Þetta er bara ekki rétta aðferðin

Í hvert sinn sem Saving Iceland hreyfingin beitir mótmælaaðgerðum sem ögrar ramma laganna, fer bloggheimur á límingunum og er það vel. Greinilegt er að efasemdir um borgaralega óhlýðni eru mjög sterkar og sú skoðun á fullan rétt á sér. Það er þó nákvæmlega sama hverju er mótmælt og á hvaða hátt, alltaf koma fram hópar sem vilja frekar að einhverju öðru sé mótmælt (þótt sama fólk nenni auðvitað ekki að standa í því að skipuleggja slík mótmæli sjálft) og eins eru alltaf einhverjir sem hafa skoðun á því hvaða aðferð eigi að nota.Þegar fólk safnast saman með mótmælaspjöld fær það skilaboðin; hverju haldið þið að þetta skili öðru en að gera ykkur að fíflum.

Þegar fólk skrifar bréf eða safnar undirskriftum er svarið; jájá, ólmist þið bara, þetta verður aldrei lesið.

Þegar listin er notuð til að vekja athygli heyrum við athugasemdir á borð við; þetta er nú svo djúpt að það skilur það enginn, fáið ykkur vinnu.

Beinar aðgerðir á borð við vinnustöðvun vekja svo sérdeilis greindarleg viðbrögð á borð við; það ætti að henda þessu úr landi! hryðjuverkamenn! fávitar! Þarf þetta ekkert að vinna?

Ég skil vel að fólk hafi efasemdir um beinar aðgerðir. Það eru ekki mörg ár síðan ég sjálf fordæmdi skemmdarverk (þótt ég sé mjög hrifin af þeirri hugmynd í dag) og hafði verulegar efasemdir um réttmæti vinnustöðvunar. Ég hef þó ekki séð aðrar aðgerðir skila meiri árangri.

Ástæðan fyrir því að Saving Iceland notar beinar aðgerðir er ekki sú að það hafi svo mikið skemmtanagildi. Það er erfitt að sitja einn uppi í byggingarkrana eða vera hlekkjaður við vinnuvél. Það er hundleiðinlegt að vera handtekinn, fjandans bögg að þurfa að standa í dómsmálum og mikill kostnaður þegar maður tapar. Það væri því æskilegast ef aðferðir sem enginn er í vafa um að séu löglegar og siðlegar hefðu einhver alvöru áhrif.
Þær aðgerðir sem við höfum notað hingað til eru eftirfarandi:

-Formleg bréfaskrif þar sem einstaka virkjun er mótmælt með góðum rökum

-Formleg bréf til höfuðstöðva álfyrirtækja (sem aldrei er svarað)

-Undirskriftasafnanir

-Pistlaskrif á blogg og í blöð í ýmsum löndum

-Persónuleg bréfaskrif til fyrrum iðnaðar- og núverandi umhverfisráðherra (sem ekki hefur verið svarað)

-Persónuleg viðtöl við umhverfisráðherra

-Fundir með  forsvarsmönnum Alcan og Alcoa t.d. í Bandaríkjunum

-Útgáfa kynningarefnis

-Ráðstefnur og kynningarfundir

-Blaðamannafundir

-Hefðbundnar mótmælasamkomur með skiltaburði og slagorðum

-Kynnisferðir á slóðir sem Landsvirkjun er að sölsa undir sig

-Fræðslu- og kynningarstarf meðal umhverfishreyfinga í Evrópu

-Ýmsar listrænar uppákomur hérlendis sem erlendis (þetta er líklega sú aðferð sem Saving Iceland hefur lagt mesta vinnu í)

-Vikuleg matarboð á Lækjartorgi í allt sumar

-Vinnustöðvun hjá orku- og álfyrirtækjum

Aðrir hópar sem vinna að umhverfisvernd hafa notað sömu aðferðir að vinnustöðvun undanskilinni, auk þess sem skrifuð hefur verið heil bók um aðra kosti í atvinnulífinu (áliðnaðurinn skilar ekki nema um 5% af þjóðartekjum okkar, þótt margir virðist halda að við lifum á áli) og stofnaður heill stjórnmálaflokkur í nafni umhverfissjónarmiða.

