Hættur, farinn

Á meðan fólkið sem bauð sig fram til þingsetu undir merkjum umhverfisvænnar vinstri hreyfingar keppist við að koma meiri völdum á færri hendur, sitja kjósendur aðgerðalausir og bíða eftir að ‘eitthvað’ gerist. Þeir fáu sem nenna og þora að láta ‘eitthvað’ gerast, vita nú af reynslunni að þeir eru of fáir til að ná árangri. Ekki einu sinni kannabisræktendur ná almennilegum árangri og eru þeir þó öllu fleiri en aðgerðasinnar á Íslandi.

Eitthvað gerðist reynar í janúar. Eitthvað sem hefði getað breytt íslenskum stjórnmálum. Eitthvað sem hefði getað dregið úr spillingu, leynimakki og valdníðslu. Ekkert breyttist þó, vegna þess að flestum var engin alvara með pottaglamrinu. Flestir voru bara í fýlu yfir tilhugsuninni um að jólavísareikningurinn félli í gjalddaga. Þeir vildu ekki breyta pólitíkinni, þeir vildu bara halda sukkinu áfram. Nú þegar þeir hafa fengið loforð um að þeir geti haldið áfram að sukka og látið börnin sín um að taka afleiðingunum af efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokksins, er allur vindur úr þeim. Börnin borga, förum út í sólina með hvítvínsflösku og slöppum af.

Eitthvað gerðist já. Þjóðin krafðist kosninga og ekki mikils þar fram yfir. Nokkrar hræður fóru fram á lýðræði í þeirri merkingu að lýðurinn fengi að ráða einhverju og gegnsæi varð tískuorð. Um tíma var hugmyndin um stjórnlagaþing vinsæl. En þjóðin, eða stærstur hluti hennar, gyrti sjálfviljugur niður um sig um leið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn viðraði dindilinn, og bað ekki um meira en kosningar. Og þjóðin fékk nákvæmlega það sem hún bað um.

Ég er að verða dálítið leið á skítakommentum um að ég hafi flúið land. Landflótta fólk flýr neyðarástand; stríð, ofbeldi, örbirgð. Ég flúði ekki land, ég bara fór. Ég vil ekki sætta mig við frekari svik og lygar af hálfu valdhafa, hvort sem það eru stórfyrirtæki, bankarnir eða ríkið. Ég myndi ekki búa með einhverjum sem kæmi illa fram við mig, ég myndi ekki vinna hjá einhverjum sem kæmi illa fram við mig og hví ætti ég þá að vilja tilheyra ríki sem kemur illa fram við mig? Ég er líka grautfúl út í þá undarlegu skepnu Almenning. Ef ég ætti maka sem væri alveg til í að leyfa einhverjum skíthælum að taka veð í framtíðartekjum barnanna, bara ef hann sjálfur þyrfti sem minnst að borga, þá færi ég frá þeim maka. Og ég myndi ekki líta á það sem flótta því maður flýr nefnilega ógn en ekki aumingja.

Ég fór. Ég hef setið í sólinni og sötrað hvítvín í sumar, rétt eins og kjósendurnir sem bíða en íslenska ríkið fær þó allavega ekki krónu í vask af þeim hvítvínsflöskum sem ég drekk. Það skiptir íslenska efnahagsundrið auðvitað engu máli þótt það missi af nokkrum krónum frá mér, ekki fremur en það skiptir Bónus neinu máli þótt Pólverjagrey segi upp, það er víst nóg af öðrum launaþrælum sem hægt er að níðast á. En það skiptir mig máli. Það skiptir mig máli að geta sagt sjálfri mér að ég sé ekki lengur með í svona asnalegu leikriti.

 

Share to Facebook

One thought on “Hættur, farinn

 1. ——————————-

  Virkilega gaman að heyra frá góðum nágranna, norn og góðri manneskju. það eru fleiri á leið frá þessu gjörspillta landi. Skattapeningar mínir fara ekki í þessa hýt bankamanna.

  Posted by: Erna Margét á horninu heima | 20.07.2009 | 20:42:52

  ——————————-

  Ég vona svo innilega að þú hafir það gott og þér gangi allt í haginn,við aularnir sem eftir erum hérlendis tökum vel á móti þér og þinum þegar við verðum búnnir að borga pakkann og koma öllu í lag svo þú getir sötrað gott og billegt hvítvín við kertaljós og ættjarðasöngva

  Posted by: Laugi | 20.07.2009 | 20:58:48

  ——————————-

  Er ekki rétt munað að þú hafir flutt til Stavanger? Er búinn að vera í sólinni hér eins og þú væntanlega.

