Síðasta aðgerð ársins

Mikið hefur verið bloggað um þessa síðustu aðgerð ársins og fréttaflutningur af stórfelldum skemmdarverkum og líkamsárásum blásinn upp. Sé það rétt að einhver hafi kastað múrsteini í lögreglumann og kinnbeinsbrotið hann, þykir mér það skelfilegt. Ég styð ekki ofbeldi og þekki engan sem ég trúi að myndi réttlæta slíkt. Ég sá ekkert ofbeldi sjálf, nema auðvitað þá ótrúlegu aðgerð lögreglu að beita piparúða innan dyra. Slíkt er forkastanlegt og ég verð ekki hissa þótt þetta verði til þess að aðgerðum verði beint sérstaklega gegn lögreglunni næst.

Ástæðan fyrir því að farið var inn í anddyrið var einfaldlega sú að þannig var hægt að gera ráð fyrir að froðusnakkarnir heyrðu í okkur. Tilgangurinn var sá að trufla fundinn og helst útsendinguna líka (hvorttveggja tókst) og það var ekki hægt að gera með því að standa úti á Austurvelli.

Aðgerðinni var ekki beint gegn Hótel Borg eða Stöð 2 og engar ákvarðanir voru teknar um skemmdarverk (þótt öll fjárhagsleg áföll sem eigendur 365 verða fyrir gleðji mig persónulega). Reynt var að taka kapal úr sambandi og það getur ekki talist skemmdarverk. Hafi orðið skemmdir á tækjabúnaði, finnst mér líklegast að það hafi verið af slysni en hvort heldur er þá er það allavega komið til skila að ENGINN, hvorki fjölmiðlar, lögregla né aðrir, munu stöðva aðgerðasinna í því að trufla formenn stjórnmálaflokkanna í því að bera meira froðusnakk á borð fyrir okkur.

Hvað varðar þá starfsmenn Stöðvar 2 sem sagðir eru slasaðir, þá þykir mér leitt ef það er rétt. Hitt er svo annað mál að hvorki starfsmenn Stöðvar 2 né starfmenn hótel Borgar eru löggur. Löggan var hinsvegar á næsta leiti og með mikinn viðbúnað og hefðu verið eðlileg viðbrögð að kalla þá til, fremur en að staffið færi sjálft að reyna að kæfa mótmælin niður. Ef almennir borgarar taka að sér löggæslustörf upp á sitt eindæmi, geta þeir búist við að lenda í átökum. Ég trúi því allavega ekki að nokkur hafi ráðist á tökuliðið eða þjóna að fyrra bragði, enda aðgerðinni ekki beint gegn þeim á nokkurn hátt.

Eina ofbeldið sem ég varð vitni að var af hálfu lögreglunnar. Þetta er í annað sinn á 6 vikum sem lögregla beitir piparúða innan dyra. Í fyrra skiptið hélt ég að þar hefði bjáni verið við stjórn og að hann hefði nú lært sína lexíu sem og aðrir lögreglumenn. Nú þegar þetta gerist aftur svo stuttu síðar er erfitt að skilja það sem annað en stríðsyfirlýsingu.

Ég hef sjálf áhyggjur af því að brátt muni brjótast út óeirðir en ég get ekki látið þann ótta stöðva mig í því ætlunarverki að trufla hverja einustu stofnun og hvern einasta einstakling sem ber ábyrgð á efnahagsstefnu undanfarinna ára, í því að fremja fleiri afglöp gagnvart þjóð minni, sonum mínum og mér sjálfri. Ég hef engan áhuga á því sjálf að standa í einhverju stríði við lögregluna og ég hygg að flestir hafi þá afstöðu, enda hefur aðgerðum ekki verið beint gegn henni hingað til. En svo má brýna hvern hníf að bíti, reiðin ólgar í grasrótinni og ég býst við að ef lögreglan endilega vill óeirðir, þá geti hún fengið þær.

 

Share to Facebook

One thought on “Síðasta aðgerð ársins

 1. Já og ég vil endilega benda á þessa frásögn:http://birgitta.blog.is/blog/birgitta/entry/758972/ af atburðum gamlársdags.

  Posted by: Eva | 1.01.2009 | 6:01:03

  —————————————————————

  Vildi bara segja þér að 90% af íslensku þjóðinni skammast sín fyrir fólk eins og þig!!! Þú og þitt pakk….já ég sagði pakk….hefðuð bara átt að dúsa í fangaklefa á nýársnótt!!

  Posted by: KJB | 1.01.2009 | 6:16:52

  —————————————————————

  Ég skal alveg trúa því að stór hluti þjóðarinnar, sá sami og er ennþá tilbúinn til að treysta ríkisstjórninni og eftirlitsstofnunum eftir allt sem á undan er gengið, sami hluti og er ennþá staðráðinn í að versla við Baugsveldið af því að eigendurnir séu svo miklir lágverðsöðlingar, sami hluti og trúir því að með nógu miklum lántökum sé hægt að halda neyslusukkinu áfram, sé nógu víðáttuvitlaus til að fordæma þá sem eru að reyna að spyrna á móti. Það er þó fullmikið að reikna með að 90% þjóðarinnar slagi ekki upp í meðalgreind.

  Hér eru annars fleiri frásagnir með myndum og myndböndum.

  http://hehau.blog.is/blog/hehau/

  http://salvor.blog.is/blog/salvor/entry/759037/

  Posted by: Eva | 1.01.2009 | 9:55:01

   
  Þremenningunum sleppt
   
  —————————————————————

  Tilheyri stoltur þeirri tíund þjóðarinnar sem fagnar því að mótmælt og andæft af krafti. Þó það kosti pústra þegar sjálfskipaðir varðmenn og óvanar löggur ganga í leikinn.

  Hitt er svo annað mál að áhrifamáttur mótmælanna var í raun mestur fyrir okkur sófadýrin meðan hávaðinn stigmagnaðist fyrir utan og flokksbroddarnir reyndu að halda uppi venjulegu þvaðri. Verulega áhrifamikið (segir þessi gamli leiklistarrýnir). Já og af fenginni reynslu af málflutningi Geirs Haarde þá er ég nú ekki frá því að málstað mótmælenda sé síst verr borgið ef hann fær að tjá sig 🙂

  En allavega. Gleðilegt nýtt ár, takk fyrir öll hugvekjandi skrifin og staðfestuna í aðgerðunum.

