Flóttamannahluti Silfursins

Hér er flóttamannahlutinn af viðtalinu sem birtist í Silfri Egils síðasta sunnudag. Þess má geta að hvergi í gögnum Útlendingastofnunar er saga Mohammeds Lo dregin í efa.

Norðmenn synjuðu honum um hæli á þeirri forsendu að þrælahald sé ólöglegt í Máritaníu. Enginn sem kann að slá inn leitarorð á google þarf þó að velkjast í vafa um að þrælahald er mjög útbreitt í Máritaníu og er það viðurkennt af alþjóðlegum mannréttindastofnunum sem mjög alvarlegt vandamál sem illa hefur gengið að vinna gegn.

Þegar Mohammed var einnig synjað um hæli á Íslandi var sú ákvörðun kærð til Innanríkisráðuneytisins. Samhliða sendi lögmaður hans inn beiðni um frestun réttaráhrifa, þ.e. að Mohammed yrði ekki sendur úr landi fyrr en ráðuneytið hefði tekið afstöðu til kærunnar, sú beiðni er dagsett 12. apríl 2011. Ögmundur Jónasson hafnaði þeirri beiðni. Nú rúmu ári síðar hefur kæra Mohammeds enn ekki verið afgreidd. Hefði hann ekki farið í felur væri hann nú að öllum líkindum aftur orðinn eyðimerkurþræll í Máritaníu, ef hann væri þá annað borð á lífi. Hann hefði undirgengist refsingu í formi hýðingar og geldingar og ætti enga möguleika á mannsæmandi lífi.

3 thoughts on “Flóttamannahluti Silfursins

  1. Þjóðernisfasismi þrífst ágætlega hér á íslandi og virðist ráðandi,
    varðandi réttindi manna eins og Mohammeds Lo.

  2. Mér fannst leitt að sjá á fjasbókinni hvernig fjöldi fólks hrósaði þér fyrir viðtalið í Silfrinu en tók það samt fram að það ætti ekki við um flóttamannahlutann.

  3. Það ríkir mikil fáfræði um málefni flóttamanna. Flestir þeirra sem fást til að kynna sér málin átta sig fljótlega á því hvað aðstaða flóttamanna er erfið. Þessvegna þarf að halda áfram og áfram og áfram að ræða þessi mál við þá sem hafa ekki skilning á þeim.

Lokað er á athugasemdir.