Eftirlifendum Grenfell-slyssins refsað

Þrátt fyrir fyrri loforð Theresu May um að nota ekki Grenfell-slysið sem afsökun fyrir því að kanna stöðu þeirra innflytjenda sem lifðu af, hefur nú verið staðfest að til þess að fá aðstoð verði þeir sem komust af að skrá sig hjá útlendingastofnuninni og lúta útlendingalögum. Það mun svo velta á aðstæðum hvað verður um þá en þeir geta átt von á brottvísun að 12 mánuðum liðnum. (Sjá hér.)

Augljós afleiðing er sú að sumir þeirra sem nú þjást vegna slyssins munu hika við að leita aðstoðar af ótta um að viðkvæm staða þeirra verði notuð gegn þeim og þeir sem dveljast ólöglega í landinu munu ekki gefa sig fram nema líf liggi við, þar sem þeir geta reiknað með að verða vísað úr landi.

Af öllum þeim vondu ákvörðun sem Theresa May ber ábyrgð á er þessi hin skítlegasta.  Fólk sem hefur flúið fátækt og hörmungar og orðið fyrir ennþá meiri hremmingum vegna þess að ólöglega var staðið að klæðingu hússins verður verst úti. Fólk sem hefur meiðst, misst heimili sín og ástvini má eiga von á refsingu ef það leitar hjálpar. Þetta er ekkert annað en viðleitni til þess að gera lífskilyrði tiltekins minnahlutahóps ennþá erfiðari og getur ekki með sanngirni flokkast sem neitt annað en ofsóknir gagnvart innflytjendum.

Að lokum mun þessi skelfilegi leiðtogi fá réttan sess í sögunni við hlið harðstjóra og níðinga. Hvaða níðingar það verða, það mun sjálfsagt velta á því hversu mörg mannslíf henni tekst að eyðileggja, fremur en hugarfari hennar og fylgismanna hennar en lengi mun skömm hennar í minnum höfð, svo mikið er víst.

Ég veit ekki enn af undirskriftasöfnun eða öðrum aðgerðum sem ætlað er að sporna gegn þessum ósóma en mun setja tengil hér neðst um leið og ég frétti af einhverju slíku, ábendingar eru vel þegnar.