Tilgangur Saving Iceland er fyrst og fremst sá að halda vöku almennings (við höfum ekki mannafla og fjármagn til að knéstetja áliðnaðinn ein)  svo nú spyr ég hið velviljaða fólk sem vill að við mótmælum löglega,

a) hvaða aðgerðir hafa vakið mesta athygli og umræðu meðal almennings?

b) eru einhverjar hugmyndir uppi um fleiri aðferðir sem líklegar eru til að vekja eftirtekt? 

Athugið að okkur er alveg sama hvort einhver álítur að aðferðirnar séu okkur til minnkunnar eða fái einhverja á móti okkur, við erum ekki í neinni vinsældakeppni. Okkur er líka alveg sama hvort fólki finnst fötin okkar asnaleg, hafi á tilfinningunni að við séum dópistar eða hvaða bullkenningar eru uppi um aktivisma sem gróðavænlega uppgripavinnu.  Ég er bara að fiska eftir tillögum að því sem fólk sem vill ekki að ramma laganna sé ögrað, telur árangursríkt.

Share to Facebook

One thought on “Þetta er bara ekki rétta aðferðin

 1. ———————————————————

  Þetta eru fínar pælingar en það verður kanski fátt um svör, en samt ef þú vilt breyta einhverju verðuru að byrja á sjálfum þér, það hefur alltaf verið þannig, góður og sterkur leiðtogi eða talsmaður sem „við“ getum tengt okkur við og treyst, ekki aðgreina ykkur frá okkur, þið eruð ekkert betri en við! Ykkur á ekki að vera sama hvað okkur finst um ykkur, og þetta „hið GÓÐA á móti hinu ILLA“ það er svo mikið Star wars! Að fá fólk á sitt band er mjög góð leið til að ná árangri, að breyta hugsun og hegðun fólks er mjög vandmeðfarið. að skoða söguna sem ég held að þið hljótið að hafa gert, How to Change the World For Dummies gæti hjálpað! og þá er ég ekki að reyna að móðga ein eða neinn. Og svo kanski að athuga að þetta eru gömlu hipparnir sem stjórna þessum „vondu“ álverum og þeir kunna öll trixin í bókini sem ég nefndi hér á undan.

  En persónulega lýst mér best á hugmynd #3 í svari þínu til vélstýrunar,  að breyta neyslumynstri mínu! það get ég!

  Benedikt Jónsson (IP-tala skráð) 20.7.2008 kl. 11:51

  ———————————————————

  Eva þú ert nú bara fjandi góður penni stelpa. hef aldrei farið á límingunum yfir
  Saving Iceland, en er búin að svara á minni síðu svo þú kíkir bara á það ef þú villt.
  Kveðja Milla

  Guðrún Emilía Guðnadóttir, 20.7.2008 kl. 14:10

  ———————————————————

  Nú er ég ekki á móti því að ögra ramma laganna í mótmælaskyni. Finnst hugmyndin um að fá leyfi yfirvalda fyrir mótmælaaðgerðum rökleysa í sjálfri sér.

  En mín hugmynd er þessi: Hafa „skilum álinu“ partí á lækjartorgi 🙂 Allir koma og skila einhverju úr áli (dós, gaffli, whatever), sem tákn fyrir hversu lítið við þurfum á álveri að halda hér…

  Það voru líka ýmsir sem vildu halda með öllum ráðum í herinn, því suðurnesin gætu ekki lifað án hans. Mér sýnist þeim ganga ágætlega þar…

  Hildur Ýr (IP-tala skráð) 20.7.2008 kl. 19:11

  ———————————————————

  Ég held að Eva sé ekki að meina að við þurfum engan ál, auðvitað þurfum við ál
  í hverju ætlar þú að elda Hildur Ýr, heldur bara minka þessa notkun.

  Hver segir að við höfum ekki getað verið án hersins, jú það voru bara nokkrir menn, ég bjó í Sandgerði í 27 ár minn fyrrverandi vann þarna og börnin mín eitthvað smá, en hrikalega fór þessi her í mínar fínustu, þá vill ég frekar eitt stykki álver heldur en þessa ógeðslegu mengun sem varð af vellinum.

