Þessvegna sagði ég nei

Ég var í miklum vafa um icesave málið. Fór í marga hringi og þótt ég hafi á endanum sagt nei, var það ekki með þeirri hjartans fullvissu að ég gæti ómögulega verið að gera mistök.

Ég sagði nei, vegna þess að enginn þeirra já-sinna sem ég talaði við, gat svarað því hvað jáið raunverulega þýddi. Enginn þeirra vissi hversu háa fjárhæð hann væri að lofa að greiða eða hvort og þá hvernig hún myndi breytast. 

Íslendingur er manneskja sem kaupir íbúð á 25 milljónir, borgar og borgar og borgar. Sér eftistöðvarnar hækka og hækka og hækka og er á endanum búinn að borga 100 milljónir. Íslendingur er manneskja skilur ekki algebru. Maður sem lofar að borga x fyrir íbúðina sína og reiknar bara með því að fyrst hann ráði við afborganirnar á þeirri stund sem samningurinn er gerður, þá hljóti x-ið að standa fyrir ‘eitthvað viðráðanlegt’.

Íslendingur er manneskja sem segir já, ég skal bara borga þetta af því að það hlýtur að vera sanngjarnt, án þess að hafa minnstu hugmynd um hver fjárhæðin verður þegar upp er staðið.

Ég er Íslendingur. Ég tók lán og sagði já við öllum skilmálum, lofaði að borga x krónur, þótt ég hefði ekki hugmynd um hvernig verðtryggingin ætti eftir að breyta upphæðinni. Ég ólst upp við þá hugmynd að þannig væri það bara og ég tuðaði svosem yfir því en gagnrýni mín á þessa brjálsemi náði ekki lengra.

En ekki meir. Ég er búin að sætta mig við að x merkir ‘óþekkt stærð’ en ekki ‘þetta reddast’ eða ‘eitthvað ásættanlegt’. Ég er hætt að taka á mig skuldbindingar sem ég veit ekki hvort ég get staðið við og ég ætla ekki að setja slíkar skuldbindingar á annað fólk.

Ég hef enga hugmynd um hvað icesave samningurinn merkir í krónum talið eða hvernig ríkið ætlar að standa við hann. Þessvegna sagði ég nei, óháð því hvort hann er sanngjarn eða ekki.

Share to Facebook

One thought on “Þessvegna sagði ég nei

  1.  ———————————
    Hvað þýðir neiið?

    Hvað mun það kosta okkur?

    Hvað mun dómsmál kosta?

    Hvað mun það kosta okkur ef við töpum dómsmáli?

    M.ö.o. þá er óvissa hvort sem þú segir já eða nei. Ég tel að færð hafi verið góð rök fyrir því að óvissan sé meiri nei- megin.

    Posted by: Matti | 5.04.2011 | 9:27:56

     ———————————

    Flott ertu Eva!

    Posted by: aagnarsson | 5.04.2011 | 9:31:12

    Þetta eru góðir punktar, við þurfum að læra að segja nei við svo mörgu, verðtryggingin er svo sannarlega ofarlega á blaði.

    Posted by: Gullvagninn | 5.04.2011 | 9:32:23

     ———————————

    Lífið er samfelld óvissa. Hér er hamstur sem er handviss um sína stefnu í lífinu:

    http://www.youtube.com/watch?v=hM3jzlyNIpc

    Posted by: Elín Sigurðardóttir | 5.04.2011 | 10:03:52

    Það er alveg rétt að við vitum ekki hvað dómsmál kostar. Á tímabili ætlaði ég að segja já vegna þess að dómstólum er ekki ætlað að dæma samkvæmt réttlætinu heldur að túlka lög. Lög geta verið gölluð en auk þess eru lög oft sett í þágu auðvaldsins. Það er því varasamt að treysta dómstólum.

    Ég ákvað á endanum að ég vildi frekar láta dæma mig til að borga y en að samþykkja að borga x. Ég skil alveg þá sem taka x-ið. Alveg eins og ég skil konu sem er ‘samvinnuþýð’ á meðan er verið að nauðga henni af því að annars er hætta á að hún meiðist verr.

    Posted by: Eva | 5.04.2011 | 10:09:23

     ———————————

    > Ég skil alveg þá sem taka x-ið. Alveg eins og ég skil konu sem er ‘samvinnuþýð’ á meðan er verið að nauðga henni af því að annars er hætta á að hún meiðist verr.

    Frábært. Afar málefnalegt 🙁

    Það er líka hægt að líta þannig á þetta mál að það sé rétt að semj.a Ég veit að íslendingar eiga erfitt með það, en stundum þarf maður að taka á sig sök og játa að maður hafi brotið á öðrum.

    En íslendingum er tamara að væla undir ósanngirni sama hvað á gengur.