  Posted by: Mr. Stavanger | 20.07.2009 | 21:03:16

  ——————————-

  Þetta er einhver magnaðasta og besta bloggfærsla um árabil (og þótt víðar væri leitað), að mínum dómi.

  Posted by: Hlynur Þór Magnússon | 20.07.2009 | 21:12:04

  ——————————-

  Nei, ég er í Danmörku. Ég ætlaði reyndar að skoða Stavanger af því að ég var spennt fyrir ákveðnu starfi þar en ég á fjölskyldu og vini hér og það skiptir mig meira máli.

  Posted by: Eva | 20.07.2009 | 21:14:40

  ——————————-

  Laugi, efnahagsástandið er reyndar ekki ástæðan fyrir því að ég fór (lastu ekki færsluna eða hvað?) en ef þú átt leið um Suður Jótland kíktu þá endilega í heimsókn. Hér er nefnilega hægt að drekka hvítvín við kertaljós utan dyra og ættjarðarsöngvar hljóma ekkert verr hér en í Þórsmörkinni.

  Posted by: Eva | 20.07.2009 | 21:24:12

  ——————————-

  Það er samt mikil eftirsjón af þér og búðinni þinni.

  Kveðja

  Posted by: Inga | 20.07.2009 | 21:41:11

  ——————————-

  Takk fyrir flotta færslu, ætla að fá að nota búta úr henni í kveðjuávarpinu mínu, því ég er einmitt komin með nokkur skítakomment svona fyrirfram. Á sameiginlegt með þér að vera ekki að „flýja“ – bara að fara.

  Posted by: Þórdís B | 20.07.2009 | 22:20:20

  ——————————-

  Takk fyrir pistilinn Eva, það er missir af þér. Það eru ornir svo fáir eftir hérna á skerinu með normal siðferðis og réttlætiskennd

  Kveðja frá Kjánalandinu í norðri

  Posted by: Jón G Snæland | 20.07.2009 | 22:38:45

  ——————————-

  Ekki beint hægt að segja að ég hafi náð að kynnast þér vel….. engu að síður sakna ég þín

  Posted by: Heiða | 20.07.2009 | 22:56:03

  ——————————-

  Vel orðað.

  Ég er líka kominn til Noregs. Hef fengið skrítin komment líka en þau fara yfirleitt inn um annað og út um hitt.

  Mig grunar að fólk sem skrifaði mikið um ástandið og var hneykslað ekki bara á spillingunni heldur aðgerðarleysinu og doðanum, sé einfaldlega farið frá Íslandi. Þess vegna eru mótmæli dæmd til að vera fámennari en áður.

  Kannski…

  Posted by: Hrannar Baldursson | 20.07.2009 | 23:11:39

  ——————————-

  Þakka þér góð skrif, ég skil ekki alveg hvað almenningur hér á landi er að hugsa, nánast allir sem ég þekki hafa lent í einhverjum vandræðum sem eru ekki þeim að kenna vegna þessaarar dellu sem hér er búin að vera í gangi og er í gangi.

  En enginn virðist vilja gera neitt i málinu, óttinn við yfivaldið er væntanlega sterkari en óttinn við að missa heimilið eða skuldsetja börnin.

  Sumir gefast upp og enda líf sitt, aðrir segja hingað og ekki lengra ég tek ekki þátt í þessu rugli og koma sér einfaldlega í burtu, sjálfur hef ég íhugað flutning þvi við það ofbeldi sem við erum beitt hér er vart hægt við að búa mikið lengur.

  Það er erfitt fyrir marga að breyta svona til og sjáfum hefur mér dottið í hug að ef þeir sem vilja flytja kæmu sér upp einhverskonar félagi eða samtökum sem væri öllum þeim sem vildu fara til aðstoðar og stuðnings í að koma sér að í öðrum löndum þá myndu margir láta slag standa.

  Posted by: Steinar Sörensson | 20.07.2009 | 23:47:19

  ——————————-

  Lífið í Danmörk er ljúft ég þekki það og vínið hóflega drukkið yljar manni vel,Danir hress og skemmtilegt fólk með húmor fyrir sjálfum sér,persónulega held ég mest upp á þá gömlu meistar söngsins þar svo sem John Mogensen,Bamses venner,Kim og fl.
  En ekkert jafnast á við kvöldsólarlag í Mörkinni með smá prestakaffi í krúsinni og glamra á slaghörpuna ættjarðarlög og Brekkusöngva,annars var ég bara að óska þér góðs og bjóða þig velkomna aftur þegar þú kýst,hver veit nema við hittumst í Atlavík og ruglum um lífið og lagasmíðar ásamt fl svona eina helgi.
  Kv Laugi