  Það sem gerðist eins og allir vita að ráðamenn sofnuðu á verðinum með það að
  eitthvað þyrfti að gera í atvinnumálum er herinn mundi fara, held bara svei mér þá að þeir hafi ekki trúað því, sko þessir ráðamenn.
  þegar þeir fóru voru það nokkrir menn sem komu þessu til leiðar öllu saman sem völlurinn hýsir núna, aðallega menntasetrið Keili.
  Það sem einkenni þessa framkvæmd var að menn unnu saman að lausninni.
  Eða það er allavega mín skoðun, en betur má ef duga skal.
  Kveðja Milla

  Guðrún Emilía Guðnadóttir, 20.7.2008 kl. 20:21

  ———————————————————

  Sæl Eva, frábært að lesa pistlana þína og mér sýnist þú vera að koma a.m.k. sumum í skilning um afhverju og til hverss um beinar aðgerðir eru notaðar.  Má ég bara minna alla á að ef beinar mótmælaaðgerðir hefðu ekki verið notaðar væru ekki til dæmis réttindi kvenna eins og þau eru nú.  Eða svart fólk í bandaríkjunum, það var nú ekkert smá sem gekk á þar…  Sem beturfer erum mvið ekki að tala um blóðsúthellingar enda Saving Iceland mjög friðelskandi fólk.

  En mig langar líka að benda á að PETA eru mjög umdeild samtök, og hafa allflestir skoðanir á þeim samtökum.  En hvað sem hver segir hafa PETA náð langt á beinum aðgerðum.  Um leið og þau nálgast eða um leið og þau ná myndum af þeim viðbjóði sem getur leynst í heiminum, þá eru fyrirtæki mjög fljót að reyna að bæta sig.  Fólk er einnig mun meðvitaðara um hvað er í gangi og hertar eftrilit er meðal annars þeim að þakka, óbeint.  Eins og Saving Iceland liðar sögðu um daginn, þá eru þau ekki í fegurðarsamkeppni heldur eru þau að minna á þennan málstað og það sem er í gangi hér, þó að meiri hluti Íslendinga vilji ekkert með það hafa.

  En hvað hefur gerst fyrir Austan, ekki finnst mér það sem maður er að heyra þessa dagana mjög jákvætt.  Fólk er enn að flýja, það vantar enn fólk í vinnu í álverinu og margir eru meira að segja farnir að sjá eftir þessum framkvæmdum.  Troðið er yfir landeigendur enda fá Landsvirkjunarmenn að gera hvað sem þeim sýnist.  Þetta halda svo Húsvíkingar að muni bjarga þeim og þeirra samfélagi.  Nú er það svo að ég hef komið mikið á Húsavík og finnst það mjög fallegur bær, ég er hinsvegar mjög sorgmæddur að það eina sem þeim er boðið er uppá er risa álver sem á bara eftir að vera svartur blettur og menga þennan fallega bæ.

  Ég veit að ég hef kannski ekki eitthverja hugmynd akkúrat núna, en ef við myndum öll leggjast á eitt, ef stjórnvöld væru til í að standa á tveimur fótum, nenna að hafa fyrir vinnu sinni og fara í virkilega hugmyndavinnu með fólkinu fyrir norðan þá held ég að það væru til margir kostir sem kosta jafn mikið eða minna og myndu gera Húsavík að enn fallegri og enn betri stað?

  Unnsteinn (IP-tala skráð) 20.7.2008 kl. 22:18

  ———————————————————

  Flott skrif hjá þér Unnsteinn, ekki mundum við slá hendinni á móti annarri vinnu,

  en búðum ekki í 25 ár meðan hún er í hugmyndavinnslu, það er nefnilega of algengt.
  Hef nú ekki heyrt um að ástandið sé svona fyrir austan, en samt eitthvað heyri um stöðnun á húsbyggingum.
  Mér finnst nú gilda svolítið aðrar reglur hér heima heldur en þar sem Peta er að vinna, í heimi þar sem þrældómur hefur viðhaft .
  Enda hafa félagsmenn Saving Iceland ekki verið með þannig róstur.
  Við getum öll deilt alveg endalaust, vegna þess að aðrir vilja ná fram sinni skoðun, en að mínu mati verða allir að vinna saman að lausn bara allra mála.
  Eva mín engum er sama, það er bara svo með sumt fólk að það tekur eitthvað í sig og þar við situr, ég hef haft það fyrir reglu í lífinu að fólk sem ekki getur virt annarra skoðanir og smekk getur verið þar sem úti frýs, eða þannig.
  Kveðjur inn í góða viku.
  Milla.

