Hver vill borga fyrir sérvisku annarra?

SUS vill skera niður fjárframlög til ýmissa stofnana, svo sem Veðurstofunnar og Árnastofnunar. Hugmyndin er væntanlega sú að þessar stofnanir skili ekki hagvexti og séu þar með til óþurftar, eða sinni í skársta falli afþreyingarhlutverki fyrir sérvitringa.

Ég get skilið það sjónarmið að þeir sem nota þjónustuna eigi að borga fyrir hana og er að nokkru leyti sammála. Mér finnst t.d. sjálfsagt að skattar á bensín séu notaðir til að standa straum af kostnaði við vegagerð. Ég sé heldur ekki þörfina á því að ríkisútvarpið sjái almenningi fyrir afþreyingarefni sem nóg framboð er af annarsstaðar. Framar öllu finnst mér að þeir sem vilja standa í styrjöldum greiði kostnaðinn við stríðsrekstur sjálfir í stað þess að seilast í vasa friðarsinna.

Þá hugmynd að þeir eigi að borga fyrir þjónustuna sem nota hana, má svo yfirfæra á allt annað með misgáfulegum árangri. Þannig ættu þeir sem af einhverjum sérviskulegum ástæðum reikna með að fara út úr húsi næstu daga að borga fyrir þjónustu Veðurstofu sjálfir. T.d. þeir sem eru að plana skíðaferðir. Ennfremur flugmenn, bílstjórar, sjúkraflutningamenn og bændur og þeir sem eru að hugsa um hvort sé óhætt að að láta börnin ganga í skólann. Veðurfræðingar gætu bara komið upp verktakaþjónustu til að sinna þeim almannavörnum sem felast í veðurathugunum og öðrum gæluverkefnum veðuráhugamanna.

Ennfremur er rétt að þeir sem hafa áhuga á að grúska í gömlum handritum greiði sjálfir fyrir varðveislu þeirra enda er miklu ódýrara að láta Sorpu sjá um handritin en að halda Árnastofnun uppi. Ég segi nú bara eins og amma mín sáluga „og hvað er með þetta gamla handritarusl að gera? Er ekki löngu búið að setja Íslendingasögurnar í tölvu?“

Share to Facebook