Á flótta undan réttvísinni

Fyrir nokkrum vikum byrjaði ég á pistlaröð um mýtur tengdar innflytjendum og flóttamönnum. Held nú áfram þar sem frá var horfið. Að gefnu tilefni fer ég fram á að umræður tengist beinlínis efni greinarinnar.


Innflytjendamýta 3a -Flestir flóttamenn eru á flótta undan réttvísinni

Þessi mýta er lífsseig og kannski ekki að undra þar sem innanríkisráðherra, Ögmunudur Jónasson, tjáir sig nánast aldrei um málefni flóttamanna nema koma því að í leiðinni að sumir þeirra séu „á flótta undan réttvísinni“.

Hið rétta er að flestir flóttamenn í heiminum eru á flótta undan stríði, ofsóknum og örbirgð. Hátt hlutfall þeirra eru konur með börn. Margar barnafjölskyldur sem leggja á flótta, komast aldrei út fyrir heimaland sitt og algengt er að hluti fjölskyldunnar látist á flóttanum. Margar þeirra fjölskyldna sem tekst að flýja land, hafast við í tjaldbúðum við ömurlegar aðstæður, jafnvel árum saman, áður en þær komast í þá lúxusaðstöðu að lenda í kvótahópum sem fá hæli af mannúðarástæðum fyrir tilstilli Sameinuðu þjóðanna. Þegar það loksins gerist er þessu fólki húrrað upp í flugvél og það sent til einhvers fjarlægs heimshluta, oftast án þess að það hafi nokkuð um það að segja sjálft hvar það lendir. Nánir ættingjar eru oft sendir hver í sína áttina, án tillits til þess hvaða augum þeir líta fjölskylduna og skilgreiningar þeirra sjálfra á nánd og tryggðaböndum.

Vesturlandabúar líta oft þannig á að flóttamenn skiptist í tvær tegundir manna. Raunverulega flóttamenn sem Sameinuðu þjóðirnar styðja og svo „hælisleitendur“ en það er orð sem hefur verið notað til að beina athyglinni frá ástæðunni (semsagt flóttanum) og að þeim óþægindum sem það hefur í för með sér fyrir „okkars“ þegar eitthvert pakk kemur frá halanegraríki og heimtar þjónustu. Allavega er helst að skilja að það sé hugarfarið á bak við notkun þessa orðs.

Meirihluti flóttamanna sem koma til Evrópulanda á eigin vegum, er einhleypir karlmenn og oft eru þeir að flýja pólitískar ofsóknir. Hið háa hlutfall karla á sér ýmsar skýringar. Konur í þriðja heiminum hafa almennt minna aðgengi að peningum og eru í erfiðari aðstöðu til að verða sér úti um þá pappíra sem þarf til að komast burtu. Þær eru háðar karlmönnum hvað þessa hluti varðar (eins og svo margt annað) og auk þess er til þess ætlast að þær sjái um börnin. Algengt er að ungar konur beri ábyrgð á mörgum börnum. Þær komast því ekki spönn frá rassgati nema með samþykki og stuðningi fjölskyldu sinnar. Víðast hvar er lágt hlutfall kvenna áberandi í pólitískum deilum og andspyrnustarfi og karlmenn verða því frekar fyrir beinum ofsóknum. Þeir hafa að því leyti ríkari pólitískar ástæður til að flýja.

Að einhverju leyti byggist goðsögnin um glæpahneigða flóttamanninn á staðalmyndum. Okkur finnst auðveldara að trúa því að ungur karlmaður sem er einn á ferð, sé glæpamaður, en kona sem ferðast með stóran barnahóp og aldurhniginn afa. Engu að síður eru tvö sannleikskorn í þeirri hugmynd að flóttamenn séu bölvaðir glæpónar.

