Fréttir af Mouhamed Lo – frá Hauki Hilmarssyni

Það nýjasta sem er að frétta af máli Mohammeds Lo:

Í desember fór Mohammed fram á að honum yrði skipaður tiltekinn lögmaður sem hefur mikinn áhuga á máli hans. Þegar sá fór fram á að fá gögnin afhent, var honum tjáð að þar sem Mohammed hefði þegar verið skipaður annar lögmaður, væri það ekki í boði.

Nú í lok janúar, fær skipaður lögmaður hans þau svör að Mohammed hafi óskað eftir öðrum lögmanni, þegar hann biður um upplýsingar. Sá lögmaður hefur þó ekkert heyrt um að hann hafi verið skipaður lögmaður hans. Það lítur því helst út fyrir að enginn lögmaður hafi aðgang að upplýsingum um það hvar málið er statt enda þótt tveir lögmenn séu reiðubúnir til að sinna því.

Ég má til að vekja athygli á þessum ágæta pistli Einars Steingrímssonar. Leyfi mér einnig að birta hér svar Hauks við pistli Einars

„Þakka þér góðan pistil Einar en það er samt tvennt sem ég vil setja út á.

Annars vegar þetta með frönskuna. Það er ákaflega varfærnislegt að segja að hann geti ekki tjáð sig á fullnægjandi hátt á henni. Hið rétta er að hann talar litla sem enga frönsku.

Hins vegar þetta með kunningjana. Það er nærtækara að kalla tengsl hans við landið fjölskyldutengsl en vinatengsl.

Fjöldi fólks hefur tekið hann inn á heimili sitt og komið fram við hann eins og einn úr fjölskyldunni og það hefur ekki gerst að ástæðulausu. Mohammed er mjög góður í því að sýna tilgerðarlaust þakklæti og vinsemd auk þess sem styrkur hans og jákvæðni í því að takast á við aðstæðurnar sem hann er í, eru stuðningsfólki hans mikill innblástur.

Mohammed er alltaf að þrífa. Það er látið afskiptalaust af þremur ástæðum. Það er álitið mikilvægt að hann hafi eitthvað fyrir stafni, það er svo sem enginn annar æstur í að sinna þessum verkum og honum þykir greinilega mikilvægt að koma til móts við gestgjafa sína og reyna að vera þeim hjálplegur með einhverjum hætti.

Þegar hann hafði verið í felum í nokkra daga hafði fulltrúi No Borders samband við hann og spurði hvernig hann hefði það. Hann kvaðst hafa það gott en byrjaði að tala um að hann hefði áhyggjur af því að hann væri fjárhagslegur baggi á gestgjöfum sínum. Hann lagði til að þau settu sér ákveðin tímamörk eða jafnvel að hann gæfist bara upp strax í stað þess að éta þau út á gaddinn. Það þurfti talsverðar úrtölur til þess að fá hann ofan af þessari skoðun. Honum var gerð grein fyrir því að ekkert hefði verið gert fyrir hann, eða yrði gert ef fólk teldi það eftir sér. Enginn sæi eftir matnum í hann og hann yrði bara að reyna að slappa af gagnvart þessu. Þremur mánuðum síðar endurtók samtalið sig en í dag skilur hann að hann er velkominn og hefur ekki haft orð á þessu aftur. Honum finnst samt óþolandi að geta ekki verið sjálfbær og þurfa að reiða sig á aðra. Og hann er alltaf að þrífa.

Stundum hefur honum verið boðið að gista í tvær, þrjár nætur en ílengst lengi á sama stað og orðið fjölskylduvinur. Margir þeirra sem hafa hjálpað honum hafa markvisst búið sig undir áfallið sem gæti fylgt því ef hann yrði sendur úr landi og það er fullvíst að þetta fólk yrði lengi að sleikja sárin. Það er alveg ljóst að hann á sér sterkt tengslanet hér landi og aðstandendur sem mega ekki af honum sjá. Að systur sinni undanskilinni á hann ekki þannig aðstandendur neinstaðar annarstaðar í heiminum.“

Ég minni enn og aftur á stuðningshóp Mohammeds á fb. Því fleiri sem sýna þessu máli áhuga því betra. Mohammed er mikill styrkur í því að fá kveðjur frá stuðningsfólki sínu og því fleiri sem senda póst á Innanríkisráðuneytið, því betra. Gleymum því ekki að bréfaskrif og undirskriftir hafa bjargað þúsundum mannslífa, það er því aldrei tímasóun að láta valdhafa vita að almenningur ætlist til þess að mannréttindi séu virt.

Netfang Innanríkisráðherra er ogmundur.jonasson@irr.is og aðstoðarmaður hans er með netfangið halla.gunnarsdottir@irr.is