Í gærmorgun fór ég í bankann til að stofna sparireikning. Gjaldkerinn spurði hvort ég væri í viðskiptum við bankann og tók fram að nýir viðskiptavinir þyrftu að fara til þjónustufulltrúa fyrst og svara spurningalista.
Hingað til hef ég ekki þurft að gefa aðrar upplýsingar en nafn og kennitölu til að stofna bankareikning. Orðið “persónunjósnir” poppaði upp í hugann og forvitni mín var vakin. Ég fór til þjónustufulltrúa enda þótt ég væri þegar í viðskiptum við bankann og bað um eintak af þessum spurningalista “vegna laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.”
Fyrir utan þessar almennu persónuupplýsingar sem maður þarf venjulega að gefa er þess krafist að maður framvísi löggiltum skilríkjum. Gott mál og sjálfsagt að mínu mati, greinilega bara öryggisatriði svo enginn geti misnotað nafnið mitt, ég varp öndinni léttar.
Næst er spurt um þjóðerni og andartak runnu á mig tvær grímur. En svo sá ég ljósið. Jújú, það er vissulega grunsamlegt ef einhver Alí Baba þarf að geyma peninga á Íslandi, betra að fylgjast vel með slíkum kónum og þeirra krónum, sem að öllum líkum eru ætlaðar til hryðjuverkastarfsemi. Því nauðsynlegra er að hafa hjúskaparstöðu hans á hreinu og kennitölur barnanna hans. Nafn atvinnurekanda, upplýsingar um það hversu háar fjárhæðir megi reikna með að verði lagaðar inn, hvaðan fyrsta innlegg komi… allt varðar þetta þjóðaröryggi.
Mér finnst alveg frábært að bankarnir skuli hafa tekið upp þetta skothelda öryggiskerfi. Hugsið ykkur t.d. ef Ali Baba ætlaði að stofna reikning til að fjármagna hryðjuverk. Hann gæfi að sjálfsögðu Al Qaeda upp sem vinnuveitanda og tæki fram á eyðublaðinu að reikningurinn væri ætlaður til peningaþvættis og hryðjuverkastarfsemi. Nú geta misyndismenn ekki lengur misnotað bankakerfið. Jibbý!