Viðbrögð við piparúða og táragasi

Þar sem hefur sýnt sig að lögreglan lætur ekki smábörn og gamalmenni hindra sig í að beita vopnum án viðvörunar, mæli ég þó með því að börn, sjúklingar og viðkvæmt fólk haldi sig frá Seðlabankanum þennan dag. Þeir sem vilja mæta ættu að taka með sér sundgleraugu og andlitsklúta og lesa þessa færslu.

Táragas og piparúði eru ólík efni en eiga það sameiginlegt að vera notuð til að sundra hópum mótmælenda. Yfirlýstur tilgangur er sá að stöðva hamslaust ofbeldi og skemmdarverk en þessi efni eru þó oft notuð án þess að nokkur ástæða sé til að ætla að fólk sé í hættu. Það er hægt að bregðast við þessum efnum og engin ástæða til að láta þau stöðva okkur í aðgerðum.

Viðbrögð við piparúða

  • Piparúði er miklu hættulegra efni en táragas og einmitt það efni sem líklegast er að íslenska lögreglan noti til að verja þá valdníðinga sem viðhafa slímsetur í stólum embættismanna og ráðherra um þessar mundir. Mace er allt annað efni en piparúði og mun skyldara táragasi. Ef þú færð gusu af vökva á þig, þá er það ekki mace heldur piparúði.
  • Ólíkt táragasi er auðvelt að beina piparúða að ákveðnum einstaklingum. Því er nauðsynlegt að þeir sem telja sig líkleg skotmörk þar sem búast má við lögregluofbeldi, hylji andlit sín, bæði til að draga úr líkunum á að þeir þekkist en ekki síður til að hindra efnið í að komast í snertingu við viðkvæmt hörund. Sundgleraugu koma einnig í góðar þarfir.
  • Áhrifin af piparúða eru hroðalegur sársauki. Þér finnst eins og sé kviknað í þér og þau áhrif vara miklu lengur en áhrifin af táragasi. Vatn gerir takmarkað gagn en er þó skárra en ekkert. Betra er að kæla svæðið með mjólk.
  • Reynið í lengstu lög að komast hjá því að snerta þau svæði sem hafa orðið fyrir úðanum. Þegar sársaukinn er óbærilegur er það varla í mannlegu valdi en snerting gerir bara illt verra. Hindrið aðra sem hafa fengið úðann á sig í því að nudda húðina eða augun.
  • Ef efnið fer í augu, dragið þá ekki að leita til læknis. Þú getur ekki skolað þetta burt með vatni í heimahúsi.
  • Ef þú færð efni upp í þig eða á varir, máttu alls ekki kyngja. Skyrptu eins og þú getur og skolaðu munninn. Ef þér verður á að kyngja efninu, leitaðu á slysadeild strax.
  • Haltu ró þinni. Efnið veldur ekki varanlegum skaða nema þú hafir ofnæmi fyrir því en sársaukinn er svo mikill að sá sem fyrir verður er líklegur til að halda að hann verði blindur og fái brunasár. Það er nauðsynlegt að segja þeim sem verða fyrir úðanum strax að hann sé skaðlaus. Jafnvel þótt fólk eigi að viti það getur það sannfærst um að það sé vitleysa og það er mjög mikilvægt að mæta þjáðu fólki með rósemd.
  • Efnið sest í hár, á allan fatnað og aðra hluti. Varist því að snerta augu, munn, andlit, kynfæri eða önnur viðkvæm svæði nema þvo hendur mjög vandlega og oft ef þið hafið verið í aðstæðum þar sem piparúða er beitt, jafnvel þótt þú teljir þig hafa sloppið alveg. Húðin á fingurgómum og lófum er ekki nærri eins næm og mýkra hörund eða slímhúð.

 

Viðbrögð við táragasi
Þegar táragasi er kastað eða því skotið inn í hóp fólks myndast hræðsla og ringulreið. Gasið ertir augu og húð, byrgir sýn og hefur kvíðavekjandi lykt. Það versta er þó áhrif þess á taugaboð til heilans. Þú sannfærist um að þú getir ekki andað, hreinlega gleymir hvernig maður ber sig að en mundu að þú getur það samt.