  Guðrún Emilía Guðnadóttir, 21.7.2008 kl. 07:02

  ———————————————————

  Til þess að ég virði skoðun þarf hún að vera virðingarverð, þ.e. byggja á þokkalegum rökum og samræmast grundvallarhugmyndum mínum um það sem er gott, rétt og siðlegt. Þannig hygg ég nú að flestir hugsi. Ég reikna t.d. ekki með að þú virðir þá skoðun að einn kynþáttur sé öðrum æðri og hafi þar með rétt til að undiroka hina ‘óæðri’ eða þá skoðun að það sé ekkert athugavert við að fullorðnir hafi kynmök við börn svo fremi sem barnið fái sælgæti. Leiðréttu mig ef mér skjátlast.

  Ég ber fulla virðingu fyrir þeirri skoðun að öllu landinu skuli haldið í byggð, þrátt fyrir óhagkvæmnina. Ég er því algerlega ósammála en rökin fyrir því eru tæk og siðleg.

  Ég ber hinsvegar ekki neina virðingu fyrir því viðhorfi að réttur fyrirtækis til óhugnanlegrar arðsemi, sé heilagari en réttur fólks til að eiga heimili og afkomumöguleika.

  Flest fólk hugsar á sama hátt og ég í þessum efnum. Það vita eigendur stóriðjufyrirtækja og þessvegna ráða þeir fjölda manns til þess að ljúga að okkur og fela staðreyndir. Menn sem hafa margra ára menntun í þerri list að höfða til mannlegra hvata, svosem ótta (t.d. ótta um atvinnuleysi) og græðgi, eru í fullri vinnu við að beina athygli almennings frá voðaverkum þessara fyrirtækja og að því sem við græðum á því að loka augunum og treysta þeim í blindni. Við megum ekki falla í þá gryfju að ‘virða skoðanir’ sem eru byggðar á röngum upplýsingum og vélaðar inn á fólk í krafti auðs og valda.

  Eva Hauksdóttir, 21.7.2008 kl. 07:42

  ———————————————————

  Eva ertu bara að svara mér? Ég er ekki að tala um þig er ég segi að fólk geti verið þar sem úti frýs, þekki þig of lítið til að segja svoleiðis um þig, og maður segir heldur ekki svo við fólk, maður lætur það bara finna það.
  þá er ég að tala um áralanga reynslu mína af fólki sem segir að svart sé hvítt og ekki er hægt að breyta því.

  það er oft erfitt að tala saman er maður þekkir ekki inn á hvernig fólk ritar, Ef þú lest bloggið mitt aftur í tíman þá sérðu að ég hef andstyggð á öllu ofbeldi, sér í lagi barnaofbeldi.
  Ég tel einnig að allir séu jafnir, hvernig sem hörundslitur þeirra er eða trúarbrögð eru.
  þar sem ég er nú 65 ára er él sem betur fer löngu vaxin upp úr því að láta heilaþvo mig, var fljót að átta mig á því í uppeldinu að ekki var allt gull sem glóði.
  Ég ber heldur enga virðingu fyrir auðvaldinu sem ekkert gefur af sér til okkar,
  en ef ég get notað það, án þess að mínu mati að skaðast af því, þá geri ég það hiklaust.

  Guðrún Emilía Guðnadóttir, 21.7.2008 kl. 09:13

  ———————————————————

  Ég var að kommenta á það sem þú sagðir um að bera virðingu fyrir skoðunum annarra. Ég tók það ekkert sérstaklega til mín og svarið var alls ekki meint sem árás á þig. Það er bara svo algengt að fólk tali um virðingu fyrir skoðunum annarra án þess kannski að hugsa það til enda og mér fannst rétt að útskýra hversvegna afstaða mín til áliðnaðarins er svona hörð.

  Ég er þér reyndar hjartanlega sammála um að fólk sem ber enga virðingu fyrir skoðunum annarra er ekki svaravert, en slíkt virðingarleysi kemur að mínu viti fram í innistæðulausum upphrópunum og sleggjudómum. Ég nenni ekki að svara þeim sem tuða bara lopapeysuhippar og fávitar án þess að færa nein rök fyrir máli sínu. Ég hef hinsvegar gaman af að ræða stóriðjustefnuna við fólk sem er mér ósammála ef það getur gert það málefnalega.

