Mannréttindi fyrir vonda fólkið

man-eavsdropping-688x451

Í Fréttablaðinu í gær kemur fram að tveir fyrrum starfsmenn sérstaks saksóknara hafi staðfest að eitt þeirra verkefna sem þeir unnu fyrir embættið hafi falist í því að upplýsa slitastjórn Glitnis um trúnaðarsamtöl sakborninga í New York málinu og lögmanna þeirra. Þetta er brot á þagnarskyldu og sé það rétt að sérstakur hafi krafið menn sína um þessar upplýsingar er það háalvarlegt mál.

Svör embættisins við spurningum blaðamanns eru svo dæmigerð; sérstakur kannast ekkert við þetta og segist ekki geta tjáð sig um mál sem séu fyrir dómstólum og ríkissaksóknari segir sérstakan hafa brugðist við „með viðeigandi hætti“ án þess að skýra nánar hvað það felur í sér.

Eitthvað svipað virðist hafa gerst í Imon málinu. Hreiðar Már Sigurðsson lagði auk þess fram kæru á hendur sérstökum saksóknara og fyrrverandi héraðsdómara um fölsun á hlerunarúrskurði en kærunni var vísað frá á grundvelli fyrningar.

hleranir

Fyrri fréttir af þessum málum hafa ekki vakið sterk viðbrögð. Svo er að sjá sem yfirvaldið hafi farið langt út fyrir sínar valdheimildir, misnotað aðstöðu sína til þess að hlera trúnaðarsamtöl í von um að geta notað þau gegn sakborningum en vinstri elítan þegir þunnu hljóði, píratar segja ekkert, ofvirkir í athugasemdum eru skyndilega jafn áhugalausir um afbrot yfirvaldsins gagnvart hægri skúrkum og þeir eru almennt áhugasamir um samskonar brot gagnvart þeim sem aldrei hafa kryddað gölt með gullflögum og spókað sig á lystisnekkjum í karabíska hafinu.  Það er út af fyrir sig dálítið klikkað að brot ríkisvaldsins og stofnana þess gagnvart borgurunum geti fyrnst en áhugaleysi almennings um meint trúnaðarbrot sérstaks saksóknara eru ekki síður áhyggjuefni.

Mér finnst líklegt að ástæðan fyrir áhugaleysinu sé sú að bófarnir í umræddum málum njóta ekki sérstakrar samúðar. Þeir tilheyra ekki minnimáttarhópi heldur auðvaldselítunni, og sérstakur er okkar maður; gaurinn sem á að ná fram réttlæti. Auðvaldið á skilið að fá á baukinn og okkur svíður ekki í réttlætiskenndina þótt aðferðirnar fari dálítið út fyrir rammann.

En málið er að ef yfirvaldið kemst upp með valdníðslu gagnvart ljótu köllunum, þá getum við ekki vænst þess að það virði leikreglur þegar  góða fólkið á í hlut. Mannréttindi voru ekki fundin upp fyrir hina réttlátu, heldur fyrir hina sem ofbjóða samfélagi sínu, ekki aðeins yfirvaldinu heldur einnig almenningi.

Mannréttindi voru ekki bara fundin upp fyrir saklausa sem ofsóttir eru fyrir réttlætissakir heldur einnig fyrir hina bersyndugu. Mannréttindi eru skilyrðislaus réttur hvers manns gagnvart yfirvöldum og það felur meðal annars í sér réttinn til sanngjarnrar málsmeðferðar og friðhelgi einkalífsins. Þau réttindi voru fundin upp fyrir fólk eins og Nelson Mandela, Saddam Hussein og Andreas Breivik. Fyrir Tony Omos og Jón Ásgeir Jóhannesson. Fyrir homma, fíkla og votta Jehóva, vítisengla, anarkista, nýnazista, barnaníðinga og útrásarvíkinga.

Já, ég veit að það er sárt að kyngja því en útrásarvíkingar eiga að njóta sömu réttinda gagnvart yfirvöldum og við hin. Og ef við sjáum ekki til þess, skulum við ekki láta það koma okkur á óvart þegar einhver úr okkar hópi fær sömu meðhöndlun.