Jafnvel dómstóll Moggabloggsins virðist hafa skilning á aðgerðinni í nótt.Mál Keníamannsins er auðvitað með ólíkindum. Ég er ekki hissa á því að hafi þurft að pilla honum úr landi með korters fyrirvara, annars hefði almenningur sagt obbobobbobobb. Ef fréttirnar hefðu borist aðeins hálfum sólarhring fyrr hefði gefist tími til að mótmæla þessu og ekki vildu nú íslensk yfirvöld láta trufla sig í því að fullnægja því réttlæti sem tíðkast í landi frumkvæðis, frelsis og hvað það nú var, hreinnar náttúru kannski?
Ég veit að fullt af fólki brást við strax eftir sjónvarpsfréttir í gær og sendi Ingibjörgu Sólrúnu tölvupóst en hverjar eru líkurnar á því að hún hafi lesið þann póst fyrr en vélin var farin í loftið í morgun?
Í mínum kunningjahópi kom fram ein hugmynd um aðgerð sem hugsanlegt væri að næði eyrum ráðamanna ÁÐUR en Paul Ramses kveddi íslenska grund. Hún var sú að hlaupa út á flugbrautina og reyna að tefja vélina í því að fara í loftið. Þetta var eina hugmyndin sem ég hef ennþá séð sem átti nokkurn möguleika á að vekja athygli í tæka tíð. Ég er innilega stolt af þeim sem þó reyndu.
————
Það þarf að halda áfram að mótmæla þessu þótt hann sé farinn. Er ekki einhver að plana einhver fjöldamótmæli?
Posted by: Anonymous | 3.07.2008 | 15:22:50