Orð Kristínar Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, umflóttatúrisma (5. mín) vöktu að vonum almenna hneykslun. Slæmt er ef fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur tekið orð hennar úr samhengi. Kristín þyrfti að útskýra hvernig það var gert og hvað hún sagði eiginlega „í samhengi“ því hún virðist vera ein um að átta sig á því.
Einhverjir telja þó að Kristín sé bara að ræða staðreyndir um flóttamenn og benda á að stofnunin sé of fjársvelt og undirmönnuð til að sinna hlutverki sínu. Þetta sé ekkert öðruvísi en þegar talsmenn Vinnumálastofnunar eða Tryggingastofnunar bendi á að bótakerfið sé misnotað.
En er ekki í lagi að benda á að kerfið sé misnotað?
Hlutverk Útlendingastofnunar, Vinnumálastofnunar og Tryggingastofnunar, er að þjóna skjólstæðingum sínum en ekki að kasta rýrð á þá. Það er fullkomlega óviðeigandi að þessir aðilar leggi áherslu á misnotkun skjólstæðinga sinna á kerfinu, nema fyrir liggi að það sé umfangsmikið vandamál sem hafi afdrifarík áhrif á starfsemi stofnunarinnar. Ef fólk í slíkum stöðum getur ekki sinnt starfi sínu vegna fjárskorts eða manneklu, væri eðlilegast að það segði af sér, á þeirri forsendu að ríkið útvegi því ekki eðlileg vinnuskilyrði, í stað þess að varpa ábyrgðinni yfir á þá skjólstæðinga sem spila ekki eftir réttum leikreglum.
Auk þess eru orð Kristínar alvarlegri en almenn umræða um misnotkun á kerfinu. Það verður að teljast stór ákvörðun að yfirgefa fjölskyldu sína og leggjast í margra ára heimsreisu að ástæðulausu. Ósennilegra er að fólk geri það í stórum stíl en að það misnoti bótakerfið í heimalandi sínu. Þetta er sambærilegt við það að forstjóri Tryggingastofnunar segði opinberlega að það væri svolítið aðlaðandi fyrir þá sem ekki nenna að sjá um sig sjálfir að gerast „atvinnuöryrkjar“ og leggjast inn á hjúkrunarheimili þar sem þeir fái heitan mat og aðstoð við að baða sig, auk þess að komast í bingó á laugardögum.
Hvernig talar innanríkisráðherra um flóttamenn?
Forstjóri Útlendingastofnunar getur ekki leyft sér að tala eins og hún gerði nema benda á gögn sem sýna fram á að ekki sé aðeins um fágætar undantekningar að ræða. Ég er ekki ein um þá skoðun því aldrei þessu vant er innanríkisráðherra sammála mér og hyggst nú taka Kristínu Völundardóttur á teppið. Það er reyndar hlálegt þar sem Ögmundur er ekki hótinu skárri sjálfur. Hann hefur bæðiskrifað og látið hafa eftir sér í fjölmiðlum að meðal flóttafólks séu „glæpamenn á flótta undan réttvísinni“. Það efast enginn um en Ögmundur veit mæta vel að glæpamenn, í þeim skilningi sem flest okkar leggja í orðið, eru aðeins lítill hluti flóttamanna. Það að innanríkisráðherra skuli tala á þennan hátt er svipað og ef forstjóri Vinnumálastofnunar segði það stóran vanda að á atvinnuleysisskrá sé margur glæpamaðurinn. Ögmundur ætti því að biðjast afsökunar á sínum eigin orðum um leið og hann skammar Kristínu.
Má þá ekki segja sannleikann?
Auðvitað má ræða misnotkun á kerfinu. Spurningin er hinsvegar hver á að gera það, á hvaða vettvangi og í hvaða samhengi. Reiði almennings í garð forstjóra Útlendingastofnunar stafar ekki af því að fólk sem misnotar kerfið sé tabú, heldur af því að undantekningar eru notaðar sem réttlæting fyrir seinagangi og vondum vinnubrögðum. Þau vandamál eru á ábyrgð stofnunarinnar en stafa ekki af því að mikill fjöldi ævintýramanna sé í heimsreisu á kostnað skattgreiðenda. Það er einnig smekkleysa að setja þá sem flýja örbirgð í sama flokk og svikahrappa. Þótt fæði og lyf hafi enn ekki verið skilgreind sem mannréttindi er það ekki vegna þess að þær þarfir séu léttvægar, að mati stofnana Sameinuðu þjóðanna, heldur vegna þess að ekki þykir raunhæft að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau tryggi afkomu allra þegar stríð og náttúruhamfarir leiða til hungursneyðar.