Nokkur mikilvæg atriði:

  • Vertu með vindáttina á hreinu. Gasið berst með vindinum svo það má forðast með því að standa undan vindi. Ef vindurinn er nógu sterkur getur maður gengið að hylkinu sem gasið vellur útum undan vindi og sparkað því aftur til föðurhúsanna. Gættu þess þó að hylkið er mjög heitt og því má alls ekki snerta það með berum höndum. Bentu öðrum á vindáttina ef vera skyldi að gasi verði beitt.
  • Haltu ró þinni. Ef þú æsist hugsar þú ekki rökrétt. Fólk hefur hlaupið inn í gasmökk í óðagoti. Reyndu að meta aðstæður og taka rökréttar ákvarðanir. Forðastu gasið en ekki láta það stökkva þér á flótta.
  • Mundu að þú getur andað. Ef þú verður fyrir gasinu skalltu hugsa “ég get andað”, hugarfarið gerir það auðveldara. Komdu þér frá gasinu og reyndu að anda rólega. Öndunin mun rifjast upp.
  • Hyldu andlitið. Gasgrímur eru besta vörnin. Klunnalegar her- eða slökkviliðsgrímur gera þig ónæma/n fyrir gasinu en handhægari eru grímur eins og málarar og iðnaðarmenn nota. Einnig má hnýta dulu fyrir vitin. Hún hjálpar svolítið ein og sér, en margfalt betra er að bleyta hana með sítrónusafa. Ef þú notar þessa aðferð skalltu annað hvort gegnbleyta duluna heima og hafa hana í lokuðum nestispoka þangað til gasinu er kastað, eða þá vera með safann á þér og sulla honum yfir hana þegar þú þarft að nota hana.
  • Þefaðu af einhverju lyktsterku. Ef þú verður fyrir gasi minnir lykt þig á að þú getur andað. Sítrónusafi, spritt eða ilmvatn eru kjörin. Þó er laukur besta lækningin af þeim öllum. Gott er að skera lauk í nokkra bita og útbíta honum til folks í kringum sig þegar gasið fer að vella.
  • Ekki snerta á þér andlitið. Það ertir húð og augu bara enn frekar. Gasið sest á allt, þ.m.t. hendur. Láttu tárin um að hreinsa augun og hinkraðu smá stund eftir að kláðinn í húðinni hætti. Þú þolir þetta alveg.
  • Hjálpaðu öðrum. Ef þú ferð eftir öllu hér að ofan verður allt í lagi með þig. Þá er næsta skref að hjálpa öðrum. Í stéttabaráttu verðum við að passa upp á hvort annað. Við höldum hópinn og komum þeim sem örvænta út úr mekkinum, róum þau niður, hjálpum þeim að anda aftur, gefum þeim vatn og komum þeim burtu ef þau treysta sér ekki til að vera lengur. Ábyrgðamenn barna verða að meta vindáttina frá upphafi mótmæla og vera tilbúnir að koma þeim undan STRAX og gasinu er kastað.

 

Share to Facebook

One thought on “Viðbrögð við piparúða og táragasi

  1. ———————————————-

    Ég fatta ekki alveg þetta concept af lýðræði sem þú hefur. Auðvitað áttu að mótmæla eins og þig lystir en að bera fólk út úr opinberum byggingum sem er skipað af rétt kjörnum fulltrúum ,er það lýðræði ? Hvernig væri bara að kjósa nýja ríkisstjórn og láta þá svo losa sig við þá sem hafa reynst illa í embætti. Er það ekki nógu kúl fyrir þig ?

    Posted by: Guðjón Viðar | 27.11.2008 | 18:27:10

    ———————————————-

    Hefur þú heyrt eitthvað um fyrirhugaðar kosningar Guðjón Viðar? Það hef ég ekki enda þótt háværar kröfur um kosningar hafi dunið á ríkisstjórninni í hartnær tvo mánuði. Þegar ríkisstjórnin drullast ekki til að koma þeim embættismönnum frá völdum sem fyrir utan það að bera verulega ábyrgð á því hvernig komið er, neita að upplýsa þing og þjóð um það hversvegna hryðjuverkalögum var beitt gegn okkur, þá kemur að því að óbreyttir borgarar sjá um það sjálfir.

    Posted by: Eva | 27.11.2008 | 18:52:35

    ———————————————-

    Þó það verði ekki kosið í næstu viku eða í vor, eru vissulega fyrirhugðar kosningar. Þær eru hér á mest 4ra ára fresti. Þá fellir maður dóm.
    Þetta sem þú ert að plana þarna er skæruhernaður og skrílslæti samkv. minni bók – og ég botna ekkert í ykkur að standa í þessari vitleysu. Þetta á ekkert skylt við lýðræði – en meira skylt við hegðun frekra barna hefur mér þótt, þessi tækni að vera óþolandi þangað til einhver gefst upp.