  Posted by: Varríus | 1.01.2009 | 12:47:55

  —————————————————————

  sæl nafna ég er kominn með hreint ógeð á þessum mótmælum og löggan ætti bara að nota gas alltaf þanngað til að mótmælin verða eðlileg þetta fólk er orðið ollum til skammar ekki hef ég lengur áhuga að standa með ykkur

  Posted by: eva | 2.01.2009 | 11:50:51

  —————————————————————

  Sæl sjálf nafna.

  Mér þykir vænt um það þegar fólk stendur með okkur en ólíkt stjórnmálaflokkunum þá þurfum við ekki á vinsældum að halda. Ef þú ert ekki hlynntari beinum aðgerðum en þetta höfum við engin not fyrir þig hvort sem er og þú ert þá ekkert fyrir okkur heldur.

  Vegni þér vel í afstöðuleysinu, líka ef þú lendir í því eins og svo margir að missa vinnuna og heimili þitt. Sjálf hef ég valið mér áhugaverðara hlutskipti en að láta hneppa mig og mína í ævilanga skuldafjötra án þess að spyrna á móti.

  Posted by: Eva | 2.01.2009 | 13:39:54

  —————————————————————

  Eva, þessi svokölluðu mótmæli á Hótel Borg voru ekkert annað en skrílslæti og skemmdarverk.

  Ég sá óformlega skoðanakönnun á barnalandi og þar voru 90% þeirra sem svöruðu frekar eða mjög ósátt við framkomu mótmælenda á Hótel Borg.

  Sættu þig við að flestir eru ósammála þér og þínum aðferðum.

  Og að væla yfir að lögreglan noti tárgas „innan dyra“ eftir marg ítrekaðar aðvaranir er bara hlægilegt. Þeir sem henda múrsteinum í fólk, kýla starfsmenn Stöðvar 2 (fyrir utan eiganspjöll) eiga ekkert gott skilið!!!

  Posted by: Pétur | 2.01.2009 | 15:13:50

  —————————————————————

  Veistu það Pétur, ef ég hefði bara horft á samanklippinguna á Stöð 2 með ógeðslegum áróðri Ara Auðvalds eða á fréttir ríkisstjórnarvarpsins, þá væri ég líka hugsanlega „ósáttur við framkomu mótmælenda“.

  Múrsteinskast hefur verið fordæmt, en hefði aldrei gerst án viðbjóðslegs ofbeldis lögreglu. Það var spreyjað beint í andlit liggjandi mótmælenda sem voru að forða sér. Einn mótmælandi sem hafði öskrað sem mest á lögguna að þeir væru að svíkja börnin sín var tekinn hálstaki svo hægt væri að gasa framan í hann. Ertu hissa að einhver hafi reiðst nógu mikið til að henda grjóti?

  Ég legg engan trúnað á það að þessi starfsmaður hafi verið kýldur meðvitað. Mér finnst langlíklegast að hann hafi fengið högg á sig í miðjum ýtingum. Það gerist því miður. Ég fékk helvíti þungt olnbogaskot í bringuna frá vini mínum í troðningnum þegar við vorum að flýja lögguna.

  Posted by: Nonni | 2.01.2009 | 16:30:08

  —————————————————————

  þú ert nú meiri vitleysingurinn, ég er alls ekki sátt við ástandið, en það þýðir ekki að ég geti leift mér að haga mér eins og algjör hálfviti. Ég hef líka séð það í gegnum tíðina að það er alltaf sama fólkið í öllum mótmælum, sama hverju er verið að mótmæla eins og t.d. þú. Er þetta einhver sjúkleg athyglissýki eða þörf til að stunda eignaspjöll og ofbeldi í skjóli mótmæla? Þið eruð ekki að mótmæla fyrir mína hönd, ég tel mig vera hluta af þjóðinni og ég skammast mín fyrir að vera samlandi slíkra vitleysinga.

  Posted by: s.b. | 2.01.2009 | 18:14:27

  —————————————————————

  Það eru alltaf tvær hliðar á hverju máli og síðan sannleikurinn. Þú ert ekki alveg hlutlaus verandi einn af mótmælendunum, en ég held að báðir aðilar megi alveg róa sig.

  Af hverju þarf t.d. að öskra fasistasvín og gefa lögreglunni stanslaust fokkmerki og reyna að æsa þá upp ef þetta eiga að vera róleg mótmæli?

  Ef þið viljið mótmæla þannig að ráðamenn heyra, gerið það þá en ekki vera að reyna að búa til æsing við lögregluna og kvarta svo yfir gasi, meiðslum og lögregluofbeldi.

  Myndböndin tala sínu máli, þau eru þónokkur (ekki bara frá Rúv og Stöð2) og þau eru ykkur ekki til málsbóta.

  Svonalagað eflir ekki ykkar málstað og þið fáið meirihluta fólks á móti ykkur með þessum aðferðum. Reynið að róa ykkur og þá fáið þið margfalt fleira fólk með ykkur.

  Peace!

  Posted by: Pétur | 2.01.2009 | 18:30:29

  —————————————————————

  Gleðilegt ár til þín og þinna drengja Eva mín. Mér finst nú kanski óþarfi að kenna löggunni um ófarir þjóðarinnar, eins og mér finst vera farið að gera,þeir eru bara að vinna sína vinnu.Mér finst alveg sjálfsagt að fólk mótmæli,en það á að gera friðsamlega.En ég er líka mamma löggu druslu sem ég veit að á ekki skilið að fá grjót í hausin fyrir að vinna vinnuna sína. Við erum á sama báti,hvorug hlutlaus, svo ég mæli mað frisamlegum mótmælum,svo hvorki minn eða þinn sonur slasist. Sjáumst næst þegar ég á leið í borgina eða þú austur Kv Bogga

  Posted by: Bogga | 2.01.2009 | 19:18:57

  —————————————————————

  Styð þig, og mótmælendur heilshugar. Ekki síst fyrir það að láta ekki bugast þegar þú færð svona mikinn mótbyr. Ég held að fólk ætti að hætta að rífast og æsa sig yfir mótmælunum, eins og það eitt megi sýna andúð sína á hlutum.

  Posted by: Hrafnhildur | 2.01.2009 | 20:46:22

  —————————————————————

  Sæl Eva

  Ég ætla að láta verða af því að senda þér þakkarlínu fyrir allt það sem þú stendur fyrir. Ég dáist af hugrekki þínu og einurð. Það bíður þín heitt á könnunni næst þegar þú átt leið norður.

  Posted by: Sigurður Atlason | 2.01.2009 | 20:56:19

  —————————————————————

  Gangi þér vel í baráttunni. Vonandi vakna íslendingar til vitundar um ástandið og að það er ekki skömm af því að þora að koma fram og mótmæla ástandinu.