  Posted by: Laugi | 21.07.2009 | 0:24:06

  ——————————-

  Ég skil þig vel og gerði þetta sama eftir 1984. Mun bráðum missa einkadóttur mína úr landi með barnabörnin og finnst það djöfull skítt. Barnabörnin hafa þurft að sjá á eftir pabba sínum til Noregs í vinnu.
  Það sem gerðist í janúar var að við stóðum saman í hörðum aðgerðum og vorum mörg. En við Íslendingar höfum lítið úthald í samstöðum. Það hefur aldrei náðst að byggjast upp neytenda-samstaða. Einstaklingur ofar öllu. SjálfstæðisFLokkurinn náði að heilaþvo þessa þjóð svo rækilega og vísvitandi með menntamála-stefnu og fjölmiðlavaldi. Verkalýðshreyfingunni stungu þeir í vasann. Vinstri menn hjálpuðu þeim í þessu öllu og því fór sem fór og við eigum ekki séns.
  Ljósið í myrkrinu er netið og bloggarar eins og þú sem þora að tala blákalt og ekki í gegnum flokks-augu.

  Posted by: Margrét | 21.07.2009 | 4:41:21

  ——————————-

  takk fyrir god afærslu. Eg for lika af somu astædum. Er hætt ad vera medvirk og vil ekki lata nidast a mer.

  Posted by: Sylvia | 21.07.2009 | 6:33:17

  ——————————-

  af hverju þarf ég að skrifa mammon ? og hver valdi það ?
  og hei norn…… augað sem að sér allt sér mig , líttu án þess að horfa og hafðu samband

  Posted by: seth | 21.07.2009 | 8:20:46

  ——————————-

  O jamm og jæa, það var nú það,það er gott að heyra að þú kannt vel við þig þar ytra og kannt vel við starf þitt. Ég hélt að þú værir mannréttinda manneskja og laus við fordóma. Þetta kjellingatal virðist mér benda til annars. Mér finnst pistlarnir þínir vera litaðir af kvenfyrirlitningu og skil það svo allt of vel sjálf,enda valdi ég mér upphaflega starf sem ekki var eins og þú myndir sennilega kalla það, kjellingastarf. Það færði mér þó ekki þá lífsfullnægju sem skyldi. Þá hóf ég aftur nám og síðar störf og lærði þá, að laun og tekjur skipta ekki öllu máli. Ég hef mjög ákveðið álit á áfengisdrykkju og af eigin raun veit ég, að í miklum mæli er áfengið stórhættulegt. Farðu varlega mín kæra, það er áfengissýki í báðum ættunum þínum. Íslendingar hafa verið framarlega í meðferð áfengissjúklinga og ég hef aldrei heyrt að það sé sannað mál, að danir séu hófdrykkjumenn. Drykkjuskapur er ekkert til að hæla sér af, hver sem í hlut á. Hvað skatti af áengisdrykkju þinni eða annara líður, held ég að landið Ísland komist vel af án þinnar hjálpar, því að hér er nóg af slíku. Ég veit því miður ákaflega lítið um efnahagsbandalagið, en veit þó að ekki hefur þurft hjálp frá þeim til að þurrka upp fiskimiðin, eða eyðileggja náttúruauðlindir landsins, né annara glæpa sem framdir hafa verið í nafni frelsis og réttlætis. Það hefur ekki þurft hjálp þessa bandalags við að eyðileggja íslenskan landbúnað og svo mætti lengi telja. Það virðist ergja þig ákaflega, að danir líti öðrum augum á vinnutíma en landinn. Nú vill svo til að ég hef haft fólk í vinnu og greitt því laun. Ég er þeirrar skoðunar að þreyttir einstaklingar skili ekki jafn góðri vinnu og þeir sem vinna hóflegan vinnudag. Ég hef reynsluna sjálf, líkaminn er ekki vél sem má keyra áfram endalaust, og jafnvel vélar þurfa viðhald og umönnun. Þegar maður er ungur og frískur er allt auðveldara. Með árunum slitnar líkaminn og mikil vinna hjálpar þar vissulega til. Það hefur lengi tíðkast hér á landi að vinna og vinna til að redda málunum. Hér í gamla daga var jafnan viðkvæðið: þetta reddast,ég fæ mér bara aukavinnu. Danir hafa að því sem ég best veit annan hátt á, þar sem ég þekki til er álitið að fólk þurfi og eigi rétt á frítíma, ég hef heyrt að 6 tíma vinnudagur sé talin ásættanlegur. Góður maður á Íslandi hefur sagt að sólahringnum ætti að skipta í þrisvar sinnum átta. Átta tímar í vinnu, átta í hvíld og svefn og átta í áhugamál og fjölskyldu. Góðir hlutir gerast hægt, það lærði ég of seint dóttir góð. Annars minna þeir annars oft, þínir ágætu pistlar þínir mig á það sem í mína ungu daga kallað KERLINGARNÖLDUR. Ef allt er ekki eins og ég vil,er ég bara farin. Vá hvað þú líkist mér mikið að þessu leyti. Annars vona ég að þú hafir það gott þarna,og varla þarftu að gera þér að góðu til lengdar illa launaða vinnu, þú hefur menntun,kjark,vilja og það er stundum allt sem þarf. Þessvegna vona ég innilega að þú eigir eftir að blómstra þarna ytra, án þessa að þurfa að vinna frá þér ráð og rænu. Eftir höfðinu dansa limirnir,og hóf er best í öllu. Innilegar kveðjur héðan frá landinu kalda. Mamma.

