Það sem virkar


Mótmælandi Íslands
Þessi maður heitir Helgi Hóseasson. Í 46 ár hefur hann haldið á lofti þeirri kröfu að fá skírn sína inn í kristna kirkju ógilta. Oftast hefur hann mótmælt með því að bera skilti með áletrunum sem kristnir hljóta að flokka sem guðlast. Frá því að tveir valdníðingar gerðu sig seka um landráð (sem þeir hafa þó aldrei þurft að svara fyrir, hvað þá að gjalda fyrir) með því að innrita Íslendinga í árásarstíð gagnvart fólk sem við áttum ekkert sökótt við, hefur hann einnig mótmælt þeim gjörningi með skiltaburði.

Þegar Helgi hóf báráttu sína, reyndi hann fyrst að fara í gegnum dómskerfið. Hann stefndi biskupi fyrir  héraðsdóm, þá hæstarétt og leitaði loks til mannréttindadómstóls Evrópu. Ekki fékk hann skírnarsáttmálann ógiltan með því.

Helgi reyndi þá að stefna hagstofunni fyrir ranga skráningu í fæðingarvottorði (þar sem hann er skráður skírður) og vildi að sett yrði á það vottorð að hann hefði rofið þann sáttmála en málinu var vísað frá. Þetta mál fór einnig fyrir bæði hæstarétt og mannréttindadómstólinn.

Fyrir utan dómstólaleiðina og skiltaburð á Helgi að baki nokkrar beinar aðgerðir. Árið 1966  mætti hann til messu í Dómkirkjunni og gekk til altaris þar sem hann setti oblátu og hellti úr messuvínsstaupinu í poka sem merktur var ‘sorp’. Hann ávarpaði svo kirkjugesti og útskýrði að hann væri með þessu að ógilda skírnarsáttmálann sem hafði verið gerður fyrir hans hönd sem hvítvoðungs og jafnframt fermingarsáttmálann sem hann hefði verið vélaður til á barnsaldri.

Árið 1972 sletti Helgi skyri á forseta, biskup og alþingismenn við þingsetningu. Hann sletti tjöru á  Stjórnarráðið 1974, braut rúður í Alþingishúsinu 1976 og skvetti ryðvarnarefni á Stjórnarráðið 1981. Auk þessa ritaði hann bókina Ríó og rögn þess, þar sem hann lýsir þrautagöngu sinni og baráttu við kerfið.

Enn í dag ber Helgi skilti og krefst þess að skírn hans verði formlega skráð ógild. Það eru þó ekki skiltin eða tíðar heimsóknir hans í dómsali sem hafa vakið athygli og skapað umræðu um réttindi trúleysingja, heldur eru það beinu aðgerðirnar.

Helgi hefur enn ekki fengið sinni sanngjörnu og hógværu kröfu framgengt. Ef ég verð einhverntíma nógu pirruð yfir því að vera skráð skírð, til þess að reyna að fá þann sáttmála ógiltan, þá mun ég ekki leita til dómstóla. Ég mun heldur ekki sletta skyri eða tjöru eða halda ræðu í dómkirkjunni. Ég mun ekki skrifa blaðagreinar eða bók og allra síst mun ég bera skilti.

Þessar mótmælaaðferðir eru allar góðra gjalda verðar og nauðsynlegar með, en Helgi hefur þegar beitt öllum þessum aðferðum til að kynna málstaðinn og það þarf ekki að eyða fleiri áratugum í það. Það er nefnilega búið að sýna sig að þessar aðferðir virka ágætlega til að vekja athygli á málinu en ekki til að þvinga yfirvöld til að bregðast við. Og það er ekkert vit í því að beita alltaf sömu aðferðinni en búast samt við nýrri niðurstöðu.

Í meira en tvo mánuði hafa þúsundir manna haldið uppi þeirri kröfu að ríkisstjórnin, bankaráð Seðlabankans og stjórn fjármálaeftirlitsins segi af sér. Við höfum krafist þess með ræðuhöldum, skiltaburði, blaðagreinum og bloggskrifum. Nokkrir með því að kasta matvælum, nokkrir með því að setjast í anddyri Seðlabankans og krefjast afsagnar Davíðs Oddssonar. Ekkert af þessu hefur borið minnsta árangur. Væri ekki nær að skoða mannkynssöguna og athuga hvaða aðferðir hafa virkað?