    Posted by: Jón Kjartan Ingólfsson | 27.11.2008 | 19:23:37

    ———————————————-

    Skæruhernaður er hernaður þar sem notast er við margar aðgreindar árásir sem óvinurinn veit aldrei hvernig verða, hvar eða hvenær þeirra er að vænta.

    Það getur því ekki flokkast sem skæruhernaður þegar fólk auglýsir opinberlega aðgerð þar sem valdasjúkur rugludallur er borinn út, eftir margra vikna stapp til að fá ríkisstjórnina til að setja hann af.

    Posted by: Eva | 27.11.2008 | 19:47:42

    ———————————————-

    Ég er ekkert sérstaklega sáttur við ástandið frekar en þú og aðrir, en mér hugnast aðferðin sem Hörður Torfa og co. betur en það sem þú ert að prómotera. Láta það vera nokkuð ljóst að maður vill breytingar – krefst þeirra. En þessi „aðgerðir“ eru bara leiðindi. Snýst bara um að beita sér líkamlega í stað þess að gera það bara með orðum og rökum – og ég hefði haldið að þú ættir reyndar að vera líklegri í orð og rök en líkamleg mótmæli, þar sem þú ert jú skarpari en flestir sem ég þekki og með munninn kyrfilega fyrir neðan nefið – eins og glöggt mátti sjá þegar þú valtaðir yfir grey Stefán löggustjóra. Og aukinheildur svolítil písl – meira segja minni en ég!
    Aukinheldur – veðja við þig bjórkippu/léttvínsflösku að Davíð verður „fyrir hreina tilviljun“ ekki í vinnunni þennan dag.

    Posted by: Jón Kjartan Ingólfsson | 27.11.2008 | 20:33:59

    ———————————————-

    Smá viðbót, ef þú færð pipar sprey á þig þá eru bestu fyrstu viðbrögð að hella mjólk yfir svæðið.
    Vatn er gagnslaust, hinsvegar er hægt að blanda td uppþvottalegi við vatn, dýfa andlitið endutekið ofan í þar til olían byrjar að leysast upp 10-15 sek í einu. Sápuvatninu skipt út og gert aftur, hafa vatnið kalt.
    Láta þá sem hafa fengið gusur yfir sig bíta í hráan lauk.
    Ef Fólk er með mjög viðkvæma húð eða sár að bera ÞYKKT lag af vaselíni/Júgursmyrsli yfir það svæði. Minnkar líkurnar á að úðinn fari í mjög viðkvæma húð/sár.
    Þeir sem nota linsur að staðaldri passa upp á að vera með augnhlífar (sundgleraugu eða slíkt) eða mæta með gleraugu eða linsulaus.
    Asthma sjúklingar eða fólk með mjög viðkvæman öndunarveg þarf að passa sig að standa fjærri stöðum þar sem líklegt er að Pipar sprey er notað, standa til hliðar, standa aftast.
    Vera með húfu, trefil, grímu eða klút fyrir vitum, hanska, síðerma bolum og helst vindstakk eða slíku sem ysta lagi einhverju sem hrindir frá sér. Ef þú verður fyrir gusu fara frá og taka af þér þær flíkur sem gusan fór á, helst áður en að spreyið nær að gegnbleyta flíkina. Því meira sem fer í fatnað sem þú getur losað þig strax við því minna af því fer á þig.

    Posted by: KA | 27.11.2008 | 20:51:17

    ———————————————-

    Vel orðað hjá JKI. Hugmyndir þínar, EVA, að lausn mála ná stundum ótrúlega stutt. Hvað ætlar þú t.d. að kjósa NÚNA? Gömlu flokkana? Ég vil bíða eftir nýjum valkostum til að taka við af ónýtum flokkum.
    Hvað ætlar þú að gera við Davíð eftir að þú ert komin með hann út á Arnarhól? Ætlar þú svo sjálf að velja næsta Seðlabankastjóra? Hver valdi þig til að skipta um Seðlabankastjóra eða til að leiða baráttuna yfirleitt?
    Trúðu mér. Ég er mjög oft sammála þér varðandi baráttumál þín og dáist að þér á margan hátt en ég mundi aldrei velja þig sem forystumann í stjórnmálabaráttu hvað þá byltingu.
    Sjálfskipaðir frelsarar þjóða eru hættulegir. Það sýnir sagan. Þeir eru nær allir drifnir áfram af einhverjum annarlegum sjónarmiðum, sem fólkið aðhyllist ekki.
    Ætlar þú, eftir Seðlabankainnrásina, að kvarta undan aðförum lögreglunnar? Hún mun varnar þér inngöngu. Það veistu og það viltu trúlega helst, ekki satt?.
    Ætlarðu að hrópa “Ofbeldi! – Mannréttindabrot! – Fasistar”
    Kommon, Eva, grow up!
    Haltu áfram að vera skemmtileg.
    kjh

