Afglapaskrá lögreglunnar 2. ársfjórðungur

Apríl
.
Apríl hófst með frétt um konu sem varð fyrir kynferðisglæp af hálfu lögreglumanns. Nógu helvíti erfitt er að koma lögum yfir nauðgara (og með þessum orðum er ég ekki að mæla með öfugri sönnunarbyrði) en ekki er auðveldara að koma lögum yfir löggur.  Þetta mál átti aldrei séns.


Um miðjan apríl er lesendum vefmoggans svo boðið upp á myndband af húsleit. Löggan býður semsagt fréttamanni með inn á heimili fólks. Hvað varð um regluna „saklaus uns sekt er sönnuð?“ Og hefur lögreglan virkilega heimild til þess að bjóða öðrum með sér í húsleit og það í því skyni að framleiða afþreyingarefni? Ef svo er hlýtur næsta spurning að vera sú hversu víðtækar heimildir lögreglan hafi til þess að bjóða gestum með í aðgerðir. Má löggan t.d. bjóða Dóra frænda sínum með í húsleit svo hann geti híað á lúserinn sem var með honum í 9. bekk?

Þolandinn var að vonum fremur ósáttur við þessa uppákomu en ekki veit ég hvort hann hefur gert tilraun til að kæra vinnubrögð lögreglunnar.
Í lok mánaðarins bárust hinsvegar fréttir af því að annar maður hefði stefnt íslenska ríkinu vegna sambærilegs brots gegn friðhelgi heimilisins árið 2009. Ekki hef ég fundið upplýsingar um það hvernig það mál fór.
.
Maí
.
Um vorið og fram á sumar var hið undarlega mál njósnarans Mark Kennedy töluvert í umræðunni.

Svo virðist sem breska lögreglan hafi með vilja og vitund íslensku lögreglunnar sent njósnara inn í raðir liðsmanna aðgerðahreyfingarinnar Saving Iceland. Ekki hafa fengist nein svör um það hvernig það gerðist eða hver er ábyrgur fyrir því. Lögreglan kemst upp með að ljúga til um afskipti sín af manninum og innanríkisráðherra, sem annars gefur sig út fyrir að vera mannréttindasinna, hefur ekki einu sinni krafist almennilegra svara, svo vitað sé. Hvað þá að einhver hafi þurft að taka pokann sinn.

.

Sami ráðherra vinnur nú að frumvarpi um auknar njósnaheimildir lögreglu. Hann réttlætir það með því að markmiðið sé að koma í veg fyrir njósnir um grasrótarhreyfingar. Dæmi nú hver fyrir sig um trúverðugleik ráðherrans.

Eitt þeirra mála sem komst í almenna umræðu á árinu var barátta föður ungrar stúlku sem lést af völdum læknadóps. Maðurinn vakti athygli almennings á slælegum vinnubrögðum  lögreglu, göllum í eftirliti með lyfjagjöfum og baráttu sinni við kerfið. Málið er hið undarlegasta. Barnung telpa deyr af lyfjaneyslu í höndum fullorðins kærasta og málið er ekki einu sinni rannsakað. Maður hlýtur að spyrja hvort þetta séu dæmigerð vinnubrögð lögreglu þegar fíkniefnaneytendur eiga í hlut. Síðar á árinu fékk faðirinn því framgengt að rannsókn yrði hafin á ný.

.

Í lok mánaðarins var varðstjóri lögreglunnar á Selfossi ákærður fyrir að fara offari gegn drukknum pilti. Þetta var ekki eina dæmið af þessu tagi sem var til umræðu í fjölmiðlum á árinu og sannarlega var þetta ekki síðasta fréttin af afglapahætti í herbúðum Þvagleggs sýslumanns.

 

Júní
.
Um miðjan mánuðinn handtók lögreglan fórnarlamb eldsvoða. Engar skýringar hefur þolandinn fengið á þessari meðferð. Manni dettur helst í hug að maðurinn hafi verið grunaður um íkveikju en útilokað reyndist fyrir manninn að fá fram svör um það hvort hann hefði réttarstöðu grunaðs manns. Ekki er annað að sjá en að nánast öll réttindi sem hugsast getur hafi verið brotin á honum.
.
.

Mér finnst Þvagleggur sýslumaður einkar vel kominn að titlinum afglapi ársins 2011

Þvagleggur sýslumaður lét ljós sitt skína árið 2011 sem endranær. Spurt hefur verið hvort það að láta barnaníðing ganga lausan með þeim rökum að það þjónaði best hagsmunum fórnarlambsins, hafi verið tilraun til að toppa þvagleggsmálið sem hann er jafnan kenndur við.

Share to Facebook

3 thoughts on “Afglapaskrá lögreglunnar 2. ársfjórðungur

  1. „Í lok mánaðarins var varðstjóri lögreglunnar á Selfossi ákærður fyrir að fara offari gegn drukknum pilti. Þetta var ekki eina dæmið af þessu tagi sem var til umræðu í fjölmiðlum á árinu og sannarlega var þetta ekki síðasta fréttin af afglapahætti í herbúðum Þvagleggs sýslumanns.“

    Þetta mál er með þvílíkum ólíkindum að ég fæ engan botn í að það hafi farið framhjá mér. Hvernig fór það svona hljótt? Svo ætlast þeir til að við treystum þeim til að ganga með byssur!

  2. Það eru líklega engin takmörk fyrir því hve mikið einn maður getur klúðrað mörgum málum án þess að fá ávítur fyrir eða vera sviptur starfstitlinum. Það er ekki bara í þessum málaflokkum sem hann hefur klúðrað málunum, því eftir hann liggja tugi ef ekki hundruða mála þar sem rannsóknum hefur verið klúðrað með þvlíka hætti að hægt væri að halda að maður væri að horfa á breska kómedíu.
    Það virðist vera víðtekin venja að menn séu gjörsamlega friðhelgir, smbr. málið þar sem lögreglumaður var rekinn eftir afglöp í starfi og var mættur aftur til vinnu nokkrum mánuðum síðar.

Lokað er á athugasemdir.