Við verðum að gera eitthvað – bara eitthvað

Markmiðið með hryðjuverkum er að skapa ótta og glundroða. Skekja heimsmyndina og fá yfirvöld til þess að setja ómælda peninga og vinnu í vita tilgangslausar aðgerðir. Árásin á tvíburaturnana var einstaklega vel heppnað hryðjuverk. Ekki aðallega vegna mannfallsins og því beina eignatjóns sem af því hlaust, heldur vegna aðgerðanna í framhaldinu. Allir sem nýta sér flugsamgöngur milli landa verða fyrir ákveðnu óhagræði og kostnaðurinn við öryggiseftirlit sem skilar nákvæmlega engu er gífurlegur.  Hryðjuverkamennirnir horfa glottandi á. Æjæjæjæ, fáum við ekki að fara með sprengiefni um borð í flugvélina? Uhuuu, við verðum þá líklega bara að sprengja okkur í loft upp hér í röðinni. Eða sprengja lest í stað flugvélar.  Eða aka bíl ínn í manngrúa. Eða eitthvað annað.

Fólk sem er tilbúið til þess að fórna lífi sínu fyrir hryllilegan málstað lætur ekkert stoppa sig. Það er eðli hryðjuverka að vera ófyrirsjáanleg. Theresa May talar nú um að auka valdheimildir lögreglu en útskýrir auðvitað ekki hvernig auknar valdheimildir hefðu komið í veg fyrir voðaverkin í London eða Manchester.  Donald Trump hamrar á nauðsyn þess að meina múslímum að ferðast til Bandaríkjanna en minnist ekkert á hvernig það ætti að stöðva þá sem eru þar fyrir.

Sá sem verður fyrir árás finnur eðlilega hjá sér hvöt til þess að bregðast við. Við verðum að gera eitthvað. Ríkisstjórnin verður að gera eitthvað.  Ef ekki að hefna þá að minnsta kosti að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur. Og það sem ríkisstjórnir gera í málinu er einmitt eitthvað. Bara eitthvað. Sem hefur auðvitað enga þýðingu. Líklega væri skynsamlegra að gera ekkert umfram það að rannsaka tildrög árásanna og reyna að hafa hendur í hári þeirra sem bera ábyrgð á þeim en eru ekki þegar dauðir. Þegar allt kemur til alls er mun líklegra að maður lendi í bílslysi en hryðjuverkaárás.

En auðvitað verður eitthvað gert. Stjórnmálamenn halda ekki velli nema kjósendur trúi því að þeir séu að gera eitthvað. Þessvegna munu þeir gera eitthvað  sem vekur fólki öryggiskennd, kostar morð fjár og veldur almennum borgurum ómældu veseni án þess að auka raunverulegt öryggi.  Og á meðan yfirvöld eru upptekin við vopnaleit, ritskoðun landamæragæslu og brottvísanir, munu liðsmenn Islamska ríkisins hugsa upp nýjar leiðir. Kannski valda stórslysi á hraðbraut, sprauta eitri í appelsínurnar eða dreifa ebólu veirunni. Tækifærin eru óendanleg. Það væri allt eins hægt að lýsa yfir stríði gegn hugviti eða tilfinningum eins og að standa í þessu fánýta stríði gegn hryðjuverkum. Það er í besta falli tilgangslaust.

Share to Facebook