Gestapistill – Búum okkur undir breytta framtíð

Hanna(mbl

Mynd: mbl,is/Hanna

– Gestapistill eftir Guðmund Karl Karlsson 

Ég heiti Guðmundur Karl Karlsson, ég er fæddur 1982 og ég gef kost á mér í prófkjöri Pírata í Suðvesturkjördæmi. Ég er tveggja barna faðir, Bryndís (9 ára) og Aron Daði (15 ára) og giftur ástinni í lífinu Rögnu Engilbertsdóttir (xx ára) og við eigum Labradorinn Atlas (7 mánaða). Við erum mjög hefðbundin samheld millistéttarfjölskylda. Við höfum sterka réttlætiskennd og vinnum saman að góðum málefnum.

 

Ég er með engu móti hefðbundinn pólitíkus. Ég tel mig vel upplýstan og fylgist vel með umræðunni og gangi mála. Ég þekki líka af eigin reynslu þau  áhrif sem stjórnvöld geta haft á daglegt líf fjölskyldna.

 

Gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta

Ég finn það í eigin bókhaldi þegar læknaþjónusta hækkar í verði og ég hef verið í þeirri stöðu að draga á langinn mikilvægar myndatökur og jafnvel aðgerð sem var nauðsynleg vegna kostnaðar. Ég greindist með fibrous dysplasia fyrir nokkrum árum. Þar sem vandamálið var í kinnholu og nálægt tönnunum þurfti ég að fara til kjálkaskurðlæknis. Einhverra hluta vegna var þetta flokkað sem tannlækning. En ef ekkert hefði verið  gert hefði það á endanum geta orðið mitt banamein. Þessi aðgerð kostaði mig heil mánaðarlaun fyrir skatt.

Ég var sem betur fer í þeirri stöðu  að geta fengið lán fyrir þessari aðgerð og borgaði hana á heilu ári með vöxtum. En það eru ekki allir svona staddir. Það er ekki ásættanlegt að fólk þurfi að hugsa sig um áður en það til læknis og allt vegna kostnaðar. Það er ekki ásættanlegt, þegar einhver er með alvarlega verki og þarf að fara í myndatöku sem mögulega leiðir til krabbameinsgreiningar og sleppir því eða hikar við að fara, vegna þess að það kostar tugþúsundir. Enn síður er það ásættanlegt að fái maður slíka greiningu, þá geti það sett viðkomandi á hausinn þrátt fyrir áratuga langan starfsferil með tilheyrandi skattgreiðslum.

Ég er í ágætri stöðu í dag, og ég hef nýtt mér þessa forréttindastöðu til að standa vörð um réttindi og öryggi þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu. Ég vil tryggja öllum gjaldfrjálsa, öfluga heilbrigðisþjónustu. Ég fór í ekki ósvipaða aðgerð á Bretlandi, þar sem ég bjó í 7 ár, þar sem reynt var að sporna við því sem leit út eins og auka tönn í kinnholunni. Sú aðgerð kostaði mig ekki krónu. Ég komst líka að í þá aðgerð á aðeins örfáum dögum.

Það má því segja að mín stefna í heilbrigðismálum sé einfaldlega gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta fyrir alla. Ég set mig ekki á móti einkareknum stofnunum í þessum geira. En það á alls ekki að vera þannig að hin almenna heilbrigðisþjónusta reiði sig á slíka þjónustu til að sinna nauðsynlegum verkum. Þær stofnanir þurfa þá að vinna inn fyrir sínu og bjóða uppá eitthvað afburðargott sem er hægt að niðurgreiða, kjósi fólk að fara þangað. Það þarf þá að dekka þann umframkostað sem það kann að hafa í för með sér. Því einkavæðingin sem við erum að sjá í dag hefur ekki skilað sér í betri þjónustu. Ég fæ það á tilfinninguna þegar ég fer á slíka stofnun að enn sé um slaka ríkisþjónustu að ræða nema ég þarf að dekka stóran hluta kostnaðarins sjálfur.

Það er mér að öllu leiti óskiljanlegt hvers vegna ný fjárlög gera ráð fyrir 44 milljörðum í afgang sem ætti nýta til að hluta að uppfæra úr sér gengin og biluð tæki á landsspítalanum sem eru með vikna, mánaða eða jafnvel áralanga bið fyrir fólk að komast í.

