Á persónulegum nótum

Vont fólk er ekki endilega raðmorðingjar. Vont fólk er bara fólk sem er að mörgu leyti geðugustu manneskjur en skortir hæfileika til samlíðunar og hefur ekki sérstakan áhuga á því að setja sig í spor annarra.

Þeir sem gefa lagabókstafnum meira vægi en mannúðarsjónarmiðum eru þannig vondar manneskjur.

Og þegar vondar manneskjur hafa vald til að stjórna, þá sitjum við uppi með vond stjórnvöld.Íslendingar hafa kosið yfir sig nokkra mjög vonda einstaklinga. Einn þeirra heitir Björn Bjarnason. Hann er ekki einu sinni almennilegur illvirki sem vekur manni raunverulegan viðbjóð, heldur bara lítilmótlegur og sjálfhverfur og þ.a.l. vondur maður sem tekur margar afskaplega heimskulegar ákvarðanir.

Björn Bjarnason er ekkert alslæmur. Hann gæti eflaust orðið ágætur rukkari eða bókari og sjálfsagt færir hann konunni sinni blóm á konudaginn. En hann er vondur maður í þeim skilningi að hann skortir samúð, mannúð og aðra þá eiginleika sem gera fólk hæft til að fara með vald og þessvegna á hann ekkert að vera í stöðu Dómsmálaráðherra, enda margir sem vilja hann burtu úr þeirri stöðu.Ég hvet alla sem það geta til að mæta við Dómsmálaráðuneytið kl 12-13 á morgun og segja Birni skoðun sína á þeirri botnlausu eigingirni íslenskra stjórnvalda að vísa frá sér hverjum einasta flóttamanni sem mögulegt er. Þeir sem geta það ekki en vilja tilheyra þjóð sem getur með nokkurri sannfæringu litið á sig sem gott fólk geta tekið þátt á ótal vegu. Hér eru nokkrar hugmyndir:

-Skrifa bréf til þeirra sem bera ábyrgð á ódæðinu og/eða eiga möguleika á því að hafa áhrif á það hvernig farið verður með slík mál framvegis og krefjast þess að Ramses verði kallaður heim. Það er auðvitað hægt að senda tölvupóst en ennþá betra er að senda löturpóst eða póstkort HEIM TIL VIÐKOMANDI. Þetta fólk verður að fara að átta sig á því að það ber áfram ábyrgð á gjörðum sínum þegar það borðar kvöldmat með fjölskyldunni eða horfir á CSI. Best er að hafa þetta aðeins stutt skilaboð, enginn mun lesa marga langhunda um þetta efni en þeir sem hafa margt að segja geta skrifa blaðagreinar, nú eða bloggað.

-Hringja í sama fólk og segja því skýrt og skorinort hvað manni finnst um hegðun þess og til hvers maður ætlast af fólki í slíkri stöðu.

-Koma mótmælaskilti upp á lóðinni heima hjá sér. (Nú eða a lóð Bjössa ef þú kemst upp með það)

-Ná sér í mosaeyði og spreyja ‘skammastu þín ódámur’ á lóðina hjá því.

-Mála mynd, skrifa ljóð, fremja gjörnin eða tjá skoðun sína á annan listrænan hátt.

-Hella rauðri málningu á tröppur Útlendingastofnunar og/eða Stjórnarráðsins.

-Panta tíma hjá ráðherra og kenna honum muninn á því að vera fýldur fýlupoki og vond manneskja.

…og svo margt, margt fleira.

Share to Facebook