Leysið raunveruleg vandamál í stað þess að eltast við undantekningar
Ég hef horft upp á Útlendingastofnun eyða svívirðilega löngum tíma í mál manna sem augljóslega eru flóttamenn og hefði átt að afgreiða í hvelli. Þrjá þeirra nefndi ég í þessum pistli en dæmin eru miklu fleiri. Ég þekki persónulega fólk sem bíður ennþá eftir afgreiðslu mánuð eftir mánuð en fær engin svör. Hvað á það t.d. að þýða að láta Mouhamed Lo ennþá bíða eftir meðferð? Útlendingastofnun hefur aldrei dregið sögu hans í efa svo af hverju fær maðurinn ekki hæli?
Mér finnst sorglegt að sjá Útlendingastofnun bera fyrir sig fjárskort og tala eins og helsta viðfangsefni hennar sé að afhjúpa svikahrappa á sama tíma og við horfum upp á brottvísanir sem geta ekki flokkast sem neitt annað en mannréttindabrot. Það hlýtur að vera hagkvæmara að afgreiða umsóknir og búa flóttamönnum aðstæður til að sjá fyrir sér sjálfir en að verja mörgum árum í það að reyna að finna afsökun til að losna við þá.
Hugtakið flóttatúrismi
Þessi mynd (sem ég fann hér) er frá flóttamannafangabúðum í Grikklandi. Þetta fólk bíður þess að vera sent „heim“ aftur. Það er vegna þessara aðstæðna sem mannréttindadómstóll Evrópu skikkaði innanríkisráðuneytið til að hætta að endursenda fólk til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglunnar. Misnotkunin á því ákvæði hefur m.a. leitt til þess að vandanum er velt yfir á Grikkland og Ítalíu.
Fjölgun hælisleitenda á Íslandi skýrist e.t.v. að einhverju leyti af því að Útlendingastofnun getur ekki lengur sent fólk til Grikklands en auk þess hefur hælisumsóknum fjölgað í flestum ef ekki öllum vestrænum ríkjum. Það er ömurlegt af forstöðumanni Útlendingastofnunar að tala eins og þeir sem hafa sótt um hæli í fleiri en einu landi líti sérstaklega til möguleikans á að misnota íslenska veferðarkerfið. Þótt flóttamönnum hafi fjölgað er mun lægra hlutfall hælisleitenda á Íslandi (miðað við Íbúatölu) en gerist í mörgum öðrum Evrópulöndum. Auk þess höfðu fáir þeirra sem nú bíða afgreiðslu Útlendingastofnunar hugsað um Ísland sem valkost. Flestir þeirra voru á leið til Kanada eða Bandaríkjanna en voru stöðvaðir þegar þeir millilentu í Keflavík.
Það sem forstjóri Útlendingastofnunar kallar „asylum shopping“ á ekkert skylt við það þegar Íslendingur sest niður með ferðabæklinga til að velja sér dvalarstað í sumarleyfinu, heldur er um að ræða fólk sem leitar að betri aðstæðum og skilvirkara kerfi. Þessi mynd (tekin héðan) sýnir t.d. aðstæður sem sumir flóttamenn búa við á Ítalíu.
Telja verður líklegt að það sem Kristín kallar „asylum tourism“, í þessari yfirlýsingu, eigi fyrst og fremst við um fólk sem flýr ofsóknir og örbirgð en ekki ævintýramenn á einhverskonar skemmtireisu. Ólíklegt er að þessi tegund „ferðamennsku“ sé jafn útbreitt vandamál og forstöðumaður Útlendingastofnunar telur, því samkvæmt leitarvél google.com hefur orðið „asylum tourism“ aðallega verið notað um skoðunarferðir á geðveikrahæli sem hafa verið lögð niður. Flóttatúristar eru undantekningar. Flótti vegna styrjalda ofsókna og örbirgðar er hinsvegar mjög raunverulegt vandamál og það þarf enga „fræðimennsku“ til að komast að því.
Útlendingastofnun ætti að einbeita sér að því að leysa vandamál hælisleitenda fremur en að eyða tíma sínum í að vekja athygli á fólki sem gerir tilkall til stöðu flóttamanna á fölskum forsendum. Útlendingastofnun sem og Innanríkisráðuneytinu er óhætt að láta aðra um að útbreiða fordóma gegn flóttamönnum, því hvað rasista varðar búa Íslendingar ekki við neina manneklu.
Einnig birt hér http://blog.pressan.is/evahauks/2013/01/20/2255/