstu yfir „fullum stuðningi“ við þá ákvörðun og afleiðingar hennar. Það er eina „yfirlýsingin“ sem þau hafa sent frá sér varðandi þetta mál. Það er grátlegt og leitt og ekki síður ömurlegt að þau skuli vera að reyna að klóra yfir það.

Hver verða viðbrögðin næst?
Hversu gagnlegur er utanríkisráðherra sem fylgir stórveldum eins og hlýðinn rakki þegar þau fara á svig við þau prinsipp um samvinnu og samráð sem sjálf hugmyndin um bandalag byggist á? Og hversu trúverðugur er forsætisráðherra sem segist vilja leysa málin á vettvangi Sameinuðu þjóðanna en viðurkennir samt réttmæti árásarstríðs þegar niðurstaða Sameinuðu þjóðanna er ekki í takti við óskir hans? Við hverju má búast af þessu fólki næst þegar svokallaðir bandamenn okkar varpa sprengjum án þess að leita álits þjóðþinga sinna eða samstarfsríkja? Mun þá skipta einhverju máli hvort mannfall verður eða hvort heimstyrjöld brýst út í kjölfarið?

Mun Guðlaugur Þór segja á Twitter að á Íslandi sé alveg stemning fyrir heimsstyrjöld en að það væri samt kúl að skoða „pólitískar lausnir“? Mun Katrín Jakobsdóttir segja að stuðningsyfirlýsing sé í raun eitthvað annað en stuðningsyfirlýsing?

Munu kjósendur Vg taka þá afstöðu að mannfall hafi svosem verið viðbúið en að ríkisstjórnarsamstarfið toppi réttinn til lífs?