Þegar mótmæli fara úr böndnunum

Mótmælafundurinn á Austurvelli í gær var friðsamlegur. Fólk er að vísu orðið bæði langþreytt og langreitt og sú frábæra ræðukona Katrín Oddsdóttir tilkynnti ráðamönnum að ef ekki yrði boðað til kosninga fljótlega, myndi lýðurinn sjálfur sjá um að bera menn út úr opinberum byggingum. Enginn var þó borinn út í þetta sinn og þótt reiðin kraumi líkt og eldfjall sem býst til að gjósa, var allt var með hinni mestu spekt.

http://www.youtube.com/watch?v=0P3shgARmck

Mótmælafundurinn við Hlemm fór hinsvegar úr böndunum. Ef hann var þá nokkurntíma í sérstökum böndum. Margir virðast líta á það sem lögmál að það sé afskaplega slæmt þegar eitthvað ‘fer úr böndunum’ en ég er nú ekki svo viss um að það sé að öllu leyti slæmt. Hættan á meiðslum er vissulega áhyggjuefni en um leið sýna óeirðir að lýðurinn hefur vald, mikið vald sem allajafna er lítt áberandi.

Hvað gerðist við lögreglustöðina á Hverfisgötu í gær? Jú, það sem gerðist var að reiðir mótmælendur flykktust þangað og kröfðust þess að maður, sem augljóslega var handtekinn í þeim tilgangi að halda honum frá mótmælum og senda öðrum skilaboð um að halda sig innan ákveðins ramma, yrði látinn laus. Það var ekki snjallt hjá lögreglunni að beita valdníðslu til að taka einn virkasta aktivista landsins úr umferð og það kvöldið fyrir stóran mótmælafund. Byltingarástand er í uppsiglingu á Íslandi. Fólk er búið að fá nóg af valdníðslu og það mátti hreinlega reikna með að þetta yrði til þess að upp úr syði.. Köll múgsins fengu hinsvegar enga athygli. Það var bara engu líkara en að lögreglustöðin væri mannlaus.

Hvað gerist þegar bálreitt fólk hefur vikum saman krafist þess að hátt settir embættismenn axli ábyrgð á verkum sínum og svarið sem það fær er ‘haldið ykkur á mottunni’? Hvað gerist þegar þetta sama fólk krefst þess þau skilaboð séu tekin til baka; að réttur hvers manns til að koma skoðunum sínum á framfæri sé virtur, og það er einfaldlega hundsað? Jú, það verður ennþá reiðara. Eiginlega bara snarhoppandi vitlaust. Það er nú bara mannlegt eðli. Og snarhoppandi vitlaust fólk er ekki friðsamlegt. Þegar reiðin er komin á visst stig hættir fólk að tala. Það fer að hrópa og þegar það ber ekki árangur heldur, þá grípur það til róttækra aðgerða.

Hvað má læra af óeirðunum sem brutust út hjá Lögreglustöðinni við Hlemm í gær? Allavega það að þegar verðir laganna verða hræddir, er ekki hægt að reikna með að þeir fylgi reglum um notkun piparúða. Við getum ekki reiknað með aðvörun áður en slíkum vopnum er beitt og við getum átt von á því að efni sem er hugsað sem úði, sé hreinlega skvett framan í fólk í lítratali. M.ö.o. við getum ekki gert ráð fyrir faglegum vinnubrögðum íslenskra lögreglumanna ef þeir þurfa að kljást við óeirðir.

En það er fleira sem má læra af atburðum gærdagsins. T.d. það að á Íslandi er til fólk sem lætur ekki hundsa sig. Að þegar fólk er orðið snarhoppandi vitlaust af bræði, þá er það fært um að brjóta sér leið inn á lögreglustöð, í þeim tilgangi að sækja mann sem á ekki heima í fangelsi.

Og af því má einnig álykta að þegar kröfur fólksins um að embættismenn axli ábyrgð hafa verið hundsaðar nógu lengi, þá muni það verða nógu snarhoppandi vitlaust, til þess að brjóta sér leið inn í Seðlabankann, inn í Fjármálaeftirlitið, já inn í Stjórnarráðið, í þeim tilgangi að sækja þá menn sem eiga þar ekki heima.

Share to Facebook

One thought on “Þegar mótmæli fara úr böndnunum

  1. —————————————————–

    það er ör þunn lína milli sorgar og reiði.