  Posted by: Dana Kristín | 21.07.2009 | 16:48:44

  ——————————->

  Það heitir reyndar Evrópusambandið og þú getur fundið allt um það á netinu. Þú slærð inn google.is í vefslóðargluggann og svo ESB í leitargluggann.

  Posted by: Eva | 21.07.2009 | 17:38:23

  ——————————-

  Seth, ‘mammon’ er ‘spamvörn’. Maður velur orð sem þarf að slá inn til að forðast auglýsingapóst og annað slíkt sem er sent í gegnum tölvu.

  Ég valdi orðið mammon. Ástæðan er sú að ég lít á fjárhagslegt sjálfstæði sem eina af undirstöðum hamingjunnar. Mér finnst slæmt að velmegun sé lögð að jöfnu við taumlaus efnishyggju og rányrkju í fjarlægum heimshlutum og vil leiðrétta þann misskilning að Mammon sé holdgervingur gróðafíknar. Mammon er arameiska og merkir einfaldlega velmegun. Ef allir temdu sér hófsemi og virðingu í stað þess að taka meira en þeir þurfa og henda því svo, gætu allir lifað við velmegun.

  Posted by: Eva | 21.07.2009 | 17:52:23

  ——————————-

  Ég er í öfugri en samt svipaðri aðstöðu;

  var farinn að hugsa um að flytja heim til Íslands eftir langa útiveru, etv. á þessu ári.

  Varð sár og reiður í kjölfar hrunsins. Bæði vegna aðgerðarleysis (sem stendur enn yfir), og líka vegna þeirrar spillingar sem aldrei myndi líðast í þeim löndum sem ég hef búið og starfað.

  Það er hálfgerður léttir að sjá og lesa um ykkur sem hafa leitað annað; ég er ekki viss um að allir á Íslandi skilji um hvað málin snúast fyrr en viðkomandi hefur sjálfur er í standi til þess að sjá hlutina utanfrá.

  Mig grunar að ég sé á svipuðu reki og sumir sem skrifa hér að ofan. Ég reikna með að verða — vonandi — gamall á Norðurlöndunum.

  Posted by: O | 21.07.2009 | 19:31:21

  ——————————-

  Dáldið sérstakt að þú og margir af þeim sem þótti sjálfsagt að taka lögin í ykkar hendur með ofbeldi og óeirðum kringum áramótiln til þess eins að koma þessar hörmungarstjórn að, eruð flogin til útlanda. Teljið fyrir neðan ykkar virðingu að dvelja hér á útúrspilltu Skerinu. Sérstakt, því það voruð einmitt þið sem urðuð þess valdandi að lýðræðið fékk ekki að ráða, kosningar voru haldnar á mettíma og nýrri stjórn ýtt að kötlunum. Nýrri stjórn sem nú ætlar að selja okkur á Bónusprís til ESB. Eða var það kannski alltaf hugmyndin ? Var það öll byltingin ?
  Hvar eruð þið núna til þess að mótmæla landsölu til ESB ?

  Posted by: Hugz | 24.07.2009 | 0:57:31

  ——————————-

  Dálítið sérstakt hvað lesskilningur þinn virðist vera slakur.

  Í fyrsta lagi þá er ekkert lýðræði á Íslandi, ekki einu sinni flokksræði, heldur er Ísland gjörspillt fyrirtækjaveldi.

  Í öðru lagi var yfirlýst markmið Radda fólksins að koma spillingaröflunum frá völdum en ekki að koma á einhverri ákveðinni stjórn. Anarkistar vildu hinsvegar bylta kerfinu sjálfu og stóðu síður en svo fyrir því að viðhalda stjórn Samfylkingarinnar. Ég hef sjálf tuggið upp hvað eftir annað, bæði í viðtölum og skrifum mínum að það sé engin lausn að skipta um rassa í ráðherrastólunum.

