Heimsókn til Friðriks

Árum saman hafa útsendarar Landsvirkjunar lagt landeigendur í nágrenni Þjórsár í einelti. Þeir hafa bankað upp á heima hjá þeim, í sumum tilvikum vikulega og herjað á þá að selja jarðir sem eru ekki til sölu. Þeir hafa farið í leyfisleysi inn á landareignir þeirra til að mæla þær út og setja niður hæla, enda þótt engir samningar eða vilyrði fyrir samningum liggi fyrir.

Þeir leggjast af mestum þunga á þá sem þeir vitað að eru í fjárhagsvandræðum, standa í skilnaði eða eru á annan hátt veikir fyrir. Þeir taka fólk á taugum, nota ‘ábendingar’ sem jaðra við ógnanir og blekkja það vísvitandi. T.d. hafa þeir sagt fólki að ef það vilji ekki selja muni það bara sæta eignanámi, enda þótt það sé engan veginn á hreinu.

Þetta eru fínir menn. Friðrik Zophusson, kemur beint úr slíkum eineltisferðum í fjölmiðla og lýsir því yfir að verið sé að reyna að ná samningum enda þótt hann sé nýbúinn að fá þvert nei.

Það þykir víst ekki eins viðeigandi þegar fólk frá Saving Iceland bankar upp á hjá Friðrik og tilkynnir honum að hann verði að flytja, því nú standi til að virkja garðslönguna hans og búa til uppistöðulón á lóðinni, til þess að við Íslendingar getum gegnt hnattrænni skyldu okkar til að framleiða sem mest rafmagn til að gefa erlendum álfyrirtækjum. Þá verður Friðrik hræddur og kallar á lögguna.

Og löggan kemur og tekur bófana.

Sennilega er persónan Jón Jónsson sama manneskja og Jón bóndi en persónan Friðrik Zophusson einhver allt annar maður en Friðrik Zophusson, forstjóri Landsvirkjunar.

 

Share to Facebook