Baráttudagur verkalýðsins og það er ekki einu sinni hægt að fara í skrúðgöngu kröfugöngu. Hvernig á verkalýðurinn þá að berjast fyrir bættum kjörum?
Fyrsti maí hefur auðvitað fyrir löngu misst gildi sitt sem sérstakur baráttudagur verkalýðsins. Lengi vel var hann fyrst og fremst hátíðisdagur verkalýðsforystunnar sem tróð þá upp með stórkallalegar yfirlýsingar um að nú væri aldeilis kominn tími á að standa uppi í hárinu á auðvaldinu en var í reynd frekar þæg atvinnurekendum og stjórnvöldum. Það var mikið gæfuspor að Efling skyldi fá formann sem hefur bæði bein i nefinu og reynslu af láglaunastörfum.
Síðustu tvö árinn hafa Efling og Sósíalistar á Íslandi staðið sig virkilega vel í því að vekja athygli á aðstæðum láglaunafólks og þeim mikilvægu en lítilsmetnu störfum sem það vinnur. Stöðug, lifandi umfjöllun er miklu verðmætari en ræðuhöld á hátíðarsamkomum. Verkafólk þarf ekki skrúðgöngu heldur almennilega málsvara og loksins eru þeir til staðar.
Það er frábært að hafa sterka verkalýðsforystu en þó enn mikilvægara að launafólk taki sjálft virkan þátt í baráttu fyrir mannvirðingu og bættum kjörum. Ótrúlega fáir eru meðvitaðir um það hvernig 1. maí varð að baráttudegi verkafólks og margir vita ekkert hvað Heimssamband verkafólks er. En það voru semsagt ekki kommúnstar austantjalds sem stofnuðu til skrúðgöngu þann dag, heldur var það verkafólk í Bandaríkjunum sem gerði hann að baráttudegi sínum. Fólk sem barðist fyrir 8 tíma vinnu og beitti kolólegum aðferðum til að ná fram þeim rétti og ýmsum öðrum réttindum sem í dag þykja sjálfsögð. Þetta fólk stofnaði samtökin IWW.
IWW stendur fyrir Industrial Workers of the World, eða Heimssamband verkafólks. Samtökin voru stofnuð í Bandaríkjunum 1905 og skiptu sköpum fyrir verkalýðsfélagavæðingu 20. aldar. Enn í dag er Heimssamband verkafólks starfandi í mörgum löndum, þar á meðal á Íslandi.
Samtökin byggja á þátttökulýðræði og eru rekin af félagsmönnum en ekki af launuðu starfsfólki eða verkalýðsforingjum. Liðsmenn hreyfingarinnar telja hlutverk verkalýðsfélags ekki vera það að koma til bjargar eftir að brotið hefur verið á starfsfólki heldur að koma í veg fyrir að það gerist. Samtökin skipuleggja starf sitt þessvegna inni á vinnustaðnum. Engir utanaðkomandi geta tekið ákvarðanir um það hvenær á að fara í verkfall, ljúka verkfalli, eða grípa til nokkurra annarra aðgerða á vinnustað. Heimssamband verkafólks er eina verkalýðsfélagið á Íslandi sem hefur það að markmiði sínu að uppræta kapítalisma.