  Í þriðja lagi er það undarlegt af manni sem að því er virðist trúir á viðteknar hugmyndir um lýðræði að halda því fram að kosningar stríði á móti því. Það var þó viðleitni til lýðræðis að halda þessar kosningar en auðvitað sorglegt að fólk skuli ekki sjá hið raunverulega vandamál.

  Í fjórða lagi kemur það fram í færslunni að ég og fleiri sem lögðu á sig vinnu myrkranna á milli til að rísa gegn gengdarlausri valdníðslu, þurftu að horfast í augu við að þú og þínir líkar munu aldrei leggja hönd á plóginn. Þú og þínir líkar munu ekki berjast gegn erlendum yfirráðum fremur en innlendum valdaklíkum. Þið munuð halda áfram að tuða um að mótmælendur noti ekki réttu aðferðirnar eða mótmæli ekki rétta fólkinu og grenja svo yfir því að við gerum ekki nóg þegar við slökum á.

  Já veistu, það er langt fyrir neðan mína virðingu að leggja krafta mína í það að vinna fyrir þessháttar labbakúta svo ef þú vilt byltingu, druslastu þá til að gera eitthvað sjálfur.

  Posted by: Eva | 25.07.2009 | 4:02:12

  ——————————-

  Maður veit ekki hvað maður átti fyrr en misst hefur. Ég sakna þín Eva og vildi að ég hefði heimsótt þig oftar í Nornabúðina góðu.

  Posted by: Gísli Friðrik | 25.07.2009 | 14:18:23

  ——————————-

  Ég er ekki dáin, bara flutt. Þú kemur bara í heimsókn 🙂

  Posted by: Eva | 26.07.2009 | 14:31:18

  ——————————-

  Vona að íslenskan sé ekki farin að tapast í nýlenduveldinu, en ég nefndi nú aldrei að kosningar væru ekki lýðræði. Hins vegar er vel þekkt í ríkjum þar sem sýndarlýðræði ríkir að halda kosningar með þeim hætti að örugglega enginn annar en ráðandi öfl nái að bjóða fram í kosningum. Það var akkúrat það sem ég og væntanlega líka „mínir líkar“ vöruðum við en þurftum að horfa upp á þegar þú (og væntanlega „þínir líkar“) þvinguðuð fram kosningar í vor. Af því það var svo mikið stuð. Það sem tók við eftir þessar kosningar var hörmung og að öllu leiti miklu verra en það sem hefði getað orðið.
  Nú eru gamlir kommar búnir að greiða fyrir aðild að ESB og fá í staðinn frímiða inn í báknið. Var það það sem þú (og þínir líkar) „unnuð myrkranna á milli“ til að koma á ?
  En þegar þú og Sturla lúðrablásari og ykkar líkar komið aftur hér á hið ólýðræðislega sker þá verðum við, sem sagt ég og mínir líkar, búnir að borga upp lýðræðisskuldirnar og þið Stulli getið lifað happy ever after.

  Posted by: Hugz | 27.07.2009 | 23:02:41

  ——————————-

  Hugz. Ég veit ekki hvernig í fjáranum þér hefur tekist að koma þér upp þeirri fáránlegu þráhyggju að ég hafi áhuga á inngöngu Íslands í ESB eða að ég hafi haft einhvern áhuga á því að hafa Samfylkinguna í ríkisstjórn eða einhverja ríkisstjórn undir þessu kerfi yfir höfuð. Ef þú ætlar að hanga á þeirri þvælu eins og hundur á roði þá þú um það en mín umfjöllun um þessi mál gefur ekki tilefni til þeirrar túlkunar.

  Það er heldur engin hætta á því að ég, Sturla eða einhver annar lifi happy ever after á Íslandi eftir að hin göfuga undirlægja flokkakerfisins er búin að borga brúsann og koma á nýju efnahagsundri. Það er einfaldlega útilokað að Íslendingum takist að greiða allar þessar skuldir svo þótt þú hreiðrir um þig í fórnarlambshlutverkinu núna munu fáir launa þér hollustuna því hún mun engan árangur bera.

  Fyrst þú vilt verja restinni af lífi þínu í að hreinsa upp eftir útrásina, eftir að hafa óhjákvæmilega mulið undir hana, þá verði þér að góðu. Það er þitt val og ég hef ekki vott af samviskubiti.

  Posted by: Eva | 1.08.2009 | 13:01:33

Lokað er á athugasemdir.