  Posted by: Inga | 2.01.2009 | 21:00:54

  —————————————————————

  Hehe, „ómeðvitað högg í andlit“.
  Það er náttúrulega miklu betra en „meðvitað högg“.

  Ætli lögreglumaðurinn hafi kannski fengið „ómeðvitaðan“ götustein í andlitið ?

  Ekki reyna að gera lítið úr ofbeldi þessa fámenna hóps, ofbeldi er ofbeldi sama hver á í hlut !

  Posted by: Hugz | 2.01.2009 | 23:41:54

  —————————————————————

  Ég hló upphátt þegar ég las tjásu einhvers um könnun á barnalandi. Aldrei hef ég séð þá vefsíðu sem vettvang málefnalegra skoðanaskipta. Smáborgarabloggíska og móðursýki veður þar uppi með orðagjálfri fólks sem talar hátt en segir í raun ekkert.

  Ég ætla rétt að vona að þessi 90% þjóðarinnar sem einhver nafnlaus hræða nefndi eigi ekki að vera samnefnari fólks sem tók þátt í einhverrri könnun á barnalandi!

  Ég vona að fólk sem röflar í sófum sínum heima um læti og skríl vakni nú upp við þá staðreynd að þetta land er á hægri leið til fjandans ef hlutirnir breytast ekki hjá yfirvöldum landsins. Engir bónuspokar fullir af mat, hagkaupslán eða leiga á húsum ykkar frá ríkinu er tók hjallin nýverið, hindrar það.

  Posted by: Gísli Friðrik | 3.01.2009 | 2:54:19

  —————————————————————

  „Af hverju þarf t.d. að öskra fasistasvín og gefa lögreglunni stanslaust fokkmerki og reyna að æsa þá upp ef þetta eiga að vera róleg mótmæli?

  Ef þið viljið mótmæla þannig að ráðamenn heyra, gerið það þá en ekki vera að reyna að búa til æsing við lögregluna og kvarta svo yfir gasi, meiðslum og lögregluofbeldi.“

  Pétur,
  Sem óhlutlaus mótmælandi vil ég benda þér á að enginn var að argast í löggunni fyrr en hún var búin að úða innikróað fólk inni í andyrinu. Ef þú hefur aðra mynd af atburðum, vildirðu vera svo vænn að benda mér á hvar þú sást slíkt?

  Posted by: Nonni | 3.01.2009 | 4:36:30

  —————————————————————

  Pétur. Ég ER sátt við að flestir séu á móti mínum aðferðum. Af hverju gengur fólki svona illa að skilja það?

  Ég er hinsvegar ekki sátt við að fólk kasti grjóti. Ég hef aldrei gert neitt í þá veruna sjálf og veit ekkert slíkt upp á mína vini. En ég get ekki komið í veg fyrir að fólk sem er þannig innstillt mæti í mótmælaaðgerðir.

  Posted by: Eva | 3.01.2009 | 13:15:21

  —————————————————————

  s b. Ég hef aldrei gefið mig út fyrir að mótmæla fyrir hönd annarra enda eru þeir sem taka þátt í pólitískum aðgerðum eða mæta á opna mótmælafundi, ekki til þess ráðnir eða kjörnir. Ég mótmæli fyrir sjálfa mig, því sem mér sýnist á á þann hátt sem mér bara sýnist.

  Ástæðan fyrir því að það eru alltaf sömu andlitin sem sjást á öllum mótmælafundum er sú, að öll helstu hagsmunamál okkar hanga saman. Mannréttindabrot, umhverfisspjöll og öfga kapítalismi haldast í hendur. Þessvegna er t.d. ekki hægt að berjast fyrir mannréttindum nema taka líka afstöðu til umhverfismála.

  Efnahagshrunið má rekja til spilltustu gerðar kapítalisma og valdhroka sem ber á sumum sviðum merki fasisma. Þessvegna er rökrétt að þeir sem hafa mótmælt stóriðjustefnunni, framkomu stjórnvalda við flóttamenn og níðingshætti gagnvart örykjum og öldruðum, hafi sig einnig í frammi núna.

  Posted by: Eva | 3.01.2009 | 13:22:50

  —————————————————————

  Pétur. Hver sagði að þetta ættu að vera róleg mótmæli?

  Þetta með fasistasvínin eru reiðiviðbrögð fólks sem hefur orðið fyrir eða orðið vitni að því hvernig lögreglumenn virðast sviptir mennsku sinni um leið og þeir eru komnir í búninginn. Þeir hafa verið heilaþvegnir til að framkvæma hvaða skipun sem er, hversu ósiðleg sem hún er og til að verja valdhafa hversu viðbjóðslega sem þeir hegða sér. Þetta er ekkert annað en fasismi.

  Ég hef ákveðna samúð með lögreglunni því þetta eru manneskjur og oft í erfiðri stöðu. Eftir því sem ég á meiri samskipti við lögregluna hef ég þó áttað mig betur og betur á því að raunverulegt hlutverk hennar er ekki að vernda hinn almenna borgara heldur að tryggja völd þeirra sem ráða. Þessvegna lít ég á lögregluna sem óvinastofnun, þótt það réttlæti vitanlega ekki líkamsárás á lögreglumann.

  Posted by: Eva | 3.01.2009 | 13:29:20

  —————————————————————

  Bogga. Takk fyrir kveðjuna og mínar bestu óskir um að árið verði þér og þínum sem best. Mitt heimili mun standa syni þínum löggunni, sem mér þykir innilega vænt um, opið hér eftir sem hingað til, sem og öðrum í ykkar fjölskyldu.

  Ég tek undir óskir um að mótmæli fari þannig fram að sem minnst hætta sé á meiðslum en þegar löggustrákurinn okkar stendur í vegi fyrir mér, mun ég ekki hika við að reyna það sem ég get til að troðast fram hjá honum. Honum er bara nær að taka þátt í að verja þetta pakk og ég vildi óska þess að hann bæði frekar um stöðu í umferðarlöggunni, þar sem hann gæti unnið þörf störf og göfug.

  Grjótkast styð ég ekki og hef aldrei gert en ég get ekki komið í veg fyrir það heldur.

  Posted by: Eva | 3.01.2009 | 13:36:21

  —————————————————————

  Hugz. Sonur minn er alsettur marblettum og skrámum. Hann skilgreinir það ekki sem ofbeldi því þessir blettir hafa orðið til við það að einn hópur ætlar sér að fara eitthvert og hinn reynir að standa í vegi fyrir honum. Slíkt er ólíkt líkamsárásum og t.d. ekki sambærilegt við það þegar lögreglumaður reif í hár hans liggjandi og þrykkti andliti hans niður í gólfið í friðsamlegri aðgerð unglinga gegn Alcoa fyrir nokkrum árum.