    Posted by: Matti | 5.04.2011 | 11:03:32

     ———————————

    Ég hef ekki brotið á neinum og tel því ekki ‘rétt’ að semja. Ég get hinsvegar vel litið á það sem nauðvörn þeirra sem ekki treysta því að réttlæti náist með dómi. Stundum er af tvennu illu skárra að láta ranglæti yfir sig ganga en að taka áhættu á meiri skaða með því að krefjast réttlætis.

    Posted by: Eva | 5.04.2011 | 12:01:12

     ———————————

    „Ég hef ekki brotið á neinum og tel því ekki ‘rétt’ að semja.“
    Þetta eru hæpin rök að mínu mati, því það er ríkið sem bauð upp á Icesave með eftirlitsleysi fyrir hönd okkar þegnanna, og reyndar margt annað í leiðinni. Og við erum ríkið, eða þannig eru leikreglurnar í okkar lýðræðiskerfi (sem við höfum líka valið að vilja hafa)og berum því sem þjóð sameiginlega ábyrgð á því sem það gerir.
    Þjóðin kaus þessa valdhafa aftur og aftur til að fara með sín mál og þó okkur finnist við illa svikin þá berum við samt ábyrgð á þeim.

    Posted by: Hulda H. | 5.04.2011 | 12:40:37

     ———————————

    Þú gleymir einu Eva þegar þú segir: ,,Ég sagði nei, vegna þess að enginn þeirra já-sinna sem ég talaði við, gat svarað því hvað jáið raunverulega þýddi.“

    Á móti bendi ég á að enginn þeirra sem segir nei getur svarað því hvað nei þýðir. Því miður fylgir kostnaður báðum leiðum og hann er óviss í báðum tilvikum. Röksemd þín fyrir að segja nei fellur því niður. Þú ættir að segja já því ljóst er að hugsanlegur hámarkskostnaður af NEI er miklu meiri en hugsanlegur hámarkskostnaður af jái – ef þú ert bara að hugsa um peningahlið málsins.

    Posted by: Stefán Jón Hafstein | 5.04.2011 | 14:33:33

     ———————————

    Ég gleymi því ekkert Stefán. Nei-ið merkir að málið fer fyrir dóm og eins og í felstum dómsmálum getur niðurstaðan brugðið til beggja vona.

    Þegar maður semur á maður hinsvegar að vita hverju maður er að lofa. Samningur ætti að taka burt áhættuna en hann gerir það ekki í þessu tilviki.

    Hulda, þeir sem tóku þessar ákvarðanir eru menn með nöfn og kennitölur sem höfðu ekkert umboð til að haga sér eins og þeir gerðu. Ég tel mig ekki bera neina ábyrgð á þeim og ég vil fá það staðfest með dómi.

    Posted by: Eva | 5.04.2011 | 14:51:44

     ———————————

    > Þegar maður semur á maður hinsvegar að vita hverju maður er að lofa. Samningur ætti að taka burt áhættuna en hann gerir það ekki í þessu tilviki.

    Þessir samningar gengu einmitt út á að lágmarka áhættuna. T.d. með sveigjanlegum greiðslutíma, lágum vöxtum (miklu lægri en aðrar þjóðir eru að fá) og klausum um að greiðslur falli niður ef erfitt er í þjóðarbúinu.

    Ef nei, hvað þá? Ef dómur fellur gegn okkur og við setjumst aftur við samningaborðið – um hvað eigum við þá að semja?

    Posted by: Matti | 5.04.2011 | 15:52:40

     ———————————

    Ef dómur fellur gegn okkur þá þurfa Bretar og Hollendingar að taka afstöðu til þess hvort þeir vilja höfða skaðabótamál (á Íslandi) eða reyna samningaleiðina áfram.

    Posted by: Eva | 5.04.2011 | 17:09:38

     ———————————

    Ég er enn að ákveða mig og langar að segja nei en þetta truflar mig töluvert.
    http://blog.eyjan.is/valgardur/2011/03/30/er-ollum-sama-um-sidferdid/

    Svo má heldur ekki gleyma því að Íslendingar bera ábyrgð á íslenskum stjórnvöldum.

    Posted by: Steina | 5.04.2011 | 22:20:18

     ———————————

    Mér finnst Rósa svara þessu ágætlega í athugasemdakerfi Valgarðs.

    Þetta var einfaldlega skipukögð glæpastarfsemi.

    Posted by: Eva | 6.04.2011 | 7:24:31

     ———————————

    Mér finnst Rósa svara þessu ágætlega í athugasemdakerfi Valgarðs.

    Þetta var einfaldlega skipukögð glæpastarfsemi.

    Posted by: Eva | 6.04.2011 | 7:24:51

Lokað er á athugasemdir.