Fjórða kort mitt til Erdoğans

Viðbjóðurinn Erdoğan hefur ákveðið að flýta kosningum. Ekki svo að skilja að í Tyrklandi fari fram frjálsar kosningar en hann telur sennilega minni líkur á því að hann mæti andstöðu nú en eftir ár. Bæði af því að efnahagur landsins er á niðurleið og vegna þess að hann er að herða ritskoðun og hann veit að fólki mun líka það æ verr. Með því að boða til kosninga strax sviptir hann andstæðinga sína raunhæfu tækifæri til að kynna stefnu sína. Áhrifin verða þau, ef hann nær kosningu, að hann fær í hendur það alræðisvald sem fallist var á að veita forseta í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir ári.

Ég sendi honum þessa kveðju hér að ofan í morgun.

Ljóð til Erdoğans

Mér finnst nú frekar lélegt hjá sendiráði Tyrklands í Osló að staðfesta ekki einu sinni móttöku á póstinum frá mér. Ég ætla rétt að vona að kortin frá mér komist til skila. Þúsundir hafa sætt lögreglurannsókn og margir þeirra verið sakfelldir fyrir að mógða karlhelvítið, og hann hefur iðulega krafist þess að færslur um hann séu fjarlægðar af samfélagsmiðlum, svo það virðist auðvelt – komist boðin á annað borð til skila.

Það er uppi einhver misskilningur um að ég telji að það að ausa skít yfir Erdoğan komi að gagni við leitina að syni mínum. Ég skil eiginlega ekki hvernig nokkrum getur dottið það í hug. Fyrst Tyrkir eru ekki löngu búnir að gefa einhverjar upplýsingar um afdrif Hauks þá annaðhvort ætla þeir sér ekki að gera það eða þá að þeir vita ekki neitt. Ég tala hreint út um álit mitt á Erdoğan sjálfri mér til skemmtunar og vegna þess að ég vil að Alþingi Íslendinga viðurkenni rétt minn og annarra til að mógða fínimenn til jafns við óbreytta borgara.

Og það mun ég gera áfram. Hvenær sem mér dettur það í hug. Hvort sem ég er á íslensku vefsvæði eða íslenskri grund og hvort sem mektarmennið heitir Erdoğan, Trump eða eitthvað annað. Það er einfaldlega ógeðslegt að árið 2018 skuli vera í gildi lög sem veita helstu drullusokkum veraldarinnar vernd frá áliti annarra á embættisfærslum þeirra og innræti.

 

Önnur kveðja til Erdoğans

Ræðismaður Tyrklands á Íslandi svaraði beiðni minni um að koma kveðju minni til Erdoğans á miðvikudag. Hann var hinn elskulegasti og sagðist hafa framsent hana á sendiráðið í Osló, sem sér víst um samskiptin við Tyrkland. Ég hafði reyndar sent þeim póstinn líka og mun þá snúa mér þangað hér eftir. Halda áfram að lesa

Kveðja til Erdoğans

Á Íslandi er refsivert að mógða erlenda þjóðhöfðingja. Sú ágæta þingkona Steinunn Þóra (ein af þeim fáu sem hefur tekið raunverulega afstöðu með kúguðum og hrjáðum) hefur beitt sér fyrir því að þessi miðaldastemning verði afnumin úr íslenskum lögum en uppáhaldsráðuneytið mitt leggst gegn því. Það þarf að vernda fínimenn – valdníðinga jafnt sem þá virðingarverðu – frá skoðunum almennra borgara á þeim.

Ég er tilbúin til þess að láta reyna á þessi lög. Ekki bara svona upp á grínið heldur af því að mér finnst full ástæða til þess að móðga tiltekna þjóðhöfðingja. Í augnablikinu er það níðingurinn Erdoğan sem mér finnst liggja mest á að smána og auðvitað spilar það inn í að ég get ekki reiknað með að sjá son minn aftur. Ég er að vísu stödd utan íslenskrar lögsögu í augnablikinu en ef kemur að því að við sjáum ástæðu til að halda minningarathöfn getur hinn viðurstyggilegi þjóðhöfðingi Tyrkja haft samband við yfirvaldið og látið reyna á móðgunarrétt sinn gegn málfrelsi mínu.

Ég sendi þetta kort hér að ofan á ræðismann Tyrklands á Íslandi núna áðan með eftirfarandi texta:

Æruverðugi ræðismaður Tyrklands á Íslandi

Getur þú komið til skila þessari hugvekju minni til þjóðarleiðtogans og fasistaforingjans Erdoğans? Ég mun einnig birta hana á vefsvæði mínu http://www.norn.is en tel öruggast að koma henni í þínar hendur svo hún fari áreiðanlega ekki fram hjá honum.

Með kveðju
Eva Hauksdóttir