  Mér þykir leitt að starfsmaður stöðvar 2 hafi fengið högg í andlitið en hins ber að geta að hann var þarna að ganga í störf lögreglu af eigin frumkvæði.

  Posted by: Eva | 3.01.2009 | 13:41:48

  —————————————————————

  Hversu langt ætliði að taka þetta? Hvar dragiði mörkin á milli mótmæla og tilefnislauss ofbeldis og gripdeilda framinna í skjóli fjöldamótmæla? Reyndar átti einungis hið fyrra sér stað þennan tiltekna dag, en ég hlýt að spyrja þessarar spurningar – sérstaklega þegar ég horfi á lögregluna flyssandi eins og smástelpur í einni klippunni. Safnist múgur fyrir utan heimili mitt, get ég búist við því að lögreglan bíði og sjái hver kemur út á tveimur jafnfljótum? Til hvaða ráða má ég, sem borgari í þessu landi, grípa í slíku tilfelli? Hef ég rétt til að verja heimili mitt með öllum tiltækum ráðum? Eða er sá réttur verulegum takmörkunum háður? Svarið við þessari spurningu kann að koma flestum ykkar á óvart.

  Posted by: agamemnon | 4.01.2009 | 2:48:54

  —————————————————————

  Ég get ekki svarað fyrir aðra en ég ætla að ‘taka þetta’ eins langt og þarf til þess að uppræta stjórnkerfi sem er gegnsýrt af spillingu og valdníðslu.

  Ég réttlæti ekki grjótkast og hef aldrei gert (þá er ég að tala um aðstæður eins og hjá okkur, það er bara annað mál þegar menn svara byssukúlum með grjótkasti)en það er af og frá að ég hætti bara að berjast gegn óréttlæti af því að einhver mér óvikomandi er sagður hafa kastað steini.

  Öll lagaleg réttindi fólks eru takmörkunum háð. Þessvegna þarf maður stundum að meta hvort sé æðra réttlætið eða lögin. Lög eru ekki heilög, þau eru eingöngu reglur sem menn hafa sett, í mörgum tilvikum til þess að tryggja völd fámennrar klíku. Slík lög ber að brjóta.

  Posted by: Eva | 4.01.2009 | 11:36:51

  —————————————————————

  Ég spyr: Hversu langt ætla ráðamenn að taka þetta áður en þeir boða til kosninga?

  Já nei, alveg rétt. Þetta er ekki þjóðin hennar Ingibjargar og Geir er ennþá í einhverjum internal dialóg um hvort hann beri ábyrgð. Hvorki fólkið sem kom að mótmæla við Hótel Borg né fólkið sem var á borgarafundinum er þjóðin hennar Ingibjargar. Gleymi þessu alltaf. Ég veit svei mér þá ekki hvaða þjóð Ingibjörg heldur að hún sé að vinna fyrir.

  Það er orðið mjög þreytt að sjá fólk tala um Hótel Borg sem einhvert einkaheimili einhvers þó byggingin sé ekki í ríkiseigu. Væri hótelið í minni eigu hefði ég krafist hárra trygginga frá stöð tvö fyrir að FÁ að halda þennan skrípaleik sem Kryddsíldarþátturinn er á þessum stað á þessum tíma þegar búið var að auglýsa mótmæli með nokkurra daga fyrirvara. Það þarf ekki barnaskólapróf til að sjá fyrir hvað myndi gerast. Stöð tvö er enn í gróðærisgírnum og ætlaði að hala inn athygli á öllu saman.

  Fádæma dómgreindarskortur hjá þeim herrum hjá stöð tvö að láta sér detta þetta í HUG og farsinn í fréttum á eftir til háborinnar skammar.

  Það er nákvæmlega ekkert að því að mótmæla agamemnon. Því fleiri mótmæli, því betra. Þ.e. ef Íslendingar eru ekki of heimskir og fara að berja á hvorum öðrum í stað þess að berja á valdhöfum.

  Er einhver sem vill í alvöru að þessi stjórn sitji út kjörtímabilið??

  Posted by: HD | 4.01.2009 | 12:15:57

  —————————————————————

  Eva og þið hin sem eruð á móti öllu.. Hvert hringið þið þegar er brotið á ykkur?? m.a brotist inn til ykkar, ráðist á ykkur, skemmdur bíllinn ykkar os frv. Þið hringið í lögregluna er það ekki… Það sem lögreglan gerir fyrst og fremst er að hlada uppi lögum og reglu. Þið getið ekki ákveðið hvenær ykkur hentar að fara eftir lögum og hvenær ekki.. farið nú að hegða ykkur einsog fullorðið siðmenntað fólk..

  Posted by: Sigga | 6.01.2009 | 1:10:49

  —————————————————————

  Svo annað vertu ekkert að hringja eftir aðstoð lögreglunnar þegar rúða er brotin í búðinni þinni.Þú trúir ekki á lögin í landinu og því ættir þú þá að notast við það sem við hin höfum trú á. Hvað ætlaru að gera ef það er engin lögregla í landinu? Hvað ætlaru að gera ef menn ráðast inn í búðina þína og ræna og rupla, hvað ef einhver ræðst á þig og veldur þér líkmasstjóni í hvern ætlaru að hringja Eva!! Myndir þú ekki heimta að þessir menn yrðu sóttir til saka ef næðist til þeirra, ég held það. Það er ljóst að það verður e-h að stjórna þessu landi einsog með öll önnur lönd í heiminum.

  Posted by: Sigga | 6.01.2009 | 1:17:44

  —————————————————————

  Tjásur af moggabloggi
  „það voru einungis kveikt í snúrum sem ég myndi giska á að kostuðu vissulega slatta en ekki séns að það hafi verið einhverjar milljónir. Ég man nú eftir þegar ég fór með foreldrum mínum á landsfund Vinstri grænna fyrir mörgum árum, þá var ég bara lítill krakki, þar hélt Sigmundur ræðu og virtist róttækur.“

  http://agustvalves.blog.is/blog/agustvalves/#entry-759147

  Friðrik Þór Guðmundsson, 1.1.2009 kl. 03:01

  —————————————————————

  Fyrst þetta fór svona þá kannski drullist þið til að halda ykkur heima hjá ykkur framvegis.

  „ég verð ekki hissa þótt þetta verði til þess að aðgerðum verði beint sérstaklega gegn lögreglunni næst“.