 

Virðum stjórnarskrá og mannréttindasáttmála

Ég vil að mínir stuðningsmenn viti að þegar ég tala um fólkið í landinu þá er ég að tala um alla án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti eins og stendur skýrum stöfum í Stjórnarskrá Íslands.

Ég er hlynntur því að stjórnarskráin verði endurskoðuð og að tillögur Stjórnlagaráðs verði notaðar sem grunnur fyrir þeim breytingum. En það skiptir nákvæmlega engu máli ef við erum ekki að virða núverandi stjórnarskrá með tilliti til mannréttinda, né tilvonandi stjórnarskrá. Við þurfum að slípa til stjórnsýsluna fyrst og fremst og tryggja að réttindi fólks séu tryggð m.t.t. stjórnarskránna hvort sem það er núverandi eða tilvonandi. Í minni baráttu fyrir réttindum flóttafólks hef ég því miður orðið vitni af því að það sé troðið á þessum réttindum í þeim tilgangi að losa okkur við annars vinnandi samfélagsþegna og börn þeirra. Þetta er sérstaklega alvarlegt þar sem réttindi barna sem eru bundin stjórnarskrá eru brotin ítrekað með því að taka ekki tillit til þeirra hagsmuna óháð stöðu foreldris.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna:


2. gr. 

1. Aðildarríki skulu virða og tryggja hverju barni innan lögsögu sinnar þau réttindi sem kveðið er á um í samningi þessum, án mismununar af nokkru tagi, án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, uppruna með tilliti til þjóðernis, þjóðhátta eða félagslegrar stöðu, eigna, fötlunar, ætternis eða annarra aðstæðna þess eða foreldris þess eða lögráðamanns.

2. Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða athafna foreldra þess, lögráðamanna eða fjölskyldumeðlima, eða sjónarmiða sem þeir láta í ljós eða skoðana þeirra.

Það sem við erum að sjá gerast núna í öllum tilfellum að það sem er túlkað barninu fyrir bestu er að vera með foreldrum sínum. Og foreldrarnir fá neitun á sinni hælisumsókn oftast með vísan í Dyflinnarreglugerðina. Sem þýðir að málið þeirra er ekki einu sinni tekið til efnislegrar meðferðar. Því er foreldri vísað úr landi og barnið með. Það er hárrétt að það er barninu fyrir bestu að vera með foreldrum sínum, en í þessu liggur brotið á réttindum barnsins. Barnið á að fá sína meðferð óháð foreldri, það á að fá áheyrn og það á að gera það sem er því fyrir bestu. Sem í öllum tilfellum sem ég þekki þýðir að það eigi áfram að fá að vera hér og stunda sitt nám, vera með sínum vinum, og njóta félagslegrar aðstoðar og verndar. Og því á foreldrið líka að fá að vera hér með barninu sínu. Þetta er efni í aðra grein, en fyrir áhugasama vil ég vísa í frábæra grein Evu Hauksdóttur sem kafar mun dýpra í þessi mál.

Það er því mín áhersla að við vinnum saman að nýrri stjórnarskrá. En mitt áhersluatriði verður ávalt að tryggja að við förum eftir þeirri stjórnarskrá sem kann að vera í gildi.

 

 

Nýtum auðlindir í þágu okkar allra

Nú búum við ansi vel með tilliti til auðlinda. Orka er næg, vatnið hreint, fiskurinn sprækur og ferðamannaþjónustan blómstrar, með sveiflum þó eins og gengur og gerist. Eins og dæmin hafa kennt okkur gegnum tíðina þá mun það alltaf enda með auðsöfnun einstakra aðila þegar þessir gersemar sem eiga að heita okkar allra eru færðar markaðnum. Fyrirtæki á markaði munu ávalt leita leiða til að hámarka innkomu og hugsa um hagsmuni hluthafa eins og fyrirtækjalög gera ráð fyrir. Þetta getur ekki leitt gott af sér. Svo erum við að sjá þessa fjármuni hverfa í skjól á aflandseyjum og þeir eru ekki nýttir í þágu landsmanna með fjárfestingum og atvinnusköpun eins og fræðin vilja reyna að sannfæra okkur um (e. trickle down theory). Það gerist að sjálfsögðu að einhverju marki, en það er ekki ásættanlegt að einstaka fólk sitji á auðnum og greiði ekki af honum skatta. Ef að þessir auðsafnarar væru að safna dagblöðum væru þeir lokaðir inná viðeigandi stofnun og settir í meðferð við söfnunaráráttu.

