Svo þeir hylmi ekki yfir mistök sín

lansinn-688x451

Það má vel vera að það hafi verið röng ákvörðun hjá ríkissaksóknara að gefa út ákæru á hendur Landspítlanum og tilteknum hjúkrunarfræðingi vegna mistaka sem leiddu til dauða sjúklings. Við skulum samt hafa hugfast að hér er einungis um ákæru að ræða, manneskjan hefur enn ekki verið dæmd og það getur bara vel verið að dómstólar komist að sömu niðurstöðu og formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, að ekki hafi verið um vítavert gáleysi að ræða; að ekki sé hægt að gera eina manneskju ábyrga heldur hafi margir þættir spilað saman. Komist dómstólar að þeirri niðurstöðu verður hjúkunarfræðingurinn væntanlega sýknaður.

Ég er ekkert hissa á því að það sé áfall fyrir starfsfólk Landspítalans að missa sjúkling og þurfa svo að horfast í augu við að ríkissaksóknari telji málið eiga erindi fyrir dómstóla. Ég undrast hinsvegar fréttatilkynningu Landspítalans og ályktun Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga vegna málsins.  Í báðum tilkynningunum kemur fram að með þessari ákvörðun standi starfsmenn Landspítalans frammi fyrir nýjum veruleika.

Er það virkilega „nýr veruleiki“ fyrir starfsfólk Landspítalans að mistök sem leiði til dauða sjúklings geti hugsanlega verið refsiverð? Hefur þetta fólk hingað til talið sig ósnertanlegt?  Og hvað á formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við þegar hann segir ákæruna jafnvel geta orðið til þess að starfsfólk reyni að hylma yfir mistök sín? Er maðurinn að láta að því liggja að það eigi ekki að gefa út ákærur þótt ríkissaksóknari telji að einhver hafi sýnt vítavert gáleysi með alvarlegum afleiðingum?

Allir gera mistök, líka heilbrigðisstarfsfólk og almennt má telja það jákvætt viðhorf að reyna frekar að læra af mistökum en að finna sökudólg. En ef við tökum þá afstöðu jafnvel þegar mistök leiða til andláts eða annars óbætanlegs tjóns, ætti það þá ekki að eiga við um allar stéttir? Hvað ef löggan skýtur mann fyrir mistök? Hvað ef strætisvagnsstjóri ekur á gangandi vegfaranda? Hvað ef leikskólakennari leggur flugbeittan hníf frá sér þar sem börnin ná til hans og stórslys hlýst af? Í öllum tilfellum er líklegt að mistökin megi skýra með röð atvika en ættu slíkir atburðir aldrei að hafa neinar afleiðingar vegna þess að þá gæti fólk reynt að breiða yfir mistök sín?

Ég held að refsingar séu oft óþarfar og geri stundum meira ógagn en gagn og ég vil að réttarkerfið einkennist af mannúð og mildi. Og ég vona að ef þessi hjúkrunarfræðingur verður sakfelldur (sem er alls ekki víst) þá verði dómurinn vægur. Ég vona líka að það fari í styttast í hinu teygjanlega straxi ríkisstjórnarinnar og að Landspítalinn fái fljótlega þessa 12-13 milljarða sem Vigdís Hauksdóttir lofaði fyrir kosningar.

En sú hugmynd sem skín í gegnum ályktun hjúkrunarfræðinganna, að það sé hægt að koma í veg fyrir læknamistök með hærri fjárveitingum, og fyrrnefndar yfirlýsingar um „nýjan veruleika“, vekja grun um að meðal heilbrigðisstétta ríki sú skoðun að það sé ósanngjarnt að heilbrigðisstarfsfólk þurfi að axla  ábyrgð á mistökum sínum rétt eins og aðrir. Öryggi sjúklinga er ekki síður hætta búin af því viðhorfi en af slæmum vinnuaðstæðum á sjúkrahúsunum.