  Þetta eru þín orð.

  S. Lúther Gestsson, 1.1.2009 kl. 03:04

  —————————————————————

  Ég styð öll mótmæli á meðan þau eru friðsamleg. En ég hef samt samúð með þessu unga fólki sem hefur lent í handtökum. Ég óska þér gleðilegs árs.Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.1.2009 kl. 03:06

  —————————————————————

  Allir sem eru 21 árs og yngri og eru handteknir eiga að njóta meðferðar sem ungmenni og það ber að láta aðstandendur þeirra vita.  Það er brot á lögum að handtaka ungmenni undir 18 ára og láta ekki aðstandendur vita og úthluta viðkomandi ekki réttargæslumanni ef hann er tekinn til yfirheyrslu.

  Ég er viss um að fréttirnar af mótmælunum séu stórlega ýktar.

  Gleðilegt ár!

  Margrét St Hafsteinsdóttir, 1.1.2009 kl. 03:08

  —————————————————————

  Sigmundur Ernir hefur aldrei flutt ræðu á landsfundi VG.Björgvin R. Leifsson, 1.1.2009 kl. 03:10
   
   
  —————————————————————
   
  S. Lúther, það eru engar líkur á að þessi aðgerð dragi mátt úr aðgerðasinnum.

  Þetta er í annað sinn á 6 vikum sem lögregla beitir piparúða innan dyra. Í fyrra skiptið hélt ég að þar hefði bjáni verið við stjórn og að hann hefði nú lært sína lexíu sem og aðrir lögreglumenn. Nú þegar þetta gerist aftur svo stuttu síðar er erfitt að skilja það sem annað en stríðsyfirlýsingu. Ég hef engan áhuga á því sjálf að standa í einhverju stríði við lögregluna og ég hygg að flestir hafi þá afstöðu, enda hefur aðgerðum ekki verið beint gegn henni hingað til. En svo má brýna hvern hníf að bíti, reiðin ólgar í grasrótinni og ég býst við að ef lögreglan endilega vill óeirðir, þá geti hún fengið þær.

  Eva Hauksdóttir, 1.1.2009 kl. 05:20

  —————————————————————

  Ég má til að benda á þessa frásögn af atburðum gamlársdags.Eva Hauksdóttir, 1.1.2009 kl. 05:23
   
   
  —————————————————————

  Eva: Til fróðleiks má benda á að í vinnureglum um notkun mace-úða er sérstaklega tekið fram að alla jafna er gert ráð fyrir að honum sé beitt innandyra. Þegar honum er beitt utandyra beri hins vegar að huga að vindátt.

  Kv. Arngrímur

  Arngrímur (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 08:03

  —————————————————————

  Ég þekki ekki vinnureglur sem gilda um notkun piparúða (sem er ekki sama efni og mace) en sé á annað borð leyfilegt að nota hann innandyra, hlýtur það að vera í þeim tilgangi að verjast árás en ekki til að tvístra hóp sem er til óþæginda. Þarna var enginn, hvað þá tugir manna að ráðast á neinn.

  Ef piparúða er beitt innandyra á hóp fólks, er útilokað að forðast að verða fyrir honum. Þarna er því tilgangurinn greinilega sá að meiða fólk. Ég hef ekki trú á að í lögum sé heimild til þess að valda fólki, sem hugsanlega er ekki einu sinni beinir þátttakendur, miklum og óumflýjanlegum þjáningum. Ef svo er þarf að endurskoða þau lög hið snarasta.

  Eva Hauksdóttir, 1.1.2009 kl. 09:32

  —————————————————————

  Annars bendi ég líka á þessa færslu með ágætu myndbandi sem sýnir vel þetta meinta ‘ofbeldi’ sem varð kveikjan að því að löggan vildi fá að leika sér með spreybrúsana.Eva Hauksdóttir, 1.1.2009 kl. 09:38
   
  —————————————————————

  Hér er líka ágæt frásögn sjónarvottar ásamt myndum.Eva Hauksdóttir, 1.1.2009 kl. 09:45
   
   
  —————————————————————

  Mjög vel skiplögð friðsöm mótmæli í boði aktivista, sem boða einnig mjög friðsöm mótmæli gegn vondum löggum! hægt er að sækja um hérBenedikt Jónsson (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 15:09
   
  —————————————————————

  Ég er ekki sáttur við þínar mótmælaaðgerðir! Þú og þínir hafa verið að eyðileggja eigur ríkisins, sem eru eigur okkar! Leyfist mér þá að mótmæla þér og þínum með því að brjóta rúður í verslun þinni og þar sem mér yrði trúlega heitt í hamsi, við þær mótmælaaðgerðir, þá leyfist mér sá réttur að ráðast inn í búð þína brjóta þar og bramla? Borgið svo skemmdir ykkar og takið afleiðingum gjörða ykkar fyrir dómstólum, eins og þið eruð væntanlega að krefjast með mótmælum ykkar gagnvart þeim er hér komu öllu til fjandans! Eða teljið þið ykkur hafin yfir þau lög og reglur er hér eru?Himmalingur, 1.1.2009 kl. 15:10—————————————————————

  Jepps, ég átti við piparúða (OC-úða). Vandinn er að lögin skilgreina alla þáttakendur í uppþotum sem „beina þáttakendur“, hér er td ákvæði í lögum um meðferð op mála:

  97. gr laga um meðferð opinberra mála:

   3. Ef uppþot verður sem hefur í för með sér líkamsmeiðingar eða stórfelld eignaspjöll eða hættu á slíku, svo og þegar margir menn hafa tekið þátt í óeirðum, sem leitt hafa til manntjóns eða meiri háttar líkamsmeiðinga, og ekki verður með vissu bent á hinn seka eða hina seku, er lögreglunni heimilt að handtaka hvern þann sem nærstaddur er og ástæða er til að gruna um refsiverða þátttöku í brotinu.

  Þar sem þessi handtökuheimild er til staðar, eru valdbeitingarheimildir lögreglu til að ná þessum markmiði einnig virkar.

  Arngrímur (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 15:12

  —————————————————————

  Ég horfði á upptökur af þessum gjörning öllum. Það sem ég sá og heyrði var að lögreglan marg bað mannskapinn um að yfirgefa svæðið einnig sagði hún að þetta væri síðasta viðvörun og piparúða yrði beitt innan skamms.

  Fyrir mér er þetta afskaplega einfalt, ef lögregla biður mig að stöðva, færa mig eða ég meigi ekki vera einhverstaðar þá bara hlýði ég.