    Posted by: kjh | 27.11.2008 | 21:04:54

    ———————————————-

    Ég álít sjálf að það sé engin lausn að skipta um rassa í ráðherrastólunum en ég er ekki þjóðin og krafa þjóðarinnar er kosningar. Sjálf vil ég ganga miklu lengra og koma á gagngerum stjrónkerfisbreytingum.

    Hvað ég ætla að gera við Davíð eftir að hann kemur út? Sleppa honum auðvitað. Hvað annað? Ég vil manninum ekkert illt (eða jú annars, það myndi gleðja mig ef hann fengi flatlús) en ég vil hann út úr Seðlabankanum, sem fyrst.

    Nei, það er ekki í mínum verkahring að skipa Seðlabankastjóra. Við sitjum ennþá uppi með þessa ónýtu ríkisstjórn, og það kemur að sjálfsögðu í hennar hlut að kalla saman neyðarfund og skipa nýjan mann í starfið. Sjálfri þætti mér við hæfi að neyðarstjórn kvenna tæki við bankanum þar til annar hefur verið skipaður, ekki af því að ég hafi sérstakar mætur á feministum, heldur bara af því að þær eru þó allavega búnar að sýna þann dugnað að koma saman áætlun.

    Ég myndi heldur ekki velja sjálfa mig sem forystumann í stjórnmálabaráttu enda hef ég engan áhuga á því að vera pólitískur leiðtogi. Það er hinsvegar deginum ljósara að einhver þarf að fylgja eftir þeim góðu aðgerðum sem Katrín Oddsdóttir boðaði síðasta laugardag og ég hef enga afsökun fyrir að sitja hjá.

    Ég hef hingað til ekki kvartað undan öðrum en þem sem gefa mér tilefni til að kvarta. Ég ætla rétt að vona að verðir laganna stilli sig um að fremja mannréttindabrot næsta mánudag, að öðrm kosti verð ég bara að finna leið til að ryðja þeim úr vegi.

    Jamm, og hafðu engar áhyggjur; ég hef ekki uppi nein plön um að hætta að vera skemmtileg. Ég hlakka til að sjá þig og Jón Kjartan á Arnarhóli næsta mánudag, þetta verður gaman

    Posted by: Eva | 27.11.2008 | 23:05:44

    ———————————————-

    ekki nokkur minnsta hætta á að ég verði í grenndinni. Sneiði hjá vandræðum eftir því sem ég best get og þarna sýnist mér verið að stofan til vandræða.

    Posted by: jón Kjartan Ingólfsson | 27.11.2008 | 23:49:32

    ———————————————-

    ehemm- STOFNA til vandræða. Fraudian slip hjá mér – stofan hjá mér til vandræða sko…

    Posted by: jón Kjartan Ingólfsson | 27.11.2008 | 23:52:41

    ———————————————-

    Aðrir en ég hafa fyrir margt löngu séð um að stofna til vandræða í Seðlabankanum. Eitt þeirra vandamála sem stofnað var til og situr sem fastast, er gjörspilltur frekjudallur sem heitir Davíð. Á meðan þú býrð á Íslandi getur þú því miður ekki sneitt hjá þeim vandamálum sem það kostar að hafa hann í valdastöðu. Þú gætir hinsvegar dregið úr vandanum með því að hjálpa til við að koma honum frá.

