„Fréttin“ sem móðgaði Hríseyjarvini

Eva: Heyrðu! Ég var að skoða fjölda flettinga og sé að Kvennablaðið fær bara rífandi lestur. Væri ekki rétt að fara í útrás? Finna kjölfestufjárfesta og ráða fullt af blaðamönnum? Hafa fréttaritara um heim allan?

Steinunn Ólína: Jú það væri auðvitað athugandi. Það er að vísu gúrkutíð framundan en þú getur allavega skrifað fréttir úr Hrísey.

Eva: Sko, ég skal vera kjölfestufjárfestir, ég á einmitt þúsundkall sem ætlaði að setja í arðbæra fjárfestingu. En sem betur fer er ekkert að frétta úr Hrísey eða hversvegna heldurðu eiginlega að ég vilji vera þar?

Steinunn Ólína: Jújú, það hlýtur að vera eitthvað að frétta. Eitthvað svona um fuglalífið og stráin sem blakta í vindinum að minnsta kosti.

Eva: Já svona gúrkufréttir, eitthvað um að það sé ekkert að gerast. Æsifyrirsögn á borð við: Teista skeit á stein sjáðu myndbandið! Og ef vantar hryllingsfréttir þá get ég skrifað eitthvað ótrúlega áhugavert um sandsíladráp máfanna og viðureign mína við húsflugur. Ég gæti best trúað að frétt  um Hrísey fengi hátt í 150  flettingar, ég held einmitt að það sé um það bil íbúafjöldinn, ef gæludýr eru meðtalin.

Steinunn Ólína: Heyrðu! Það er bara slegið; þú ert hér með samþykkt sem kjölfestufjárfestir og ráðin fréttaritari Kvennablaðsins í Hrísey.

Þetta fullkomlega alvörulausa samtal rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sá að einn af stóru netmiðlunum hafði birt æsispennandi frétt af því að máfur hefði étið rottu.  Mér finnst í aðra röndina hlægilegt hversu ómerkilegir atburðir geta orðið blaðamönnum efni í skrif þegar ekkert fréttnæmt á sér stað dögum saman. Fréttamiðlar sem berjast fyrir lífi sínu verða að hafa allar klær úti og ég þekki þessar aðstæður blaðamanna af eigin raun en það er enginn harmleikur og aumur er sá sem getur ekki gert góðlátlegt grín að sjálfum sér. Kvennablaðið er ekki fréttamiðill (þótt af og til séu birtar hér fréttir) heldur fyrst og fremst vettvangur fyrir greinaskrif en þegar rann upp fyrir mér að það eina sem hugsanlega gæti talist fréttnæmt í eynni hafði nánast farið fram hjá mér fimm síðustu sumur, settist ég niður og skrifaði í hálfkæringi stutta færslu um hið tíðindalausa líf í Hrísey, þar sem ég hef dvalið vikum saman undanfarin sumur, mér til mikillar ánægju, blessunarlega laus við þann andstyggilega ys og þys sem einkennir stærri bæi og borgir.

 

Myndin sýnir fréttaritara Kvennablaðsins reyna að finna út hvernig
beita má sláttuamboði á hávaxið gras við Hámundarstaði í Hrísey

 

Ég hefði haldið að það eitt að birta mynd af einu af frægustu málverkum 20. Aldar, American Gothic eftir Grant Wood sem „mynd úr fjölskyldualbúmi“, hefði átt að gefa til kynna að ekki væri um alvöru frétt að ræða heldur einhverskonar skopstælingu, auk þess sem framsetningin að öðru leyti bendir varla til mikillar alvöru. Hugmyndin var sú að draga upp mynd af blaðamanni á smástað sem á tíðindalausasta tíma ársins reynir að gera sér mat úr algerlega ófréttnæmum atburðum og ekki hvarflaði að mér að átthagastolt fólksins á þessum indæla stað væri svo brothætt að íbúar hér eða vinir Hríseyjar, tækju því sem móðgun við Hrísey og Hríseyinga. Ég hef aldrei hikað við að móðga þá sem mér finnst ástæða til að móðga en í þetta sinn var ekki ætlun mín að móðga neinn og reyndar skil ég ekki hvað það eiginlega er sem þeim lesendum sem lýsa vanþóknun sinni, í umræðukerfinu, finnst svona móðgandi í þessum skrifum. Er það móðgun við staðinn og íbúa hans að finnast fátt fréttnæmt? Eða er móðgunin falin í því að gera því ekki skil hvað felst í árlegum hátíðahöldum, sem fara ekki hærra en svo að engar upplýsingar er að finna um þau á vefsvæði hátíðarinnar?

 

Það er ekki bara náttúran og útsýnið í Hrísey sem heillar, húsin eru líka falleg og göturnar snyrtilegar 

 

Ágætu Hríseyjarvinir. Það er alger óþarfi að kippa sér upp við það þótt smástað sé lýst sem smástað en ekki stórborg. Það er ekkert að því að þykja vænt um smástað, það eru öllu heldur ákveðin forréttindi að dvelja í samfélagi þar sem fátt er fréttnæmt og glæpir nánast óþekktir. Og þið þurfið ekkert að taka það nærri ykkur þótt manneskja sem hefur engan áhuga á litahlaupi, menningarnótt eða gay-pride, skuli ekki telja hátíðahöld það eftirsóknarverðasta við smáþorp. Hrísey er góður staður, með sínum indælu íbúum og sumardvalargestum, kríum og hvölum og túristum sem fylla einn heyvagn og helst ekki meir.  Það er þessvegna sem ég kem hingað ár eftir ár og ég tel líklegast að það sé þessvegna sem Hríseyingar vilja búa hér.

Að lokum er rétt að geta þess að í umræðum við fyrrnefnda grein kemur fram að athugasemdum hafi verið eytt. Ef umræðuþræðir eða einstaka innlegg eru ekki sýnileg þá skrifast það á bilun hjá Facebook. Kvennablaðið hefur ekki eytt neinum athugasemdum við þessa grein og mér vitanlega eyðir ritstjórn Kvennablaðsins aldrei athugasemdum nema þær feli í sér persónuárásir eða óviðurkvæmilegt orðbragð.

Einnig birt hér

[custom-related-posts title=“Tengt efni“ order_by=“title“ order=“ASC“ none_text=“None found“]