  Þið höfðuð þá afsökun um að fara ekki að þið þyrftuð alveg nauðsynlega að trufla sjónvarpsþátt sem var verið að sýna í beinni útsendingu. Það var eina ástæðan sem þið gátuð gefið upp að þið vilduð ekki yfirgefa staðinn, og jú þau rök þóttu einfaldlega ekki nógu góð.

  S. Lúther Gestsson, 1.1.2009 kl. 16:01

  —————————————————————

  Já S. Lúther, þú bara hlýðir. Það geri ég ekki. Ég beiti borgaralegri óhlýðni, þegar aðrar og vægari leiðir duga ekki til að ná fram réttlæti.

  Markmiðið var að trufla formenn flokkanna í froðusnakki sínu og helst að hindra að það færi í loftið. Hvorttveggja tókst. Lögreglan beitti að vísu piparúða og ég varð fyrir honum en ekki svo illa að ég þyrfti að fara upp á slysadeild í þetta sinn. Ég jafnaði mig og svo fór ég bara inn á bannsvæðið aftur. Og ég mun koma aftur, og aftur og aftur, alveg þar til þessi volaða ríkisstjórn hrökklast frá völdum. Sá er munurinn á mér og þér.

  Hinsvegar ganga ekki allir jafn hart fram og ég. Fólk rétt á aðvörun því margir hlýða skipunum lögreglu þótt ég geri það ekki og það er hreinn og klár fantaskapur að beita piparúða á fólk sem er á leið út af svæðinu, vopnlaust með hendur á lofti.

  Eva Hauksdóttir, 1.1.2009 kl. 17:45

  —————————————————————

  Auðvitað eigum rétt á að mótmæla reyna meiða sem flesta með grjótkasti, miða vel á lögreglun helst á andlitið ég styð þetta að fullu Eva .Svo notum við klúta til þess að að fela andlitin eins og hryðjuverkamenn gera rétt áður en þeir taka gísla af lífi.Það er alveg merkilegt hvað þú veist hvað verður um þá sem mótmæla einn bara 17 ára og pabbi og mamma miður sín hvar er barnið mitt var hann sem henti múrsteini eða var það hann sem var með hnífinn til að opna glugga tilbúin að stinga einhvern á hol Getur þú frætt mig hvernig fólkið sem ráðist var á hefur það og er var slasað af skrílnum þínum.Það stendur  það sem ég sagði um daginn með vinnu í frytsihúsinu 12-14 tíma vaktir og þið mæðgin verðið að vinna það þíðir ekki vera með mótmæli þar bara einn lögregluamaður reyndar í næsta bæ og ekki frægð og frami fyrir ykkur Kær kveðja baldurBaldur (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 20:38

  —————————————————————

  Ég hef aldrei stutt það að fólk sé grýtt og hver meðalbjáni sem hefur fylgst eitthvað með netumræðunni um grímurnar hlýtur að vera farinn að ná því hver tilgangurinn með þeim er.

  Getur annars einhver frætt mig meira um þetta múrstein í andlitið mál? Ég hef enn ekki heyrt eða séð neitt frá fólki sem varð vitni að þessu eða neinum sem þekkir manninn. Og enginn handtekinn fyrir árásina, enda engin vitni og engar myndir  þrátt fyrir mikinn fjölda myndavéla á staðnum, eða hvað? Dálítið spes hvað sjónarvottar, vinir og ættingjar virðast áhugalausir um málið. Þetta er ekkert ýkjusaga er það nokkuð?

  Eva Hauksdóttir, 1.1.2009 kl. 21:28

  —————————————————————

  Nei það er ekki ýkjusaga að lögreglumaður hafi verið grítur, hann fékk höfuáverka.

  Það eru heldur ekki ýkjur að  starfsmaður 365 hafi verið sleginn í andlitið, hann fékk áverka í andlit.

  Hvorugur þessa manna eru í ríkisstjórn Íslands.

  Það er bara alls engin fantaskapur að beita piparúða að fólki sem hagar sér eins og það gerði fyrir utan Hótel Borg. Þar sem þér er alveg sama um örlög þessa manna grunar þá reyndar um lygar þá finnst mér miður hvað þú slappst vel við piparúðan.

  Það sá það hver heilvita maður að þarna fór fólk yfir strikið, mjög góðar myndir náðust þar sem fólk var að reyna að riðjast inn bakdyramegin inn í salinn, það eitt og sér er kolólöglegt.

  S. Lúther Gestsson, 2.1.2009 kl. 03:13

  —————————————————————

  Þetta er vandrataður þröngur stígur. En látið ekki hugfallast, sendið skýr skilaboð um að ofbeldið verði ekki liðið og slíkt fólk sé ekki velkomið til mótmæla. Til eru aðrar og betri aðferðir:

  Uppskrift að friðsömum mótmælum

  Stærsti hluti þjóðarinnar sættir sig ekki við ástandið sem skapast hefur í kjölfar bankahrunsins og flestir verða fyrir búsifjum. Fólkið vill sjá valdhafa axla sína ábyrgð sem auðvitað gerist ekki nema með bæði alþingis- og forsetakosningum. Allt annað er og verður froðusnakk sem ekki mettar þjóðina.

  Þaulseta stjórnarherrana eftir að hafa gert í buxurnar er sem olía á ófriðarbál sem á sér varla fordæmi á Íslandi. Stífbónaðar nýársræður slökkva ekki eldana. Þegar þúsundir atvinnuleysingja bætast í þann hóp sem geta ekki séð fjölskyldum sínum farborða, er hætt við að fjölskyldan leysist upp á mörgum bæjum, og hundruð ef ekki þúsundir vonleysingja ráfi götur Reykjavíkur með herta sultaról. Fólk í slíku ástandi getur hæglega orðið auðveld bráð klappstýrum ofbeldismótmæla.

  Íslendingar er seinteknir til mótmæla. Íslendingar hafa jafnan úthrópað jafnvel friðsömustu mótmælendur hérlendis sem þorpsfífl og vitleysinga. Ég fékk þann skammt óþveginn eftir að nota óhefðbundnar aðferðir í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar reynt var að koma mér í 16 ára fangelsi fyrir þær sakir að mótmæla stuðningi Íslands við innrás Bush í Írak.

  En mótmæli byggjast ávallt á óhefðbundnum aðferðum. Þau þurfa að valda einverri truflun til að skila árangri. Hið minnsta sjóntruflun og stinga í stúf við umhverfið. Mótmæli snúast um að ná athygli fjölmiðla nægjanlega oft og lengi til að umfjöllun skapist um málefnið. Fjölmiðlar, sérstaklega ritskoðaðir fjölmiðlar eins og við höfum átt að venjast á Íslandi, hleypa ekki í loftið þeim sem ekki eru eigendum þóknanlegir nema búin sé til frétt dagsins.

