Fáránleg lög um trúfélög

Í framhaldi af þessum pistli:

Ég held því miður að Jón Daníelsson hafi rétt fyrir sér um Læknavísindakirkjuna. En fyrst ég er á annað borð að skoða lög um trúfélög má ég til að koma því að að mér finnst margt sérkennilegt í þessum lagabálki. Við getum byrjað á að skoða 1. milligrein 1 greinar.

Rétt eiga menn á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Eigi má þó fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði og allsherjarreglu.

Halló? Hvert er þetta „góða siðferði“ sem eigi má brjóta gegn og hver dæmir um það? Varla þarf að taka fram að trúfélög megi ekki frekar en aðrir brjóta lög svo varla er átt við það. Merkir þetta kannski að trúfélag megi ekki standa fyrir drykkjuveislum og kynsvalli?

Annað sem stingur mig er  2. milligrein 7. greinar.

Áður en forstöðumaður trúfélags [eða lífsskoðunarfélags]1) tekur til starfa skal hann senda [ráðuneytinu]2) skriflega yfirlýsingu um að hann muni vinna af samviskusemi þau störf sem honum eru í því starfi falin samkvæmt lögum.

Hvað í ósköpunum gefur tilefni til þess að setja lög um það að ein, tiltekin stétt manna þurfi að gefa ráðherra sérstaka yfirlýsingu um að viðkomandi hyggist fara að lögum? Maður myndi kannski skilja þetta ef hefð væri fyrir því að síbrotamenn gegndu formennsku í trúfélögum.

Áttunda greinin kveður á um að fólk skuli einungis tilheyra einu trúfélagi/lífsskoðunarfélagi. Ég tek undir þá skoðun sem fram kom í  einhverri grein nýlega (ég man ekki hvar eða eftir hvern hún er en þigg ábendingar) að það sé gerræði af hálfu yfirvaldsins að banna fólki að tilheyra fleiri en einu trúfélagi í senn.  Þetta á sérstaklega við um börn sem eiga foreldra sem tilheyra hvort sínu trúfélagi.

Þá er athugavert að í lögunum er gerður greinarmunur á þjóðkirkjunni og „skráðu trúfélagi“ enda þótt ekki verði betur séð en að þjóðkirkjan sé einmitt skráð trúfélag.

Það allra fáránlegasta við þessi lög er þó 4. milligrein 4. greinar:

  [Áður en leyfi er veitt til skráningar trúfélags eða lífsskoðunarfélags skal leita álits nefndar sem ráðherra skipar. Einn nefndarmaður er skipaður samkvæmt tilnefningu lagadeildar hér á landi á háskólastigi, og skal hann vera formaður nefndarinnar, annar tilnefndur af félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, sá þriðji tilnefndur af guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands og sá fjórði tilnefndur af sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Falli atkvæði nefndarmanna jafnt skal atkvæði formanns nefndarinnar hafa tvöfalt vægi.]1)

Það er kannski skiljanlegt að lögfræðiálit þyki æskilegt en hvað kemur þetta tilteknum deildum tiltekins háskóla við? Af hverju ætti sagnfræðideild HÍ að hafa eitthvað um það að segja hvort satanistar, farísear eða einhverjir aðrir  fá að stofna trúfélag? Og hvernig dettur mönnum í hug að það sé góð hugmynd, réttlát eða siðleg að fulltrúi guðfræðideildar, sem er ekkert annað en prestaskóli þjóðkirkjunnar, fái að hafa bein áhrif á það hvort samkeppnisaðila þjóðkirkjunnar er hleypt inn á markaðinn? Í alvöru talað, finnst ykkur þetta í lagi?

—-

Uppfært:

Í fyrri gerð pistilsins nefndi ég Vantrú ranglega lífsskoðunarfélag. Tók þá vitleysu út eftir ábendingar og biðst velvirðingar á mistökunum.

Share to Facebook