    Posted by: Eva | 28.11.2008 | 0:17:58

    ———————————————-

    Held að þú sért svolítið mikið að ofmeta Davíð. Ekki það að mér finnst að það eigi að vera þarna fagmaður við stjórn – en það að allt þetta ógnartjón megi setja á hans reikning finnst mér vægast sagt hæpið. Hann verður farinn eftir 1-2 mánuði – hvort sem þið gerið eitthvað eða ekki. Þetta tal um að sameina aftur Fjármálaeftirlit og Seðlabanka – heldurðu að það sé tilviljun? Það er verið að moka honum út – diplómatískt. Býsna viss um það. En þið fáið örugglega að koma í sjónvarpið…

    Posted by: Jón Kjartan Ingólfsson | 28.11.2008 | 1:31:49

    ———————————————-

    Éva skrifar:
    „Ég ætla rétt að vona að verðir laganna stilli sig um að fremja mannréttindabrot næsta mánudag, að öðrum kosti verð ég bara að finna leið til að ryðja þeim úr vegi.“
    Þessi þankagangur er hættulegur bæði fyrir hetjuna og málstaðinn.
    Farðu varlega Eva, þér liggur ekki svona mikið á.
    kjh

    Posted by: kjh | 28.11.2008 | 8:55:06

    ———————————————-

    Ég veit kjh, þetta er stórhættulegur hugsunarháttur. Sá sami og var á bak við fyrstu uppreisnir verkamanna, kvenfrelsisbaráttuna, sjálfstæðisbaráttu Indverja, baráttuna gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður Afríku… Það væri nú aldeilis fínt ef allt það fólk sem tók áhættu á frelsissviptingu og meiðslum hefði nú bara haft hemil á sér og mótmælt innan ramma laganna.

    Posted by: Eva | 28.11.2008 | 9:32:08

    ———————————————-

    Eva, það aldeilis miklar hörmungar sem þú hefur kallað yfir heiminn með þessum galdragjörningum þínum. Hvað fór úrskeiðis hjá þér?
    Mér finnst t.d. illa gert hjá þér að beita göldrum gegn Kárahnjúkavirkjuninni og álverunum. Það er síst af öllu sem okkar vantar nú að þessi atvinnutæki tortímist. Mundu að öll mannana verk eru umdeilanleg, og ef þér er svona umhugað um náttúru og umhverfi, að þá er besta umhverfisverndin að leggja siðmenninguna, eins og við þekkjum hana í dag, niður.
    Hversu oft hefur þú komið til Austfjarða og hversu vel þekkir þú til þar?
    Hefur þú búið þar? Það hef ég og ég veit hversu erfitt var að bíða á milli vonar og ótta um það fiskaðist svo fólk hefði í sig og á.
    Nú er fiskurinn farinn frá Austfjörðum (var tekinn frá okkur) og fjöldinn allur af fiskvinnslustöðvum hefur lokað þar fyrir fullt og allt.
    Margir þakka þvi fyrir að álver Alcoa sé starfandi þar, en þar starfa nú um 500 manns, en auk þess eru um 1.500 aðrir sem hafa beina eða óbeina vinnu í sambandi við álverið.
    Hvað hefði allt þetta fólk á Austfjörðum átt að gera ef álverið hefði ekki komið.
    Það hefði auðvitað neyðst til að flytja Suður (þar sem atvinnuleysið er nóg) og yfirgefa óseljanlegar eignir sínar til þess eins að búa í rándýru leiguhúsnæði. Glæsilegt það!
    Og hversu vel þekkir þú til Davíðs Oddssonar? Hvað hefur hann gert af sér sem aðrir hafa ekki gert?
    Telur þú að það muni leysa einhvern vanda að losna við hann og þá hvernig?
    Hvern viltu fá í staðinn, og heldur þú að sá/sú hinn/hin sami/sama mynda gera eitthvað sem Davíð myndi ekki hafa gert? (Mundu að Davíð er ekki einráður og vinnur bara þau verk sem ríkisstjórn og Alþingi boða honum að gera).

    Reynda nú að nota nornakrafta þína til að skapa eitthvað jákvætt en ekki eitthvað tortímandi, t.d. ný atvinnutækifæri, það er akkúrat það sem að við þurfum nú til að vinna okkur út úr vandanum.
    Hættu þessari sjálfhverfu. Mundu að neikvæðar nornir hafa alltaf á endanum tortímt sjálfum sér. Hann þarna uppi stjórnar því.

    Posted by: Einn að austan | 28.11.2008 | 9:39:04

    ———————————————-

    Ég kallaði ekki hörmungar yfir heiminn, það var almenn öfgakennd neysluhyggja og nokkrar gjörspilltar feitabollur með allt of mikil völd sem gerðu það. Ég kallaði hinsvegar afhjúpun, skömm og flatlús yfir þá siðspilltu valdhafa (bæði auðmenn og pólitíkusa) sem bera ábyrgð á stóriðjustefnunni með öllum sínum umhverfisspjöllum og mannréttindabrotum.

