Hið yfirnáttúrulega er órökrétt

Þessi færsla tilheyrir pistlaröð.

Trúað fólk hefur stundum sakað mig um skort á hugmyndaauðgi vegna þess að ég tel að heimurinn sé fullkomlega náttúrulegur. En sú skoðun að trúleysi stafi af skorti á ímyndunarafli er byggð á misskilningi.

Ekki skortur á ímyndunarafli
Ég get vel ímyndað mér heim þar sem álfar ráða ríkjum, þar sem grasið er blátt, fólk gengur á höndum og vængjuð svín fljúga um háloftin. Hins vegar hníga engin rök að tilvist vængjaðra svína og því sé ég enga ástæðu til að gera ráð fyrir þeim. Þau eru bara ímyndun. Ég sé heldur ekki ástæðu til að gera ráð fyrir Guði, sú hugmynd skýrir nefnilega ekkert og engin rök eru fyrir tilvist hans.

Nú geri ég ráð fyrir að hinn trúaði vitni til “andlegrar reynslu” sem eigi ekkert skylt við ævintýralegan uppspuna á borð við vængjuð svín og álfa en ég lít þetta allt sömu augum. Ég hef þannig oft orðið fyrir reynslu sem langamma mín hefði talið örugga sönnun um afskipti álfa. Samt trúi ég ekki á álfa nema sem uppdiktaðar ævintýraverur. Stundum upplifi ég eitthvað sem ég hef ekki fundið skýringu á, t.d. er mjög skrýtið þegar smáhlutir “hverfa” og finnast aftur á stöðum sem ég veit að ég var margbúin að leita á. Mér finnst hinsvegar miklu líklegra að til sé fullkomlega náttúruleg skýring sem ég þekki ekki, heldur en að álfar eða aðrar andaverur gangi um og færi hlutina mína úr stað.

Tilvist þess yfirnáttúrulega stenst ekki rök og útskýrir ekkert

indexÉg lít á Guð sem samskonar ævintýraveru og álfa. Engar sannanir um álfa og aðrar andaverur eru til og það sama gildir um guðdóminn. Ef Guð er til eru álfar til líka því sömu rökum er teflt fram til sönnunar fyrir tilvist þeirra.

Ég lít á “kraftaverk” sem jafn sennilega eða ótrúlega tilviljun og slys. Ef guðleg forsjón á í hlut þegar óvænt tilviljun kemur okkur til góða, hvernig er þá aðkoma þessarar guðlegu veru að óheppilegum uppákomum og hörmunugum? Við getum ekki pikkað út bara það sem okkur hentar, við verðum að skoða heildarmyndina til að sé eitthvert vit í þessu.

Ég lít á „andlega reynslu“ svosem skyggnigáfu, spádómsgáfu og drauma sem merkileg fyrirbæri sem enn hefur ekki fundist vísindaleg skýring á. Það þýðir þó ekki að Guð eða aðrar andaverur eigi hlut að máli enda skýrir sú “skýring” ekkert. Slík reynsla er svo tilviljanakennd að það er aldrei hægt að treysta henni. Við gætum allt eins spurt tening ráða og látið hann stjórna gjörðum okkar. Við gætum allt eins haldið því fram að þegar við biðjum teninginn að sýna okkur töluna 6, svari hann þeirri bæn, a.m.k. þegar hann er í skapi til þess.

Share to Facebook