  Ég notaði jólasveinabúning til myndrænna mótmæla í Héraðsdómi 19.12.2002 þegar koma átti mér í 16 ára fangelsi fyrir andóf gegn stríðsbröltinu í Írak. Ákæran var tekin fyrir í vikunni fyrir jól, ári eftir að utanríkisráðuneytið stöðvaði með lögregluvaldi á Keflavíkurflugvelli flugvél sem komin var í flugtaksstöðu og átti að færa frá Friði 2000 jólagjafir, lyf og matvæli til stríðshrjáðra barna í Írak. Sakirnar á mig voru fjarstæðukenndur tilbúningur, brot á tjáningarfrelsi og réttarfarsreglum. Tilgangur minn með að mæta í búningi jólasveinsins og setja málsgögn sem ég fékk afhent af dómaranum í jólasveinapoka, var að sýna lítisvirðingu þeim stjórnvöldum og dómara sem létu hafa sig í að misnota dómskerfið. Segja á myndrænan hátt að ég tæki hvorki mark á froðuruglinu þeirra fyrir réttinum né fjarstæðukenndri ákærunni.

  Málið gegn mér í Héraðsdómi var aftur tekið fyrir 15.04.2003. Þetta bar nákvæmlega uppá þann dag sem loftárásir hófust á Írak.  Fjögur þúsund manns, óbreyttir borgarar börn og gamalmenni hlutu blóðugan dauðdaga þennan dag í Írak með flugskeytum sem þau fengu send að himnum ofan með stuðningi Íslendinga. Mér ofbauð svo, að á síðustu stundu áður en ég mætti í réttinn, skipti ég í hvíta skyrtu og ataði hana tómatsósu. Þannig mætti ég fyrir dómarann og ákæruvaldið. Þannig sýndi ég þeim mína lítisvirðingu á stuðningi Íslendinga við morðóðan Bush bandaríkjaforseta. Ég yfirgaf síðan réttinn með því að skella á eftir mér hurðinni og sagðist ekki mæta aftur í þann skrípaleik sem þarna færi fram. Ég stóð við þau orð og mætti aldrei aftur í réttarhaldið.

  Eins og ég hef mátt reyna, í þeim óvenjulega skrípaleik ritskoðaðra fjölmiðla og snobbaðra fréttamanna sem hér hefur viðgengist, getur tekið tíma að fá boðskapinn í gegn. Hann kemst sjaldnast óbrenglaður til skila.

  Hinsvegar finnst engin lausn í mótmælum byggðum á ofbeldi. Það er bál sem erfitt yrði að slökkva og Ísland má alls ekki þróast í þá átt. Við getum horft til Ísrael þar sem nútíma hryðjuverk hófust. Þótt ofbeldisfull mótmæli og hryðjuverk hafi þar komið einhverjum til valda á síðustu öld, fékk sú nýja þjóð um leið ofbeldið í vöggugjöf. Hvar sem ofbeldi hefur verið notað í andófi, hefur það leitt til meira ofbeldis. Sama myndi gerast hér. Ef knúinn yrði fram árangur með ofbeldi, mun það leiða af sér enn meira ofbeldi. Ofbeldisaldan gæti varað tugi eða hundruð ára og eitrað öll samskipti okkar og lífsmynstur. Við viljum ekki slíkt þjóðfélag.

  Hversvegna mæta mótmælendur ekki með skyrið eða tómatsósubrúsana í mótmælin frekar en með hnífa og múrsteina? Mun áhrifameira fyrir myndavélarnar og slasar engan þótt hann fái gusuna yfir sig. Mesta lagi kostar gott bað og fatahreinsun.

  Borgaraleg óhlýðni er önnur útfærsla mótmæla. Það að gera ekki eitthvað sem „kerfið“ ætlast til getur verið áhrifaríkt. Einnig að gera eitthvað sem er „bannað“ en með friðsömum hætti.

  Frægasti mótmælandinn, Gandhi, í saltgöngunnifrægu, truflaði bæði umferð og þjóðlíf og hóf að vinna salt í trássi við lög sem bönnuðu almenningi slíkt. Ekki ólíkt kvótamáli Íslendinga.

  Hér á Íslandi mætti útfæra þetta með þvi að mótmælendur fengju lánaða báta, eða bara tækju ónotaða báta tímabundnu eignarnámi, og færu að fiska án kvóta. Leyfðu síðan lögreglu að handtaka sig við löndum sem hluta af friðsömum mótmælum

  Ástþór Magnússon Wium, 2.1.2009 kl. 04:54

  —————————————————————

  ‘Hversvegna mæta mótmælendur ekki með skyrið eða tómatsósubrúsana í mótmælin frekar en með hnífa og múrsteina?’

  Hér hafa mótmælendur mætt með egg og tómata. Hafi einn kastað grjóti harma ég það en það er af og frá að vopnaburður hafi einkennt mótmælaaðgerðir hér á landi. Einn hníf sá ég á myndbandi í dag, hann var notaður sem verkfæri en ekki vopn.

  Það má alveg búast við óeirðum, grjótkasti og vopnaburði ef enginn axlar ábyrgð á óstjórn undanfarinna ára. Ég kvíði þeim degi og vona innilega að enginn mér kær taki þátt í ofbeldisverkum en að lokum munu fleiri en einn taka upp steina. Það er hægt að koma í veg fyrir það á einn hátt; að ríkisstjórnin hreinsi út úr bönkum og eftirlitsstofnunum og segi svo af sér.

  Eva Hauksdóttir, 2.1.2009 kl. 05:12

  —————————————————————

  Já og allar þær aðferðir sem þú ert að tala um hafa aðgerðasinnar notað og verið úthrópaðir fyrir. Má þar nefna trúða- og jólasveinaaðgerðir, ýmsa listræna gjörninga, fánabrennur, vinnustöðvun, lokun vega. Það vantar ekkert hugmyndir en það er nákvæmlega sama hvaða aðferðir eru notaðar, alltaf skal einhver hópur rísa upp með sama nöldrið; þetta er bara ekki rétta aðferðin.Eva Hauksdóttir, 2.1.2009 kl. 05:15—————————————————————

  Sæl Eva og Gleðilegt ár. Ég veit að fólk hefur verið á margan hátt hugmyndaríkt og það er aðdáunarvert. Grein mín var svona meira höfðuð til þeirra sem halda að hægt sé að mótmæla í „kyrrþey“ svo ég noti nú eitt orðið. Eða að Gandhi hafi mótmælt með því að liggja einhversstaðar afsíðis með tærnar uppí loft. Það var nú aldeilis ekki þannig enda var hann langan tíma í fangelsi fyrir sín mótmæli og friðsamlegu uppreisn.

