Leyfið börnunum að koma til mín

jesusÉg er flokksbundin í VG og mér finnst algerlega nauðsynlegt að leikskólabörnum séu kynnt sjónarmið míns flokks. Þar sem fóstrurnar á leikskólunum hafa ekki staðið sig í stykkinu, hef ég nú ákveðið að fara sjálf inn á leikskólana og kenna börnunum réttar skoðanir.

Ég hef kynnt nokkrum foreldrum þessa fyrirætlun en því miður virðast fáir hafa skilning á mikilvægi þess að börn fái tækifæri til að lifa sínu eigin sjálfstæða pólitíska lífi. Þetta skilningslausa fólk vill hindra börn sín í því að kynnast þeim mannúðarsjónarmiðum sem stefna VG stendur fyrir.

Fólk hefur auðvitað rétt á því að hafa sínar skoðanir en ég skil samt ekki almennilega hversvegna fólk er svona mótfallið því að ég sinni þeirri köllun minni að kenna börnunum muninn á réttri póltík og rangri. Fólk á nefnilega alltaf kost á því að láta taka börnin sín, sem ekki mega læra góðar skoðanir, úr hópnum og hafa þau í einangrun á meðan ég spila Ísland úr Nató og Ó,hó það segir Mogginn, á gítar fyrir hina krakkana.

———————–

Þessi pistill birtist fyrst á Annál 21. október 2003. Ég er reyndar ekki lengur flokksbundin í VG en að öðru leyti á hann jafn vel við í dag.

Share to Facebook