Smá brot úr Búsóskýrslunni

buso

Þegar ég frétti af því fyrir um tveimur árum að til stæði að kynna efni skýrslu lögreglunnar um Búsáhaldabyltinguna hjá Stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins, ákvað ég að gera það sem í mínu valdi stæði til þess að hún yrði gerð opinber.

Það tók tvö ár.

Ég eyddi gærkvöldinu í að tína út úr Búsóskýrslunni upplýsingar sem eiga að njóta persónuverndar en eins og ég sagði frá í gær er frágangur skýrslunnar vafasamur svo vægt sé til orða tekið. Lögfræðingur sem hafði séð skýrsluna hafði samband við mig, dró í efa að lögreglunni hefði verið heimilt að senda skýrsluna á fjölmiðla, þar sem í henni eru einnig upplýsingar sem snúa að mér og voru eðlilega ekki teknar út. Lögfræðingurinn bað mig að gefa sér færi á að kynna sér skýrsluna áður en hún yrði birt opinberlega. Það er sjálfsagt mál enda stóð aldrei til að brjóta persónuverndarlög.

Fátt kemur á óvart við lestur skýrslunnar enda kynnti Geir Jón Þórisson efni hennar hjá Stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma og þrátt fyrir þá miklu leynd sem lögreglan taldi nauðsynlega komu þar fram öll aðalatriði skýrslunnar. Skýrslan er annars hin skemmtilegasta aflestrar, rétt eins og góður reifari. Greinilegt er að höfundur telur Vinstri hreyfinguna grænt framboð mikið samfélagsmein og kemur fram að lögreglan hafi sérstaklega rætt það við þingmenn VG að vera nú ekki að hafa áhrif á mótmælendur. Tekið er sérstaklega fram að nafngreint áhrifafólk innan VG hafi „sést meðal mótmælenda“  Lögreglan virðist meta hættuástand út frá fjölda anarkista á vettvangi og áhugi á fjölskyldutengslum þeirra sem koma við sögu er áberandi.

Hér eru nokkrir molar sem verða að duga áhugasömum fram eftir degi:
„Vonbrigðin leyndu sér ekki í andlitum sumra lögreglumanna og aðrir létu það í ljós með orðum. Við höfðum tapað og sá mannfjöldi með óæskilegri hegðun sinni hafði unnið. Vígvöllurinn sem var lögreglustöðin var skemmdur og þegar lögreglumenn litu yfir hann þá kom reiðin fram og spurningar komu fram sem e.t.v. var ekki hægt að svara. Við vorum síðan kallaðir inn á viðrunarfund þar tjáðu sig einhverjir með orðum meðan aðrir héldu sig til hlés. Yfirmennirnir hrósuðu okkur fyrir vel unnin störf en mörgum fannst það til lítils enda höfðum við ekki gert neitt nema að láta vaða yfir okkur.“

„„Landslið“ mótmælenda var mætt á vettvang, en m.a. var um að ræða eftirtalda aðila: …“

„Ekki sást til þeirra „mótmælakunningja“ sem oftast höfðu verið að mótmæla við þingið. Kl. 10:51 sást til eins mótmælenda, sem var kominn að austurhlið þinghússins með gjallarhorn og fylgdust lögreglumenn með honum. Kl. 10:54 sáust tveir menn við vesturhlið þinghússins og var annar þeirra með úðabrúsa, en ekki vitað hvað var í brúsanum. ARM lét lögreglumenn tala við hann og kanna málið. Reyndist maðurinn vera með vatn í brúsanum og sprautaði hann því á gangstéttina. Ákveðið að fylgjast betur með honum svo hann gerði ekki neinn óskunda. Maðurinn sem var með brúsann, reyndist vera xxx sem er þekktur af eggjakasti og fleiri óknyttum við þinghúsið. (Í þessu tilviki var nafn ekki yfirstrikað en ég ákvað að taka það út.)

Share to Facebook