  Mér finnst þjóðinni upp til hópa vanta skilning á því að mótmæli gerast sig ekki án þess að valda einhverjum óþægindum einhversstaðar Þau trufla amk sjóndeilarhringinn ef þau eiga að bera einhvern árangur. Ég t.d. var alveg sáttur við það að skipta yfir á annað en Stöð2 eftir að mótmælendur stöðvuðu útsendingu kryddsíldar. Að skera sundur útsendingarkapla er varla hægt að flokka undir ofbeldi enda beindist það gegn dauðum hlutum ekki manneskjum. Slíkt hlýtur að flokkast undir eðlilegar aðgerðir mótmælenda í því ástandi sem nú ríkir hér.

  Ástþór Magnússon Wium, 2.1.2009 kl. 14:00

  —————————————————————

  finnst fínt að fylgjast með þessu öllu saman en verð að segja að fylgjandi texti veldur því að nú er ég búin að missa þá litlu virðingu sem ég hafði fyrir þér !

  „Slíkt er forkastanlegt og ég verð ekki hissa þótt þetta verði til þess að aðgerðum verði beint sérstaklega gegn lögreglunni næst“

  þetta eru menn og konur að vinna sína vinnu og ef þetta á að fara að færast upp i svona hugsunar hátt þá er nú bara spurning að fara mæta á þessi mótmæli til að aðstoða lögregluþjónana

  kærleiks kveðja, Þórarinn

  þórarinn (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 14:41

  —————————————————————

  Ég er búinn að vera að lesa mikið af ,,moggabloggum“ og ýmislegt fleira, um þetta grín allt saman og það sem ég get dregið af skrifum margra ,,mótmælasinna“ er þetta:
   
  1. Mótmælendur eru gáfaðasta fólk Íslands.
  2. Mótmælendur eru rosalega ,,reiðir“.
  3. Hver sem er, má ryðjast hvar sem er inn og skemma eitthvað, það fer samt eftir ÁSTANDINU. Ekki getur það flokkast sem ofbeldi þar sem aðeins er verið að skemma dauða hluti, ekki skiptir máli yfir hverja var ruðst til að komast að því. (þetta segir maður sem vill/vildi/reyndi að verða forseti!!!)
  4. Annar hver mómælandi er gömul kona í minkapels, hinn helmingurinn er fullorðið fólk og allir eru að haga sér rosalega vel.
  5. Þeir sem eru ekki að mótmæla líka eru skoðannalausir og þeim er alveg sama þó vaðið sé yfir þá.
  6. Það var mjög líklega Baugur, eða einhver útsendari þeirra sem drap köttinn minn árið 1992.
  7. Ef einhver hleypir manni ekki inn til sín eða inn í einhverja einkaeign sem mig langar að komast inn til að tala við einhvern sem vill ekki tala við mig, þá má ég troða mér inn með ,,líkamanum“ svo lengi sem ég nota ekki hendur. En hann er samt búinn að kynda undir ofbeldi með því að reyna að stöðva mig þannig að ef einhver vinur minn kýlir hann eða hrindir honum er það allt í lagi.

  En það besta sem ég komst að, er svolítið sem ég hef haldið fram í mörg ár:
  8. Það var rétt af mér að brjóta vasann hennar mömmu, þegar ég fékk ekki rafstýrða bílinn sem mig langaði í þegar ég var sjö ára.

  Samúel Karl (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 16:13

  —————————————————————

  Kannski ekki en ef mamma þín hefur selt þig í barnaþrælkun þá finnst mér það nú ekki mikil hefnd að brjóta vasa fyrir henni.

  Undarlegt nokk þá er eins og fáir átti sig á því að efnahagsstefna síðustu ára + valdníðsla og spilling, hefur komið okkur í þá stöðu að við sjálf og börnin okkar þurfum að borga himinháar skuldir nokkurra drullusokka. Þetta er ávísun á ævilangan þrældóm, við munum aldrei ná að borga upp lánin okkar, jafnvel þótt við seljum allt sem við eigum. Ég bið þá sem ætlast til að við mótmælum því af kurteisi að hafa mig afsakaða meðan ég æli.

  Eva Hauksdóttir, 2.1.2009 kl. 17:10

  —————————————————————

  Finnst þetta síðasta ekki gáfulegt.
   
   
   
  Nú höfum við ekki enn snert við láninu frá IMF. Það er geymt á vöxtum og ef allt fer á besta veg þurfum við ekki að nota nema hluta þess.
  Lánalínur frá Norðulöndum og fleirum þurfum við kannski ekki að nota. Við borgum ekkert fyrir þær línur á meðan við notum þær ekki.
  Vissulega höfum við verið neydd til að samþykkja lán vegna IceSave en líkur áð að við fáum þau á hagstæðum kjörum og útistandandi eignir komi á móti megninu af þeim.
  Annar kostnaður eins og endurfjármögnun bankana er jú einmitt það sem allar þjóðir eru að gera núna. Þær þurfa líka margar að taka lán fyrir því. Vissulega urðu bankarnir of stórir fyrir okkur þar sem við erum ein hér út á hjara veraldar. Hefðum betur verið komin í ESB og með almennilegan gjaldmiðil en karlinn í „Svörtuloftum“ og flokkurinn hans sem og Vg hafa barist á móti því.

  Þannig að ég skil ekki þetta tal um skuldsetningu barna og barnabarna. Við skulduðum jú þó nokkuð á seinnihluta síðustu aldar en vorum bara nokkur ár að gera ríkissjóð nær skuldlausan.

  Vissulega meiri skuldir núna en líkur á að bankarnir verði í nánustu framtíð verðmæt vara sem skilar hagnaði sem kemur upp í þessar skuldir eða þeir verða seldir á góðum verðum upp í skuldirnar.

  Finnst óþarfi að mála Skrattann á vegginn þó maður sé norn.

  Ef allt fer á versta veg þá tökum við á því þá.

  Magnús Helgi Björgvinsson, 2.1.2009 kl. 17:24

  —————————————————————

  Áttar fólk sig virkilega ekki á því að þjóð sem skuldar tólffalda þjóðarframleiðslu sína er gjaldþrota?

  Eva Hauksdóttir, 3.1.2009 kl. 12:42

Lokað er á athugasemdir.