Hvernig var þrælkun negra í Bandaríkjunum aflétt? Með friðsamlegum mótmælagöngum og spjaldi á spýtu? Nei, með samtakamætti og beinum aðgerðum, sem sannarlega stóðust ekki lög þess tíma og samfélags.

Hvernig var verkalýðsbaráttan háð? Með ræðuhöldum? Já, að hluta, það er nauðsynlegt að fólk stappi stálinu hvert í annað en það sem skilaði árangri voru verkföll. Ekki eins manns, heldur mikils fjölda.

Hvernig fengu konur kosningarétt? Með því að leita til dómstóla? Nei. Þær gerðu það með því að rísa gegn gildum samfélagsins, klæðast buxum og ganga í karlastörf. Ég er viss um að ef hefðu verið til farsímar á þeim tíma, hefði lúðinn sem sendi mér nafnlaus sms í gærkvöld, líka sent þeim eitthvert skítkast um að þær væru geðveikar og óhæfar eiginkonur.

Hvernig losnuðu Indverjar undan kúgun Breta? Með því að halda sig innan ramma laganna? Nei, þeir gerðu það með borgaralegri óhlýðni. Með því að sitja þegar þeim var sagt að standa og standa þegar þeim var sagt að sitja. Með því að brjóta lög sem gerðu þeim ófært að sjá sér farborða á eigin spýtur, með því að líta á það sem merki um hetjuskap en ekki skömm að lenda í fangelsi fyrir málstaðinn.

Svona mætti lengi telja en það er sama hvar okkur ber niður; nánast allsttaðar þar sem árangur næst í baráttu gegn yfirvaldi eru lykilorðin tvö; óhlýðni og samtakamáttur.

Beinar aðgerðir þurfa alls ekki að vera ófriðlegar og markmiðið ætti alltaf að vera að enginn skaðist. En þegar beinar aðgerðir hafa verið notaðar af einstaklingum eða litlum hópum til að vekja athygli á málefninu og hvetja fólk til frumkvæðis, þá er næsta skref að safna liði.

Síðasta mánudag greip ég til beinnar aðgerðar. Ég framdi galdragjörning við Stjórnarráðið og því næst fór ég í Seðlabankann. Ég fékk lögregluna til að hjálpa mér að komast inn. Enda þótt fjölmiðlamenn hafi verið í mesta basli með að ná tali af Davíð Oddssyni í margar vikur, var það ekki einungis hann sjálfur, heldur allir þrír bankastjórarnir sem tóku á móti mér.

Davíð sagði ekki af sér en ég komst þó þetta langt. Og ef konupísl í Vesturbænum kemst upp með að ganga inn í Seðlabankann og ræða við valdamann sem fjölmiðlar hafa ekki greiðan aðgang að; þá er það merki um að hver sem er getur komið skoðun sinni á framfæri. Við þurfum ekki að einskorða okkur við fundina sem Hörður Torfason stendur fyrir þótt ég hvetji vissulega alla til að mæta á þá. Við þurfum ekki leiðtoga eða að bíða eftir að einhver geri eitthvað. Við getum bara krafist þess sem við viljum, sjálf á eigin forsendum.

Það sem hinsvegar þarf til að það beri árangur er samstaða fjöldans. Ég er þegar búin að sýna fram að meðaljóninn getur vel gripið til beinna aðgerða, rétt eins og Helgi Hóseason og Ghandi. Helgi náði ekki árangri af því að hann stóð einn. Ghandi náði ekki árangri af því að hann væri svo æðislegur, heldur af því að hann stóð ekki einn. Og nú vildi ég sjá að allir meðaljónarnir sem vilja grípa til beinna aðgerða stæðu saman.  Ég bið því hvern þann sem er að skipuleggja beina aðgerð gegn ríkisstjórn, Seðlabanka og fjármálaeftirlit, sem ég get á einhvern hátt hjálpað til við eða tekið þátt í að hafa samband við mig.

One thought on “Það sem virkar

  1. ——————————————————

    Heyr, heyr!

    Ég er mjög á móti ofbeldi en ég er samt sammála þér í þessum pistli.