    Ég hef ekki búið á Austfjörðum en ég hef búið á Fljótsdalshéraði. Ég er orðin hundleið á þessu væli um að eina leiðin til atvinnusköpunar sé sú að rústa öllum náttúruperlum landsins. Eins og ég hef margsinnist bent á hefur Andri Snær Magnason skrifað heila bók um aðra kosti í atvinnusköpun en þeir sem mæla fyrir endalausri stóriðju hafa lítinn áhuga á að kynna sér hana.

    Ef þú vilt kynna þér rök mín gegn stóriðju þá er einfalt að slá inn leitarorð á þessari síðu, t.d. álver, stóriðja, Kárahnjúkavirkjun. (Einnig má athuga fleiri beygingarmyndir).

    Ég trúi nú reyndar hvorki á hann þarna uppi né hinn í neðra. Ég trúi hinsvegar á mátt og megin mannshugans. Hugsun er til alls fyrst en henni þarf a fylgja eftir með gjörðum. Þessvegna er ég tilbúin til að ganga alla leið og bera valdníðingana út. Davíð ber ekki sökina einn, hann verður bara fyrstur af því að hann er frekastur.

    Posted by: Eva | 28.11.2008 | 11:01:45

    ———————————————-

    Og NEI, hann Davíð Oddsson vinnur ekki bara þau verk sem ríkisstjórn og Alþingi boða honum. Á hvaða plánetu hefur þú eiginlega búið síðstu árin?

    Posted by: Eva | 28.11.2008 | 11:04:57

    ———————————————-

    Ég vil hvetja fólk til að lesa grein Helga Áss Grétarsonar lögfræðings og stórmeistara í skák, sem var birt í Fréttablaðinu í gær fimmtudag á bls. 28.
    Árið 1999 var Davíð Oddsson forsætisráðherra og Geir H. Haarde fjármálaráðherra, en þá voru sett meingölluð lög um tryggingasjóð innstæðueigenda skv. EES-tilskipun sem að lokum leiddi til þess að IceSave málið mun hrynja í hausinn á okkur af fullum þunga. Þar sem í íslensku lögunum stendur „1% af innistæðum“ átti skv. tilskipuninni að standa „90% af innistæðum“. Það er vegna þessara mistaka sem íslensk stjórnvöld urðu skaðabótaskyld gagnvart Evrópurétti. Eftir að Davíð fór í Seðlabankann hélt hann svo áfram afglöpum sínum þegar hann trassaði að leggja til hliðar í nauðsynlegan gjaldeyrisvaraforða sem hefði svo mögulega getað nýst til að greiða þessar skaðabætur án þess að skuldsetja þyrfti þjóðina upp fyrir haus.
    Hefði þessi lagasetning verið rétt gerð, þá værum við ekki skaðabótaskyld og hefðum jafnvel getað greitt að fullu lágmarkstrygginguna til evrópskra sparifjáreigenda af áðurnefndum 90% sjóði, jafnvel án þess að tæma hann alveg! Í staðinn munum við þurfa að greiða allt að 99% af upphæðinni, og það með lántöku ásamt tilheyrandi aukakostnaði vegna vaxta.

    Posted by: Guðmundur Ásgeirsson | 28.11.2008 | 14:54:47

    ———————————————-

    Hey Eva, get ég keypt voodoo brúðu af þér í þessari verslun þinni? Ef mig vantar Ketamín þá tala ég bara við son þinn, en mig vantar svona brúðu af þér svo ég geti hjálpað þér í að átta þig á því hversu mikið bull vellur út um hvert op á þínum líkama.

    Posted by: Hákon | 4.12.2008 | 13:22:18

    ———————————————-

    Þú getur keypt brúður sem eru náskyldar voodoo brúðum í Nornabúðinni já en hvort þú hefur til að bera færni til að nota hana er annað mál.

    Ég er ansi hrædd um að synir mínir gætu ekki útvegað þér neitt ketamín, jafnvel þótt þeir hefðu áhuga á því en ég hugsa að hvor þeirra sem er væri tilbúinn til að veita þér nokkrar kennslustundir í íslenskri málnotkun, fyrir sanngjarnt verð. Ekki veitir af.

    Posted by: Eva | 4.12.2008 | 13:44:14

     

Lokað er á athugasemdir.