Það er enginn að mæla gegn aðhaldi með fjölmiðlum

Halldóra Þorsteinsdóttir, lektor í fjölmiðlarétti, birti í gær skoðanapistil á Vísi undir heitinu Víðir Reynis og samfélagslegi sáttmálinn. Greinin er augljóslega viðbragð við pistli Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur Þarf ég að hætta að hlýða þér Víðir? enda þótt þess pistils eða höfundar hans sé í engu getið.

Það er ekkert efnislega við pistil Halldóru að athuga. Það er í sjálfu sér allt rétt sem hún segir um ábyrgð fjölmiðla og þörf á aðhaldi með þeim. Engu að síður virðist greinin sprottin af djúpstæðu skilningsleysi á því sem málið snýst um.

Það er enginn ágreiningur um það að fjölmiðlar bera ábyrgð og eiga að sæta aðhaldi. Það hefur enginn málsmetandi haldið því fram að slíkt aðhald feli í sér ritskoðun.

Málið snýst um það hvort valdafólki og fólki í áhrifastöðum er sæmandi að reyna leynt eða ljóst að hafa áhrif á það hvaða fjölmiðlar ná eyrum almennings, án þess að fyrir því séu góðar ástæður og þær ástæður uppi á borðinu.

Þessa dagana er enginn Íslendingur sem hefur meira áhrifavald en Víðir Reynisson, Alma Möller og Þórólfur Guðnason. Þeim orðum Víðis Reynissonar sem ritstjóri Kvennablaðsins gerði að umtalsefni sínu var ekki beint gegn tiltekinni frétt eða umfjöllun. Ekki heldur gegn tilteknum fullyrðingum, hræðsluáróðri, samsæriskenningum, fráleitum lækningaráðleggingum eða neinu öðru sem hönd er á festandi, heldur gegn ótilgreindum fjölmiðlum. Landlæknir hefur fallið í sömu gryfju, eins og ég kom inn á hér.

Það er líka vert að hafa í huga að á sama tíma og þessi tilmæli eru sett fram, er verið að undirbúa „kortlagningu á upplýsingaóreiðu„. Full ástæða er til að óttast að hugmyndir þeirra sem eiga að annast þá kortlagninu um það hvað teljist falsfrétt séu til þess fallnar að þrengja að fjölmiðlafrelsi. Ummæli mestu áhrifavalda landsins verða ekki slitin úr samhengi við þann kalda veruleika.

Ég tek undir kröfu Steinunnar Ólínu um að Víðir Reynisson geri grein fyrir því: „Hverjir eru traustu ritstýrðu fréttamiðlarnir sem við eigum að treysta og nota upplýsingar frá? Og hvaða fjölmiðla eigum við að forðast?“ Ég beini þessari kröfu jafnframt að landlækni.

Það er sérstaklega mikilvægt að við fáum þetta á hreint í ljósi þess að Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra beinir skilaboðum vegna kórónuveikinnar til almennings með auglýsingum í fjölmiðlum. Aðeins þó í sumum fjölmiðlum. Ætla má að þeir fjölmiðlar sem verða fyrir valinu njóti trausts stjórnvalda. Sá miðill sem mest hefur verið nýttur til að auglýsa skilaboð Almannavarna er málgagn útgerðarauðvaldsins. Meðal miðla sem minna hafa fengið en teljast þó samkvæmt þessu traustverðugir er eirikurjonsson.is.