Hríseyjarfréttir

Þessi grein hefur vakið ótrúleg viðbrögð sem sjá má á kommentakerfi KvennablaðsinsHér er grein sem síðar var skrifuð af því tilefni.

Eva Hauksdóttir fréttaritari Kvennablaðsins í Hrísey skrifar

Í Hrísey er óvenjumikið að gerast þessa dagana enda sjálf Hríseyjarhátíðin haldin núna um helgina. Við ekkihjónin (við lifum í synd) dveljum hér á Hámundarstöðum og hefur ritstjórn Kvennablaðsins falið mér að skrá niður hina markverðustu atburði sumarsins, enda af nógu að taka.

Við ekkihjónin brugðum okkur í kaupstaðarferð á fimmtudag, alla leið til Akureyrar, til að sækja sykur og brauð og gæða okkur á frosinni mjólk í ofmetnustu ísbúð landsins og þótt víðar væri leitað. Á leiðinni milli Árskógssands og Akureyrar sáum við ský og fjöll og kirkjuna sem snýr rassinum í veginn og andlitinu upp í hlíð. Fleira bar ekki til tíðinda sem nauðsyn þykir að skrásetja en óvenjulegur fjöldi innkaupapoka í ferjunni á bakaleiðinni varð til þess að við áttuðum okkur á því að hátíðahöld eru framundan í eynni.

Hríseyjarhátíðin er árlegur viðburður og hefur mér tekist að dvelja í eynni fimm sumur þá helgina sem hún fer fram, án þess að verða hennar vör að öðru leyti en því að sjá hoppubelg sem við svo hátíðleg tækifæri er komið fyrir á túninu fyrir neðan búðina, sem jafnframt er pósthús, apótek, banki og menningarmiðstöð staðarins. Og jú, ég hef líka tekið eftir því að fleiri sækja sundlaugina en venjulega og að eyjaskeggjar eru hvattir til að leggja inn pantanir fyrir keti og rjóma, þar sem umtalsverð hætta er talin á að vörubirgðir verði uppseldar seinni partinn á laugardag. Hér má sjá dagskrá hátíðarinnar.

Mannlífið er með líflegasta móti hér í Hrísey, svona ef maður býst ekki við stórborgarbrag. Í síðustu viku sáust hátt í 6 manns á götum úti án þess að eiga erindi í ruslagáma, sundlaugina eða búðina. Túristatraktorinn ekur stöku sinnum fram hjá Hámundarstöðum og við ekkihjónin veifum ferðamönnum í kurteisisskyni ef svo vill til að við sitjum undir húsvegg á sama tíma. Í gær sást barn á hlaupahjóli fyrir framan íþróttamiðstöðina. Tvær konur gengu Austurveginn í vestur í gærkvöld og var hvorug þeirra búrkuklædd en önnur með strokk á höfði. Dag nokkurn sá ég mann slá grasflöt við hús sitt og í annað sinn taldi ég mig hafa séð túrista í appelsínugulum anorak en það reyndist vera heimamaður í dulargervi. Skáldið er hér í sumardvöl ásamt fríðu föruneyti og er það umtalsverð viðbót við [ekki svo rosalega] iðandi mannlífið. Á góðum dögum sést skáldið spóka sig á palli einum fögrum við hús sitt og vill þá bera við að hann kasti gúmíbolta út á lóð, tíkinni Lukku til skemmtunar.

Dýralífið er öllu fjölbreytilegra en mannlífið. Hér í grennd búa fimm hrafnar í kletti þar af einn með persónuleikaröskun sem lýsir sér í stöðugum oflátum og gargi þótt félagar hans sitji sallarólegir og láti ekki í sér heyra. Krían er óþreytandi og æti virðist nóg. Hrossagaukur nokkur situr nú langtímum á ljósastaur þar sem hettumáfur hafðist við um þetta leyti í fyrra. Hrossagauka sér maður annars sjaldan sitja kyrra, hvað þá á ljósastaur, við heyrum þá aðeins hneggja og stöku sinnum sjást þeir fljúga yfir, þaulseta gauksins á staurnum telst því til viðburða. Þrjú smáhveli voru hér skammt undan landi að leik laust eftir hádegi í gær, tjaldur spígsporaði í fjörunni, endur syntu, spói vall og teista skeit á stein. Ekki getum við þó státað af jafn æsilegum fréttum úr dýraríkinu og höfuðborgarbúar sem á dögunum sáu máf éta rottu. Hér eru engar rottur og Hríseyskir máfar sjást sjaldan éta neitt hryllilegra en sandsíli.

Að lokum má geta þess að húsfrúin á Hámundarstöðum drap flugu um níuleytið í morgun og var það afdrifaríkasti viðburður vikunnar.

Læt ég svo lokið fréttaannál þessum úr Perlu Eyjafjarðar.

 

Myndin er úr fjölskyldualbúmi og sýnir ábúendur á Hámundarstöðum undirbúa húsflugnadráp.

Einnig birt hér

[custom-related-posts title=“Tengt efni“ order_by=“title“ order=“ASC“ none_text=“None found“]