Þarf að hreinsa út úr Hæstarétti?

Vinsamlegast hlustið á viðtalið við Ragnar Aðalsteinsson.

Það er semsagt ekki hægt að fá málið tekið fyrir hjá mannréttindadómstólum. Og jafnvel þótt óháð rannsóknarnefnd komist að þeirri niðurstöðu að rannsóknaraðferðir hafi verið ólögmætar, munu sakborningar ekki fá uppreisn æru við það.

Fínt að fá óháða rannsóknarnefnd en mér finnst ekki nóg að tryggja að sambærileg mál endurtaki sig ekki. Ég vil að dómstólar viðurkenni mistök sín og að þeir sem voru sakfelldir á sínum tíma verði formlega hreinsaðir af þeim dómum. Það lítur því miður út fyrir að eina leiðin til þess sé sú að fá Hæstarétt til að taka málin upp aftur og Hæstiréttur vill það áreiðanlega ekki.

Eina leiðin til að fá málið endurupptekið með góðu er að fram komi ný afgerandi sönnunargögn. Kannski eru engin sönnunargögn til í Guðmundarmálinu. Kannski fór hann bara í sjóinn án þess að nokkurt vitni væri að því. Geirfinnur aftur á móti var búinn að mæla sér mót við mann og einhver veit hver sá maður var og hvaða erindi hann átti við Geirfinn. Einhver veit eitthvað.

Ef einhver gefur sig ekki fram og varpar ljósi á málið, þá er aðeins tvennt í boði; að við sættum okkur við dómsmorð nú eða þá gamla, góða húsráðið að gera bara allt vitlaust. Búsáhaldabyltingin gekk ekki nógu langt, eina breytingin varð sú að skipt var um rassa í ráðherrastólunum en engu að síður er hún mikilvægur atburður í Íslandssögunni. Á þeim dögum sannaðist nefnilega að almenningur getur svælt út ríkisstjórn og m.a.s. án vopnavalds.

Þjóð sem getur komið ríkisstjórn frá völdum getur líka hreinsað bjakkið úr réttarkerfinu. Vandamálið er að of margir munu ekki telja sig eiga hagsmuna að gæta. Og margir munu ekki bera gæfu til að setja sig í spor þeirra sem sæta óréttlæti af hálfu réttarkerfisins. Og margir munu hugsa sem svo; ég yrði aldrei í þessum sporum, það er bara vandræðafólk sem lendir í svona rugli.

Kæri lesandi, þú sem ekki ert neinn vandræðamaður. Ertu nú alveg viss um að þetta komi þér ekki við? Getur verið að einhversstaðar í þinni fjölskyldu eða vinahópi leynist vandræðamaður? Ertu alveg viss um að barnung dóttir þín gæti aldrei með nokkru móti orðið ólett eftir smákrimma? Ertu alveg viss um að sonur þinn myndi aldrei undir neinum kringumstæðum koma nálægt fíkniefnamisferli? Að konan þín myndi aldrei misnota aðstöðu sína til að svíkja fé út úr vinnuveitanda sínum?

Rannsókn Guðmundarmálins hófst með því að tveir unglingar voru handteknir vegna fjársvikamáls. Ef þú þekkir einhvern sem við einhverjar aðstæður gæti gert mistök, jafnvel brotið lög, þá skrifar þú undir áskorun um að Guðmundar- og Geirfinnsmálin verði tekin upp hjá Hæstarétti. Dómsmorð var framið og þetta fólk á siðferðilegan rétt á leiðréttingu. Ef áskorun dugar ekki til þá þarf að hreinsa út úr Hæstarétti með beinum aðgerðum.

Share to Facebook