Spurðu bara fræðingana

Það er sorglega lítið um að íslenskir blaðamenn bjóði upp á vandaðar fréttaskýringar. Oft virðist eina hlutverk þeirra vera það að halda á hljóðnemanum og láta „fræðimenn“ um að skýra mál sem þeir hafa enga sérstaka þekkingu á umfram þá sem almenningur hefur.

Nú hef ég síður en svo neitt á móti því að sérfræðingar séu spurðir út í það sem þeir hafa vit á, en oft eru sérfræðingar, einkum hagfræðingar og stjórnmálafræðingar, fengnir til að tjá sig um mál sem sérfræðiþekking þeirra varpar engu sérstöku ljósi á. Þessi undarlega aðdáun á fræðimannstitlinum gefur þeim jafnvel tækifæri til að koma sínum eigin pólitísku skilaboðum á framfæri. Til hvers er t.d. verið að spyrja hagfræðinga um horfurnar í þróun efnahagsmála? Man einhver til þess að hagfræðingar hafi varað við efnahagshruninu? Bendir yfirhöfuð eitthvað til þess að hagfræðiþekking geri menn að efnahagsspámönnum? Í þessu samhengi er vert að hafa í huga að hagfræðingar eru sjaldnast sammála um horfur í efnahagsmálum og bara það ætti að segja okkur að hæpið sé að líta á álit þeirra sem vísindi.

Sérfræðingadýrkunin er sérlega áberandi í stjórnmálaumræðu. Stjórnmálafræðingum er stillt upp fyrir framan hljóðnema, til þess eins að segja hið augljósa eða fabúlera um hluti sem koma þeirra fræðasviði aðeins lauslega við. Hér eru nokkur dæmi um það hvernig tilgangslausu bulli er ljáð fræðilegt yfirbragð með því að setja stjórnmálafræðing fyrir framan hljóðnemann:

Stjórnmálafræðingur rekur skoðnanir sínar á því hvernig forsetaframbjóðendur hafi staðið sig í sjónvarpsþætti. Hvað er það í menntun stjórnmálafræðinga sem gerir þá hæfari til þess en pípulagningarmenn, hjúkrunarfræðinga og öryrkja að meta svör forsetaframbjóðenda? Er það ekki hinn óstjórnmálamenntaði almenningur sem mun greiða atkvæði á kjördag?

Stjórnmálafræðingur útskýrir fylgistap ríkisstjórnarinnar. Hvernig eru það „fræði“ að fullyrða hvað fólkið í landinu er að hugsa? Hefur maðurinn eitthvað fyrir sér annað en sínar eigin pólitísku skoðanir og ef ekki, hversvegna er verið að kynna hann sem einhverskonar kennivald í þessu samhengi?

Stjórnmálafræðingur segir átökin í Framsóknarflokknum opinber. Af hverju var ég ekki bara alveg eins fengin til að lýsa því yfir fyrst blaðamenn sáu það ekki sjálfir?

Stjórnmálafræðingur gefur álit sitt á því hvað Jóhanna er að hugsa. Læra menn huglestur í stjórnmálafræði? Hvaða erindi eiga svona vangaveltur „sérfræðinga“ við almenning?

Stjórnmálafræðingur staðfestir að við getum reiknað með að niðurstöður kosninga verði í takt við viðhorfskannanir. Var einhver í vafa um það? Erum við einhverju nær þótt „sérfræðingur“ dragi þessa ályktun?

Stjórnmálafræðingur rekur það hverjir koma til greina sem formenn Samfylkingarinnar. Hann tekur m.a.s. fram að þess megi vænta að arftaki Jóhönnu muni hafa áhrif á gengi flokksins. Það var nú aldeilis fínt að „sérfræðingur“ skuli hafa bent okkur á það, ekki hefði mér dottið það í hug án fulltingis fræðimanns.

Ofangreind dæmi komu upp þegar ég sló „stjórnmálafræðingur telur“ inn í leitina hjá google. Þetta eru bara örfá dæmi um þá fáránlegu sérfræðingaþjónkun sem einkennir íslenska fjölmiðla. Þess væri óskandi að blaðamenn spyrðu sig að því, áður en þeir birta fréttir, hvort álit stjórnmálafræðinga skipti yfirhöfuð máli og hvort menntun þeirra og staða geri þá eitthvað hæfari til þess en hvern annan bloggara eða kassadömu að spá fyrir um niðurstöður kosninga og útskýra hversvegna hlutirnir hafi farið á tiltekinn veg. Ef ekki, þá er þessi stöðuga umleitan eftir áliti sérfræðinga til þess fallin að gefa þessu fólki pólitískt áhrifavald. Ef það er ekki tilgangurinn þá eiga hugrenningar þeirra ekkert erindi í fréttir sem ætlað er að varpa ljósi á stjórnmál líðandi stundar.

Share to Facebook