Peningarnir eiga að vinna fyrir okkur öll, ekki útvalda. Ég er ekkert á móti því að fólki vegni vel, eignist meira en annar, enda eru peningar ekki allt í lífinu. En það verður að tryggja jöfnuð upp að því marki að við njótum öll góðs af með tilliti til öryggis, mannréttinda og sómasamlegs lífs. Því er ég líka hlynntur svokölluðum borgaralaunum. Einföldun á núgildandi bótakerfi sem nær yfir öryrkja, atvinnulausa og fleiri, er að mínu mati skynsamleg leið. Við eigum að nýta okkar auðlindir, láta þær vinna fyrir okkur og tryggja öllum að lágmarki borgaralaun, sem eiga að duga fyrir sómasamlegu lífi og að enginn búi undir fátæktarmörkum. Þessi laun má svo ekki skerða með neinum hætti.

Það sem ég vil líka sjá er jákvæður hvati, ekki alltaf þessi neikvæða refsing. Þannig að ef öryrki sem hefur til að mynda verið smiður, eða af öðrum ástæðum langveikur og ekki fær í líkamlega vinnu þá vil ég að við séum með hvatakerfi og styrki sem gerir viðkomandi kleift að fara í nám og taka sér fyrir hendur starf á vettvangi sem viðkomandi treystir sér í. Án þess að skilda viðkomandi eða refsa á nokkurn hátt komist hann í launað starf. Því vil ég sjá samræmi á frítekjumarki og borgaralaunum þannig að þegar viðkomandi kemst í vinnu, koma launin út á það sama og hann nýtur hagnaðar af því að vinna. Þetta markmið tel ég ekki aðeins hagkvæmt fyrir þjóðarbúið, heldur heilsubætandi fyrir viðkomandi. Það er í okkar eðli að við viljum leggja okkar að mörkum.

 

Tryggjum öllum aðgang að góðri menntun

Ég vil sjá sambærilegt kerfi og er í Danmörku fyrir menntafólk. Ég vil að við veitum námsstyrki ekki lán. Heimurinn er að breytast hratt, og verkamannastörf eru í auknum mæli að víkja fyrir vélrænum tækjum og gervigreind. Ef við ætlum að tryggja öllum skapandi vinnu í framtíðinni og til að getum verið samkeppnishæf þjóð, þá þurfum við vel menntað fólk á öllum sviðum.  Því er gríðarlega mikilvægt að þeir sem það kjósa, komist í nám, geti framfært sér á meðan námi stendur og komi ekki út úr því með ártugalanga skuld á bakinu. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir nám sem getur tekið mjög langan tíma og skilar samfélaginu gríðarlega miklu. Þá er mér efst í huga lækna- og hjúkrunarnám.

Hvað varðar grunnskólanám þá er ég að horfa uppá 9 ára dóttur mína koma heim með námsgögn sem ég notaði þegar ég var á hennar aldri og móðir mín jafnvel líka.

Grunnskólanámið er að mörgu leyti úrelt, og þekkingu vantar til að kenna mikilvæg fög til að búa börn undir tölvubyltinguna sem er í hámarki. Enn er verið að vinna færibandavinnu með námsstefnu sem samræmist meira iðnbyltingu en tölvubyltingu. Ég hef rætt þetta við kennara, allir eru sammála, og ég veit að allir eru að gera sitt besta.

Komum vel fram – þá getum við verið stolt af þjóðerni okkar

Ég veit að við eigum frábært fólk í skólum landsins með mikinn metnað, en alltaf heyri ég sömu skýringuna; við höfum ekki fjármagn til að þjálfa kennara eða kaupa tækin og tólin sem þarf. Það er líka gríðarlega mikilvægt að kenna börnum að nota veraldarvefinn með ábyrgum og öruggum hætti. Því miður ganga nú miður góðar myndir og athugasemdir sem kunna að koma illa í bakið á viðkomandi. Það sem börnin þurfa að læra og skilja er að það sem þau gera á netinu, verður á netinu um ókomna tíð.