    SORG vs REIÐI
    þetta eru tveir andstæðir pólar.
    það er hægt að mótmæla með reiði og það er hægt að mótmæla með sorg.
    þessi lína þarna á milli .. hefur punkt.
    þeir sem eru hlutlausir, huglausir, hrygglausir eða hvað sem orð hafa yfir það að segja um þá einstöku sálir munu safnast að punktinum ef sá punktur er til.
    Ghandi var góður punktur.
    Theresha var yndisleg.
    það er ekki til neitt sem fer úr böndunum, það er allt fyrirséð. og þá meina ég allt.
    jæja. nú fer ég að vera búin með fríið mitt og fer að vinna allar nætur til þess dags er ég fer til austurlanda fjær. ég vona að ég hafi samt tíma til að kíkja í tee til þín. ég myndi gjarnan vilja fá að speglast við Hauk. þ.e.a.s. ræða við hann auglitis og í heyranda hrynjanda.
    hann bauð mér kex úr pakka síðast.. ég hafði ekki hugmynd að hann væri sonur þinn. en ég vissi samt þá að það var hann sem flaggaði bónusfánanum. það er húmor * >og að mótmæla með húmor er bandamaður þess að mótmæla í sorg. því sorg og húmor eru bræður og systur í ást og visku.
    en reiði á bróður og systur í stríðni, heimsku og hatri.
    kveðja.

    Posted by: gaddi | 23.11.2008 | 4:58:38

    ————————————————

    sammála þér Eva.

    Posted by: baun | 23.11.2008 | 11:08:17

    ————————————————

    Fæ ég að linka inn á þig frá mér.
    Þetta er þörf og mikil umræða og ástand og frábært að geta lesið frá þér.

    Posted by: Steinar kristinn | 23.11.2008 | 23:31:43

    ————————————————

    Að sjálfsögðu máttu tengja á mig 🙂

    Posted by: Eva | 26.11.2008 | 0:22:31

    ————————————————

    Það sem var fyrst til að fara úr böndunum var yfirgangur stjórnvalda gegn lýðræðis- og siðferðisvitund þjóðarinnar.
    Ástandið hérna á skerinu er löngu farið úr böndunum en það er ekki sonur þinn sem ber ábyrgð á því neitt sérstaklega.
    Auðvitað erum við orðin hoppandi vitlaus af bræði, og skárra að það fái útrás svona en inni á heimilum fólks.
    Þegar lögreglan er byrjuð að stunda pólitískar handtökur á „óánægjuseggjum“. eins og við erum stundum kölluð, þá er illt í efni. Því er nauðsynlegt að spyrna fast við fótum þegar svo ber undir, áður en kúgunin nær að halda áfram. Við gætum svosem alveg haldið áfram að mótmæla út í eitt með „friðsamlegum“ ræðuhöldum, en ef enginn aðhefst neitt hver á þá að mótmæla þegar síðasti mótmælandinn hefur verið handtekinn?

    Posted by: Guðmundur Ásgeirsson | 26.11.2008 | 14:11:59

    ————————————————

    Tjásur af moggabloggi:
    ertu búin að jafna þig á táragasinu eða hvað þetta var nú sem var spúlað yfir okkur?

    Birgitta Jónsdóttir, 23.11.2008 kl. 09:27

    ————————————————

    Handtakan var ekki lögmæt. Hún hefði verið það ef hann hefði hundsað boð um afplánun en því er ekki til að dreifa. Hann var búinn að sitja af sér 4-5 daga 2007, sinnti þá að sjálfsögðu boðun í afplánun, var hent út á 5. degi og hefur ekki fengið neina boðun síðan. Það er engin heimilid fyrir því í lögum að henda fólki (sem hefur sinnt boðun í afplánun) út úr fangelsi og hirða það svo upp fyrirvaralaust meira en ári síðar.Eva Hauksdóttir, 23.11.2008 kl. 14:12

    ————————————————

    Yfirlýsingin á tröppunum fyrir framan Hverfisteininn var frábær. Hún gaf mörgum góða tilfinningu fyrir mótmælunum og setti þetta í samhengi. bara takk fyrir.

    baráttukveðjur Elvar

    elvar (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 09:38

Lokað er á athugasemdir.