Saga strokuþræls – 3. hluti

Aðbúnaður og refsingar
Líf þrælsins snýst um erfiðisvinnu, allan daginn, alla daga en það er þó langt frá því að harðræðið sem þeir búa við felist einungis í vinnuþrælkun, þeir búa einnig við vanæringu, skort á heilsugæslu og líkamlegt og andlegt ofbeldi.

Eigandi Mouhameds bjó í höfuðborginni, Nouakchott. Hann kom til þeirra vikulega, leit eftir hjörðum sínum, agaði þrælana og færði þeim drykkjarvatn og vistir. Fæðan var slæm og af skornum skammti, aðallega hrísgrjón, sykur og dálítið kaffi. Auk þess höfðu þau nóga mjólk til heimilsins því eigandinn notaði ekki mjólkina heldur hélt nautgripi aðeins vegna kjötsins og stöku sinnum fengu þau egg frá nágrannafjölskyldu sem hélt hænsn. Stundum gisti húsbóndinn í eyðimörkinni yfir nótt ásamt fjölskyldu sinni ef þau voru á leið milli landshluta og þá grilluðu þau kjöt yfir eldi og lokkandi lyktin lá lengi yfir staðnum. Mouhamed minnist þess í nokkur skipti að leifar af kjötinu voru skildar eftir handa þrælunum og stöku sinnum veiddu karlarnir lítil pokadýr til matar en annars tilheyrðu kjöt, fiskur og grænmeti aðeins stórhátíðum.  Drykkjarvatn var einnig naumt skammtað en brunnvatnið er ekki hæft til manneldis.

Þessi tjöld eru sömu gerðar og heimili Mouhameds

Húsbændur þrælanna eru misjafnlega strangir. Sumir þrælar voru svo „heppnir“ að hafa húsbændur sem lömdu þá ekki nema fyrir yfirsjónir og fóðruðu þá þokkalega. Eigandi Mouhameds var einn hinna hörðu. Hann talaði varla nokkruntíma til foreldra hans nema með svívirðingum og ef hann var óánægður með eitthvað, og það var hann oft, var þeim refsað. Þau gátu alltaf átt von á barsmíðum þegar hann birtist en hann barði þau ekki sjálfur, hann lét vinnumenn sína sjá um það.

Þegar Mouhamed komst á unglingsaldur nefndi hann möguleikann á flótta en faðir hans vildi ekkert heyra á það minnst. Ungum væri það best að sætta sig við hlutskipti sitt og forðast draumóra enda töluverðar líkur á að strokuþrælar náist. Já og ef þeir nást ekki þá sér Guð sjálfur um að refsa þeim eða svo var sagt. Og svo var það Alí. Enginn vildi syni sínum þau örlög sem hann hafði hlotið.

Í Máritaníu er sjaldgæft að þrælar strjúki úr vistinni, jafnvel þótt þeir búi við harðræði. Ástæðurnar eru margar. Drykkjarvatn er skammtað og það er erfitt að ferðast langa leið yfir eyðimörk. Þrælar fá engin laun og þeir sem á annað borð komast til næstu borgar geta ekki keypt sér fæði. Það er mjög erfitt fyrir strokuþræl að fá vinnu, þeir lifa allt öðruvísi lífi en frjálsir, svartir menn, þeir hafa ekki sömu þekkingu og geta því sjaldan villt á sér heimildir og þrælahaldarar standa saman um að „skila“ strokuþrælum til eigenda sinna. Harðar refsingar liggja við stroki og auk þess er hægt að reikna með að fjölskyldu strokuþrælsins verði refsað.

Í Máritaníu sem og öðrum löndum Vestur-Afríku tíðkast hugvitssamlegar refsingar við glæpum á borð við þjófnað og stork. T.d. þykir góð uppeldisaðferð að hengja þrælinn upp úti í steikjandi sólinni og neita honum um vatn þannig að hann þornar upp. Einnig þykir árangursríkt að binda hann við kvið þyrsts úlfalda og brynna svo dýrinu. Þegar kviðurinn á því þenst út tognar á þrælnum og ef vel tekst til slitna liðir í sundur. Í samfélagi Mouhameds er venjulega refsingin við stroki gelding. Ali var ca. 15 árum eldri en Mouhamed og hafði hlaupist burt sem unglingur.  Og náðst. Hann var lagður á bekk og kynfærin á honum barin með prikum þar til eistun voru orðin ónothæf.  Hann átti ekki fjölskyldu og ef hann er enn á lífi, á hann ekki fjölskyldu og mun aldrei eignast fjölskyldu.

Mouhamed hætti að hugsa um flótta. Ekki bara af því að faðir hans tók því illa, það er heldur ekkert auðveld ákvörðun að yfirgefa fjölskyldu sína því strokuþræll á ekki afturkvæmt og fjölskylda hans hefur ekki aðgang að síma eða interneti. Aðeins ungmenni reyna strok og langoftast piltar. Það er útilokað að flýja með börn í eftirdragi og stúlkur komast ekkert nema með mikilli hjálp því þær eiga enga möguleika á vinnu. Stöku sinnum strýkur unglingsdrengur og það eina sem fjölskylda hans getur þá vonað er að hún sjái hann aldrei framar. Enginn vill syni sínum það hlutskipti að verða eins og Alí. Ekki heldur að vera hýddur til óbóta eða þurrkaður upp.

Sjaldgæft er að þrælar í Máritaníu nái háum aldri. Þeir látast fyrir aldur fram af slæmu atlæti, vinnuþrælkun og harðræði sem drepur niður mótstöðuafl þeirra gegn sjúkdómum, þykir bara nokkuð gott ef þræll nær fimmtugu. Þegar Mouhamed var 16 eða 17 ára veiktist faðir hans. Og dó. Mouhamed telur að hann hafi verið í mesta lagi 45 ára. Það er ekkert óvenjulegt að eyðimerkurþrælar deyi ungir og þótt kjör þrælanna séu misjöfn bjó þó engin fjölskylda í samfélagi Mouhameds við þann lúxus að njóta heilsugæslu. Ef úlfaldi veiktist var dýralæknirinn sóttur en ef þræll veiktist tók því ekki að spandera á hann þjónustu. Fótbrot voru bara spelkuð heima með trjágrein og reipi, þær jurtir sem uxu á staðnum notaðar til lækninga –þegar lækningajurtir var á annað borð að finna og ef þræll dó af sýkingu í sári eða auðlæknanlegum sjúkdómi, nú þá varð bara að hafa það. Mouhamed er með skakkan fingur. Skýringin er sú að hann skar sig eitt sinn og fékk sýkingu í sárið. Það var ekki meðhöndlað og hann bólgnaði allur upp og fékk háan hita. Sólarhringum saman gat hann ekki sofið vegna kvala en það var ekkert hægt að gera í því. Hann náði sér en sem betur fer er þetta eina slysið sem hann hefur orðið fyrir. Margir deyja af skeinum sem hefði auðveldlega mátt meðhöndla með sýklalyfjum.

Mouhamed getur ekki útskýrt af hverju faðir hans dó. Hann var bara veikur, hann veit ekki hvort það var kvef, krabbamein eða eitthvað annað, hann bara veslaðist upp. Andlát föðurins var engu að síður áfall og ekki bara vegna sorgarinnar, heldur jókst vinnuálagið á Mouhamed og systur hans. Móðir þeirra var orðin illfær til vinnu og um þremur árum síðar lést hún líka.

Það var ekki fyrr en eftir dauða hennar sem hann fór að íhuga möguleikann á stroki í fullri alvöru.  Myndin sýnir dæmigerðan grafreit í Sahara.

 

Share to Facebook