    Bellatrix (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 19:32

    ——————————————————-

    Ég er heldur ekki að mæla með ofbeldi.Eva Hauksdóttir, 4.12.2008 kl. 21:57——————————————————-

    Það er margt sem gerir þig og þinn málflutning ótrúverðan.Saving Iceland og þær aðgerðir sem þau samtök standa fyrir fara þar fremst í flokki.Löngun í frægð sem þú hefur ekki áunnið þér með verkum heldur fjölmiðlum gerir þig ekki heldur beint trúverðuga eða kannski gerir forsíðumynd á Vikunni af þér gæfu muninn í baráttunni um betra Ísland.Sagði einhver athyglissýki ?Einar Oddur Ólafsson, 4.12.2008 kl. 22:45——————————————————-

    Takk fyrir frábæran pistil Eva. Hann er eins og skrifaður frá mínu hjarta. Mér sýnist mikill fjöldi vera til í alvöru aðgerðir. Vandamálið er að ná fólkinu saman. Hvernig er það hægt? Ég hef á tilfinningunni að margir aðgerðahópar séu í gangi sem ekki vita af hvorum öðrum. Það jákvæða er að margir Íslendingar eru farnir að opna augun og hættir að hafa áhyggjur af almenningsálitinu. Þó að auðvitað séu nokkrir aðilar enn að rembast eins og hann Einar Oddur.Bergljót (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 23:29——————————————————-

    Einar Oddur:

    1) Hvað er ótrúverðugt við minn málflutning og á hvaða hátt tengist sá ótrúverðugleiki Saving Iceland?

    2) Geturðu rökstutt þá hugmynd að fólk sem notar fjölmiðla til að halda skoðunum sínum á lofti, geri það af athyglissýki fremur en áhuga á málefninu?

    3) Hefurðu eitthvað fyrir þér í því að athyglissjúkt fólk sé ótrúverðugra en aðrir?

    Eva Hauksdóttir, 4.12.2008 kl. 23:49

    ——————————————————-

    Eva, þú ert flottust! Greta Björg Úlfsdóttir, 5.12.2008 kl. 00:32

    ——————————————————-

    Íslensk þjóð er í álögum. Breyting hugarfarsins er það, sem þarf til að aflétta þeim.

    Ásgeir Kristinn Lárusson, 5.12.2008 kl. 08:23

    ——————————————————-

    Elsk jú
    Hulla Dan, 6.12.2008 kl. 15:49

    ——————————————————-
      Eva ég styð þig 100%

    Í þeirri baráttu sem framundan er, þurfum við kraftmikið fólk eins og þig.

    hilmar jónsson, 7.12.2008 kl. 01:58

    ——————————————————-

    Læðist inn til þín sem þjófur að nóttu, en þó að eins til að spyrja, ekki til að stela neinu nema ef vera skildi athygli!

    Hversu margir þurfa þá að óhlýðnast, hversu stórt þarf liðið að vera svo blívi!?

    Svo finnst mér þú örlítið vanmeta mátt hins eina, bara stór munur á því hvort hann er að berjast í sína eigin þágu fyrst og síðast,oftast nær eins og Helgi, en ef hann barst fyrir aðra, marga aðra!Svo segir nú sagan okkur og það hovrt sem okkur líkar það betur eða verr, að óháð fjöldanum sem rís upp, skilar baráttan sjaldnast eða aldrei árangri nema vegna þess að EINN LEIÐTOGI og afgerandi ræður för, er forystusauður hjarðarinnar, eða þá örfáir slíkir í mesta lagi.

    Þú nefndir m.a. hvernig Indverjar brutust undan bretum, það hefðu þeir að líkindum varla gert svo farsællega án Ghandis, eða hvað heldur þú?

    Baráttuna hér gegn yfirvöldum vantar því held ég sterkan og afgerandi leiðtoga eða lið þeirra, sem svo aftur geta í raun og veru komið þessum samtakamætti á til breytinga sem vonast er eftir.

    Kannski er slíkur forystusauður að mótast í þér, „konupíslinni“?

    Vona annars, að ekki fari eins og í hið fyrra skipti sem ég vogaði mér hingað inn, atvinnumaður í „þrætubókarlist“ gjammi fram í svo þú leiðist út í tilgangslaust þjark við hann!