  Eva Hauksdóttir, 21.7.2008 kl. 10:08

  ———————————————————

  Það eru ekki skoðanir að kalla fólk lopapeysuhippa og fávita, ég get alveg bætt við þessar upphrópanir, en þú veist þær allar.
  það var ekkert öðruvísi þegar ég var ung og rokkið byrjaði, guð minn góður sögðu vissar persónur, og það lá við að maður væri kyrrsettur ef maður kom með drullurönd neðan á kjólnum sínum eftir að hafa verið að dansa niður í gólf,
  þetta eru bara fordómar, eins og svo margt annað.

  Það er með þessa virðingu fyrir skoðunum annarra sem við hömrum svo mikið á
  hér á blogginu, málið er að ef okkur líkar ekki umræðan eða skoðanir annarra þá er svo auðvelt að hætta, finnst þér það ekki líka?
  Svo eru skoðanaskiptin þau geta orðið nokkuð fjörug og skemmtileg, en mega helst ekki fara út í hnútukast, en það gerist nú stundum.
  vandrataður er millivegur.

  Eva mér finnst áhugavert og skemmtilegt að ræða við þig, og ég er ekki andsnúin umhverfisvernd.
  Fyrir margt löngu síðan, þá reykti ég, vorum við að bíða eftir tengdasyni mínum
  hann ætlaði að fljúga upp á Sandskeið, og við að taka hann þar.
  Ég fékk mér sígó og náði í dall með loki inn í bíl, hvað ertu að gera? spurði maður sem þar var, ertu að nota öskubakka úti í náttúrunni? Já sagði ég á ég að drepa í sígarettunni á jörðinni, nei takk það geri ég ekki.
  þetta var fyrir tíma stóriðjutals, var samt komið álverið í Straumsvík.
  Ég er búin að ferðast víða um hálendi þessa lands og ætíð sér maður nýja fegurð, ég tel mig vera náttúruverndarsinna þó ég vilji hafa atvinnu fyrir mitt fólk.

  Guðrún Emilía Guðnadóttir, 21.7.2008 kl. 10:40

  ———————————————————

  Auðvitað viljum við öll hafa atvinnu. Ég trúi því hinsvegar ekki að eina leiðin til þess að tryggja atvinnu sé sú að reisa álver í hverju krummaskuði.

  Átti ekki álver á Reyðarfirði að bjarga í búum Austurlands frá því að flytja í torfkofa og leggjast á fjallagrasabeit? Hvernig er svo staðan fyrir austan núna? Eru ekki um 300 íbúðir til sölu á Austurhéraði? Fjöldi fyrirtækja hefur gefist upp eða orðið gjaldþrota sem merkir að þótt kunni að vanta fólk í álverið eru atvinnutækifæri fyrir þá sem ekki hafa áhuga á því, mun færri en áður. Allt háskólamennta fólkið sem átti að flykkjast austur hefur ekki skilað sér, þvert á móti er ennþá sama vesenið að manna kennastöður og heilsugæsluna. Ennþá er enginn sálfræðingur eða geðlæknir starfandi, heldur fær þetta stóra sveitarfélag þjónustu utan frá á 4-8 vikna fresti. Og ennþá fer unga fólkið burt í nám og stærsti hluti þess kemur ekki aftur.

  Fólk vill nefnilega ekki bara einhverja vinnu. Það vill fjölbreytt atvinnulíf og risafyrirtæki eyðileggja möguleikana á því.

  Eva Hauksdóttir, 21.7.2008 kl. 11:06

  ———————————————————

  Já við vörum tvær að ræða saman í morgun, hún var nýkomin að austan fannst álverið ljótt, en vill samt álver hér.

  Held að álverið á Reyðafirði hafi nú átt að bjarga því að fólk flytti í burtu,
  En Steingrímur vinur minn Sigfússon á nú heiðurinn af fjallagrasatalinu.
  En staðan er ekki komin eins og þeir bjuggust við, vonandi tekur þetta bara sinn tíma að aðlagast allt saman, svona fyrir þeirra hönd.

  Hér á Húsavík höfum við frábæra þjónustu á mörgum sviðum, og framhaldsskóla við erum bara 45 mín til Akureyrar og þar er Háskóli.
  Svo skemmir ekki hið dulúðuga umhverfi sem við búum við, hér eru álfar af öllum gerðum, nornir og andans hugar, eigi veit ég um tröll og eða forynjur.
  Ég er ekki að grínast.

  Guðrún Emilía Guðnadóttir, 21.7.2008 kl. 11:22

Lokað er á athugasemdir.