Spáaðilinn og þjóðskáldið

Í lófa þínum les ég það
að lífið geti kennt mér að
ég fæ aldrei nóg…

Heilagur krapi! Heyri ég rétt? Er textinn virklega svona? Eða á það að vera að lífið geti kennt mér tað? Það væri allavega einhver vitglóra í því þótt eigi sé sköruglega kveðið.

Hafi ég skilið þetta rétt er ljóðmælandinn lófalesari sem fær aldrei nóg (af ástkonu sinni held ég). Það er nú sú dýrmæta lexía sem hann getur lært af lífinu. Hann kemst hinsvegar ekki að því fyrr en hann tekur til við að lesa í lófa elskunnar sinnar en þar stendur þessi merki vísdómur skráður. Grey konan að vera með manni sem les í lófann á henni og sér þar bara eitthvert bull um sjálfan sig. Er hún svo upptekin af fávitanum að drullusokkasegulsheilkennið komi fram í lófa hennar? Eða er hann of sjálfhverfur til að sjá nokkuð annað en sjálfan sig í lófum annarra?

Er ljóðmælandinn fáviti? Eða er það ég sem er of vitlaus til að ráða í hina djúpu merkingu þjóðskáldsins? Er ekki annars hægt að kalla menn þjóðskáld þegar kvæði þeirra eru valin sem framlag þjóðarinnar til fjölþjóðlegrar söngvakeppni?

 

One thought on “Spáaðilinn og þjóðskáldið

  1. Tjásur:

    Tja… stórt orð, þjóðskáld. Mér finnst það ekki fara Kristjáni -leirkerasmiður er nær lagi.

    Posted by: Jón Kjartan Ingólfsson | 2.05.2007 | 20:25:50

    —————————————————

    Sko..Hann les úr lófa elskunnar sinnar, þegar þau leiðast hönd í hönd eins og kemur fram í öðru erindi, leyndarmálið góða sem er; að lífið geti kennt honum að hann fái aldrei nóg.

    Að gera sér grein fyrir að lífið geti, jafnvel eigi að kenna manni sitthvað er ákveðinn áfangi í þroska hvers einstaklings. Að fá vísbendingu um það úr lófa elskunnar sinnar, hvort sem það er þegar hann skellur flatur á kinn þinni eða hann mætir þínum eigin í alúð og elsku, er alls ekki óvenjulegt. Um það eru mörg dæmi allt aftur í íslendingasögurnar. En hvort sem hann á við að „fá aldrei nóg “ af henni eða bara svona yfirleitt, þá má greina fýkilinn í gegnum trosið.

    Aðra hendingu í textanum er þó mun torveldara að skilja. „Um lífið leikum við“. Þetta verður að teljast hrein og klár ambaga á borð við, ef ekki verri en, „floginn í veg“ hjá KK í Vegbúanum. Annað hvort hefur Eiríkur dvalist of lengi í útlöndum, (eins og KK) og man ekki lengur að lífið leikur við okkur þegar vel gengur, eða hann er svo háfleygur og langsóttur að hann sé að skýrskota til þess að lífið sé leiksvið. Um leiksvið hægt er, með góðum vilja að leika lausum hala, þó algengara sé að á því sé leikið.

    Um hvort höfundur þessa leirburðar sé þjóðskáld þá sýnist mér hann vera á góðri leið. Hvað gerist (Guð og góðar vættir forði okkur frá því) ef hann vinnur? Ódauðleikinn uppmálaður.

    Posted by: SG | 2.05.2007 | 20:40:31

    —————————————————

    Var það ekki „floginn í vind“ hjá KK? Ég hélt alltaf að þetta ætti að vera svona fremur lúðalegt tilbrigði við „gone with the wind“ en mér getur vel hafa misheyrst.

    Posted by: Eva | 2.05.2007 | 20:51:06

    —————————————————

    Okkur er borgið Eva. Texanum var breytt og hann er ekki eftir Eirík. Einhver annar útlensku-mengaður maður að nafni Kristján „orti“ hann

    Ég les í lófa þínum leyndarmálið góða
    Ég veit það nú ég veit og skil
    Það er svo ótal margt sem ætla ég að bjóða
    Já betra líf með ást og yl.

    Í lófa þínum les ég það
    Að lífið getur kennt þér allt
    Ég fæ aldrei nóg
    Ég vil bara kvöld með þér
    Og fljúga yfir land og sjó

    Það er svo augljóst nú að allir draumar rætast
    Við höldum frjáls um höf og lönd
    Um lífið leikum við og lófar okkar mætast
    Þá leiðumst við já hönd í hönd

    (Viðlag)
    Í lófa þínum les ég það
    Að lífið getur kennt þér allt
    Ég fæ aldrei nóg
    Ég vil bara kvöld með þér
    Og fljúga yfir land og sjó
    Ég ætla að fara alla leið

    Með ást á móti sorg og neyð
    Ég fæ aldrei nóg
    Ég vil bara kvöld með þér
    Og fljúga yfir land og sjó

    Posted by: Anonymous | 2.05.2007 | 21:00:36

    —————————————————

    Þú færð aldrei að gleyma þegar ferðu á stjá
    Þú átt hvergi heima nema veginum á.
    Með angur í hjarta og dirfskunnar móð
    þú ferð þína eigin ótroðnu slóð

    Vegbúi, sestu mér hjá segðu mér sögur
    já segðu mér frá, þú áttir von
    nú er vonin, farin á brott flogin í veg.

    Eitt er að dreyma og annað að þrá
    þú vaknar að morgni veginum á.

    Posted by: SG | 2.05.2007 | 21:03:06

    —————————————————

    Kristján Hreinsson já. Sá sami og yrkir ALLA dægurlagatexta þessa dagana. Herregud hvað ég sakna Jónasar Árnasonar. Hvernig datt þér annars í hug að textinn væri eftir Eirík?

    Posted by: Eva | 2.05.2007 | 21:07:37

    —————————————————

    „Að lífið geti kennt mér allt.“ Þetta var nú aldeilis fín redding.

    Posted by: Eva | 2.05.2007 | 21:10:14

    —————————————————

    Hann er sagður eftir Eirík á síðunni sem þú vísaðir til.

    Posted by: SG | 2.05.2007 | 21:11:38

    —————————————————

    „kennt þér allt“ . Þetta er nú bara fyndið. Ég verð greinilega að leggjast yfir þetta fyrir alvöru og pæla út meininguna.

    Posted by: SG | 2.05.2007 | 21:14:55

    —————————————————

    Þetta er ótrúlegt hnoð!

    Posted by: Harpa J | 2.05.2007 | 22:49:33

Lokað er á athugasemdir.