    Magnús Geir Guðmundsson, 7.12.2008 kl. 04:23

    ——————————————————-

    Mér finnst þetta mjög vel skrifað hjá þér, Eva. Finnst þú sjá stöðuna mjög skírt og tjá þig á trúverðugan og traustvekjandi hátt. Ég er þér hjartanlega sammála. Og hægt og rólega þá finnst lausn, – hvers konar aðgerðum skal beitt. Hvernig, hvar og hvenær. Gleymum ekki, að við erum að læra. Þetta er í fyrsta skipti í sögu Íslendinga sem við stöndum frammi fyrir ógn af nákvæmlega þessu tagi. … Þú veist af mér, Eva. Kíktu á innlegg mitt við mjög nýlegri færslu „kreppunnar“, –  Jakobínu Ingunnar Ólafsdóttur.  Bið að heilsa honum syni þínum. Þið eruð hetjur bæði tvö.

    Með hlýju og alltumvefjandi kveðjum,

    Ingibjörg SoS, 7.12.2008 kl. 11:22

    ——————————————————-

    Sæl.

    Viltu senda mér sms í 847-3850 og ég hringi í þig efa ég má.

    Níels A. Ársælsson., 7.12.2008 kl. 16:32

    ——————————————————-

    Magnús; ég trúi ekki á mátt hins Eina. Fremur trúi ég á ‘hið illa afl sem gjörir gott’ eins og Bulgakov kynnir í Meistarnum og Margarítu.

    Það er aldrei einn leiðtogi sem fremur byltingu. Ég er ekki einu sinni viss um að þeir sem mestri hylli ná meðal fólksins séu mestu hugmyndasmiðirnir. Hins vegar virðist fólk hafa þörf fyrir að setja andlit á hvern málstað. Ég hef engan áhuga á að vera leiðtogi sjálf en ég hef heldur engar áhyggjur af því að Íslendingar geti ekki fundið sér slíkt andlit eins og annað fólk, ef þeir endilega vilja.

    Eva Hauksdóttir, 7.12.2008 kl. 20:39

    ——————————————————-

    Takk fyrir gott svar Eva, eða svo langt sem það náði.

    SAga Mikjáls Bulgakovs auðvitað perla í bókmenntasögunni, hárbeitt og hrífandi ádeila á heiminn og það umhverfi auðvitað sem höfundurinn lifði og hrærðist í.

    Ég var hvorki að halda því fram aðáhrifamiklir leiðtogar kæmu byltingum eða breytingum til leiðar einir og sér, eða að segja að þeir væru ávallt mestu hugmyndasmiðirnir,veit bara ekkert um það, en veit hins vegar að sagan segir okkur og kennir, að líkt og raunar með flest eða öll dýr þessarar jarðarkringlu, þarnast mannskepnan einhverra hluta vegna alltaf ákveðinnar leiðsagnar eða stjórnunnar til að umbylta eða viðhalda einhverju.Veldi bæði Grikkja og Rómverja byggðust ekki síst upp vegna afburða leiðtoga og skipulagðra vinnubragða, en þau hrundu ekki síst vegna m.a. er einmitt græðgi margra til valda og annars,yfirvann „skynsemi hinn fáu“ forystusauða.Það skiptir nú litlu hverju þú og ég trúm, þetta eru bara staðreyndir sem sagnfræðin hefur varðveitt frá fornu fari fram á þennan dag og ný og ný dæmi koma sífelt fram.

    Nýjasta dæmið er hann Obama, þrátt fyrir margvíslega erfiðleika í U’SA sem blasa við honum, virðist margt benda til að hann geti orðið sannkallaður ÞJÓÐARLEIÐTOGI, elskaður og dáður og ef eitthvað er að marka þá jákvæðu strauma sem um hann leika. En auðvitað kennir reynslan líka og segir með forseta þar, að menn skildu fara varlega að fagna þeim um of! En það hlýtur að gleðja þig ef spár rætast, að með Obama muni söguleg breyting til hins betra verða, kannski viðskiptabanni aflétt af Kúbu!? Þýðandi Meistarans og margaritu, hún Ingibjörg Haralds yrði örugglega ánægð með það gæti ég trúað!

    Magnús Geir Guðmundsson, 8.12.2008 kl. 00:35

Lokað er á athugasemdir.