Veitum biskupnum verkfallsrétt

 

Biskup fær 270.000 króna afturvirka hækkun
Færri fá desemberuppbót en í fyrra

Þann 19. desember sl. stóðu þessar fyrirsagnir svona skemmtilega saman á vef Ríkisútvarpsins.

Sumum finnst dálítið kaldhæðnislegt að á sama tíma og desemberuppbótin er tekin af ellilífeyrisþegum og öryrkjum skuli æðsti embættismaður Þjóðkirkjunnar fá afturvirka launahækkun upp á fjárhæð sem slagar hátt í lægstu löglegu vinnulaun í landinu. Reyndar svo kaldhæðnislegt að ríkið sá sig knúið til að leiðrétta þetta með desemberuppbótina að hluta. Þeir eru því heldur færri en talið var sem þurfa að sætta sig við þessa skerðingu. Það er þó jafn skítt fyrir hinar 1.712 sálir sem hafa úr lægri fjárhæð að spila þessi jólin en hin síðustu.

Jói Jóns, faðir langveikrar stúlku, getur samt huggað sig við það að þetta er ekkert persónulegt. Það er alls ekki hann sjálfur sem verður fyrir þessari skerðingu heldur aðeins Jói bótaþegi. Rétt eins og það er ekki persónan Agnes sem fær afturvirka launahækkun heldur bara embættismaðurinn Agnes. Eiginlega kemur þessi launahækkun persónunni Agnesi ekkert við að öðru leyti en því að það er alfarið hún sjálf sem nýtur góðs af henni. Óþarfi fyrir einhverja aumingja að vera að öfundast yfir því.

Það var heldur ekki persónan Agnes sem bað um þessa launahækkun heldur embættismaðurinn Agnes. Sannast þar hið fornkveðna:

Biðjið og yður mun gefast

Ef Jói hefði endilega viljað desemberuppbót þá hefði hann bara átt að biðja um hana. Ekki hefur hann, sem faðir langsveiks barns, verkfallsrétt frekar en biskupinn, þannig að ríkisvaldið hefði áreiðanlega brugðist snarlega við. Einnig gæti Jói aukið tekjur sínar með því að biðja bara ríkið að greiða sér yfirvinnutíma vegna umönnunnar stúlkunnar. Segjum 13 yfirvinnutíma aukalega á mánuði. Það yrði dálítil búbót. Ekki fyrir Jóa sem persónu, heldur bara fyrir stöðu hans. Af hverju þarf biskupinn annars að vinna 40 yfirvinnutíma á mánuði? Er hún virkilega að gera eitthvað sem væri ekki hægt að láta einhvern á lægri launum sjá um? Ef þarf að skrifa hirðisbréf er biskupsstofu t.d. velkomið að hafa samband við mig. Ég þarf ekki að fara til Svíþjóðar til að skrifa tvær blaðsíður og ég myndi taka miklu minna en milljón á blaðsíðu.

Það er svo skemmtilega táknrænt að á sama tíma og fulltrúi hins andlega valds fer fram á launahækkun, skuli fulltrúi hins veraldlega valds sjá sjálfur um að losa sig við launahækkun sem Kjararáð úhlutaði honum án þess að hann óskaði eftir því. Kannski man Jói Jóns eftir því, næst þegar hann fær að kjósa forseta. En Jói fær náttúrulega  ekki að kjósa biskup svo það er óþarfi fyrir fulltrúa Gvuðs almáttugs að hafa áhyggjur af því hvaða augum Jói lítur þessa gerninga.

Ég hef talað fyrir því að afnema verkfallsrétt opinberra starfsmanna. Ég er hinsvegar ekki frá því að á meðan ekki er stemning fyrir því, væri rétt að veita biskupi Íslands verkfallsrétt. Í versta falli yrði þá hægt að setja lögbann á verkfall biskups ef útlit yrði fyrir að samfélagið færi á hliðina af hirðisbréfaskorti.

Share to Facebook