Ég hef ávalt verið stoltur af því að vera Íslendingur. Þegar landslið Íslands komst í 16 liða úrslit á Evrópukeppninni þá pantaði ég miða út án þess að hafa miða til baka, stað til að gista á eða miða á leikinn. Það reddaðist og ég sat á fínum stað ásamt bláókunnu fólki sem ég faðmaði í gríð og erg eftir mörkin og lokaflautuna. Ég fylltist gæsahúð við að sjá stemninguna á Austurvelli þennan dag og við heimkomu landsliðsins.

Ég mæti á þá leiki sem ég get, bæði hjá karla og kvennalandsliðinu sem eru ekki nægjanlega margir uppá síðkastið. En þessu stolti fylgir ekki sú hugmynd að þetta sé eitthver arfleið sem ég á af því ég fæddist á Íslandi og er Íslendingur. Þetta er arfleið og stolt sem mig langar að deila með þeim sem hafa áhuga á að kenna sig við Ísland og Íslendinga.

Ég læt mig innflytjendamál mikið varða og þar læt ég skynsemi ráða. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að fá til okkar fólk sem vill og getur unnið. Mig svíður í eyrun þegar einhver talar um kostnað vegna innflytjenda en tekur ekki með í reikninginn skattheimtuna af þessum hópi fólks sem kemst til vinnu þann stutta tíma sem þau fá að vera hér í hælisleitarferli. Það er ekki bara mannvonska að senda burt fjölskyldur þar sem annar eða jafnvel báðir foreldrar vinna og greiða skatta, leigu og sjá fyrir sér sjálf – það er óhagkvæmt.

Ég þekki fólk sem eru bæði löglegir innflytjendur frá Schengen, efnahagsflóttamenn og flóttamenn frá stríðshrjáðum löndum. Ég þekki persónulega mikið af fólki sem mun lenda í alvarlegum lífsháska verði þau send á brott, og ég þekki fólk sem hefur verið flutt á brott og dottið af radar. Ég er mjög hræddur um að eitthvað af þessu fólki er nú látið eða í felum við miður góðar aðstæður. Ég þekki stúlku, 16 ára sem býr nú á munaðarleysingjahæli í Afríku með barni sínu sem hún ól eftir nauðgun. Hún fær ekki að fara í skóla. Við erum líka með mál hér heima sem er hliðstætt og til stendur að senda þá konu af landi brott. Þetta er ekki það Ísland sem ég er stoltur af. Þetta er eitthvað sem ég verð og ætla að stoppa með öllum tilteknum leiðum. Ég vil virkja flóttafólk og innflytjendur á jákvæðan hátt. Nýta þá fjármuni sem settir eru í málefnið til að koma fólki á lappirnar. Það er smávegis kostnaður til að byrja með, en sem skilar sér á þann veg að við björgum lífi fjölskyldna og eignumst virkilega duglega samfélagsþegna. Það er nær undartekningalaust að það fólk sem ég þekki og hefur fengið dvalarleydi hefur náð að vinna harðari höndum en flestir aðrir. Það fylgir því ekkert stolt að reka fólk út í opinn dauðann sem er að hjálpa okkur að hjálpa okkur.

Ég hef líka ávalt fyllst stolti þegar þjóðin tekur sig til og mótmælir þegar tilefni er til. Við höfum sýnt og sannað að við látum ekki ráðamenn vaða yfir okkur og munum ekki hika við að kollvarpa ríkistjórnum séu þær ekki að vinna í þágu fólksins, réttlætis eða af heiðarleika. Ég er mjög hlynntur því að færa völdin frekar til fólksins og ég vil ávalt fara eftir vilja þjóðarinnar. Þ.e. ég vil að ákvarðanir og lög þjóni fjöldanum en ekki einstaka elítu. Því vil ég að fjöldinn fái að tjá hug sinn og hafa bein áhrif á strauma og stefnur stjórnmálmanna.

Fulltrúi fólksins á þingi er starfsmaður á plani.

Þjóðin er yfirmaðurinn.