Saga strokuþræls 2. hluti

Menntun Mouhameds
Þrælar fá enga frídaga og þar sem endalausar kröfur eru gerðar til þeirra, þurfa allir að leggja sig fram. Börn fá því afskaplega lítinn tíma til leikja. Leikir felast helst í því að elta smádýr, syngja kvæði og segja sögur. Í samfélagi Mouhameds nýttust kvöldin ekki til félagslífs af neinu tagi því oftar en ekki var fólkið útkeyrt af þreytu og hafði ekki orku til annars en að nærast áður en það gekk til náða.

Stórt hlutfall Máritaníuþræla er ólæs en faðir Mouhameds kenndi honum Kóraninn. Hann ritaði með kolum á trétöflu, eitt vers í senn og þuldi það aftur og aftur þar til drengurinn kunni textann. Þá var næsta vers tekið fyrir og að lokum var Mouhamed bæði læs og kunni Kóraninn utan að.

[Uppfært: Löngu síðar varð mér ljóst að Mouhamed lærði í raun aldrei að lesa í venjulegum skilningi enda kunni hann ekki arabisku. Hann lærði súrur Kóransins utanað og ber kennsl á þær þegar hann sér þær ritaðar. Hann gæti hinsvegar ekki lesið aðra texta á arabisku.]

Hann áttaði sig einnig á því með tímanum að ef bóndi á 14 ær og 3 lömb til viðbótar fæðast þá eru 17 dýr sem tilheyra hjörðinni og að ef einn úlfaldi úr 25 dýra hjörð deyr, þá eru 24 eftir en þessi lestrarkennsla föður hans er eina formlega menntunin sem hann hafði  hlotið þegar hann kom til Íslands.

Þrælahald í Máritaníu er fyrst og fremst erfðabundið. Formlega tilheyra þrælar fjölskyldum húsbændanna og bera þeirra ættarnöfn, börn þræla verða eign húsbændanna og sonur erfir þræla föður síns, rétt eins og annan búpening. Það er ekki algengt að þrælar séu seldir og sérlega óvenjulegt að bændur skipti á þrælum sín á milli nema þegar þrælar eru giftir, þá verður stúlkan eign húsbónda eiginmannsins. Það kemur þó fyrir að unglingur er seldur til að refsa fjölskyldunni svo hættan á að fjölskyldan verði leyst upp vofir alltaf yfir. Mouhamed hefur aldrei kynnst ættingjum sínum. Móðir hans talaði oft um foreldra sína og systur en hún var flutt frá þeim þegar hún giftist og hún hafði ekkert vald til að heimsækja þau. Hann veit nánast ekkert um föðurfjölskyldu sína.

Mouhamed varð smámsaman ljóst að til var tvennskonar fólk, frjálsir menn og þrælar en hann gerir sér ekki grein fyrir því á hvaða aldri hann var þegar hann fór að velta því fyrir sér hvort það væri í raun óumbreytanlegt lögmál. Hann heyrði unglinga tala um að flýja, leita betra lífs, forfeðrum þeirra hefði verið rænt frá nágrannalöndnum og það gæti varla talist sanngjarnt, en svoleiðis tal var óábyrgt og áreiðanlega ekki Drottni hersveitanna að skapi. Þegar hann var lítill reyndi stundum að fá föður sinn til að segja sér sögur af hinum frjálsu forfeðrum þeirra en faðir hans taldi að hann hefði ekki gott af því að næra óraunhæfa drauma. Það er nánast útilokað fyrir þræla sem eiga fjölskyldur að strjúka og ráðlegast að kæfa allar slíkar hugmyndir í fæðingu.

Share to Facebook

6 thoughts on “Saga strokuþræls 2. hluti

  1. Díses kræst! Hverjum er ekki sama um einhverja andskotans múhammedaraba???
    Þú ert greinilega eitthvað athyglissjúk.

  2. Nú reikna ég fastlega með að þetta eigi að vera kaldhæðni hjá þér en því miður er til fólk sem hugsar nákvæmlega svona þótt fáir séu nógu vitlausir til að segja það. Það er fólk sem í innistæðulausri sjálfumgleði sinni álítur að það sé fætt til frelsis og velmegunar vegna [ímyndaðra] verðleika sinna en ekki af tilviljun.

Lokað er á athugasemdir.