Fyrra sannleikskornið er það að flestir flóttamenn vísa fram fölsuðum skilríkjum eða skilríkjum annarra. Að einhverju leyti er skýringin sú að mörg ríki gefa ekkert út vegabréf nema stjórnvöld álíti að viðkomandi eigi sérstakt erindi út fyrir landsteinana. Að einhverju leyti sú að margir þeirra sem flýja geta reiknað með að verða hindraðir og þurfa því að villa á sér heimildir til að komast burt. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna viðurkennir þessar forsendur. Þessvegna felur flóttamannasamningurinn (sem Ísland á aðild að) í sér ákvæði um að fólk sem þurfi að flýja ólögmæta frelsissviptingu eða aðra grimmúðlega meðferð, megi villa á ser heimildir til þess að komast í öruggt skjól. (Sjá flóttamannasamninginn grein 31.) Íslenskum stjórnvöldum hefur alltaf verið skítsama um þetta ákvæði flóttamannasamningsins, (eins og svo mörg önnur ákvæði fjölþjóðlegra mannréttindasáttmála) enda er það þverbrotið í hvert einasta skipti sem flóttamaður kemur til landsins.

Þegar flóttamaður kemur til landsins er honum umsvifalaust hent í fangelsi, oftast 30 daga, án þess að aðstæður hans séu neitt kannaðar. Refsingin fyrir að leggja enn eitt verkefnið á herðar starfsfólks útlendingastofnunar og varpa ljósi á þá óþægilegu staðreynd að Ögmundur læknaðist af mannúðarhyggju sinni um leið og hann settist í ráðherrastól, er því sambærileg við refsingu fyrir „sérstaklega hættulega líkamsárás„. Að vísu er munurinn sá að dómurinn fyrir hnefahögg í andlitið og barsmíðar með spýtu, var skilorðsbundinn, þar sem hinum stórhættulega skjalafalsara er hinsvegar stungið í steininn án frekari vafninga.

Hitt sannleikskornið er það að margir flóttamenn eru í alvöru að flýja „réttvísina“ í heimalandi sínu.
T.d. réttvísina sem handarheggur þjófa.
Réttvísi sem hýðir þá sem gagnrýna yfirvöld
Hengir þá sem verða uppvísir að samkynhneigð.
Gerir börn að hermönnum.
Viðurkennir þrælahald og
grýtir fólk til bana fyrir skírlífisbrot.

Samkvæmt skilgreiningu flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna voru um 10,4 milljónir flóttamanna í heiminum í lok síðasta árs. Enn fleiri eru án ríkisfangs eða á annan hátt vegalausir, margir þeirra ólöglegir innflytjendur sem engra réttinda njóta. Það fer ekki hjá því að í hópi 10 milljóna sé einn og einn alvöru glæpamaður, svo já, það er alltaf smá möguleiki á því að sá sem aðstoðar marga flóttamenn, aðstoði um leið morðingja eða annan ofbeldismann. Þessi sami annmarki háir réttarkerfi okkar. Sú stefna að menn skuli teljast saklausir uns sekt er sönnuð, hefur það í för með sér að stundum sleppur sá seki. Það er gjaldið sem við greiðum til þess að allir hinir fái réttláta málsmeðferð. Ef við værum sjálfum okkur samkvæm myndum við á sama hátt láta flóttamenn njóta vafans.

Share to Facebook

One thought on “Á flótta undan réttvísinni

 1. —————————–

  Myndin af drengnum með handlegginn undir bílhjólinu er reyndar ekki mynd af raunverulegum pyntingum stjórnvalda, þó að hún hafi gengið ljósum logum á netinu sem dæmi um „íslamska refsingu“ í Íran eða öðru múslímsku landi.

  Sjá: http://www.snopes.com/photos/gruesome/crushboy.asp

  Stundum er betra að kynna sér málin vel, áður en farið er af stað á netinu.

  Posted by: Anna | 18.10.2011 | 5:52:50

  —————————–

  Takk fyrir ábendinguna.

  Posted by: Eva | 18.10.2011 | 13:37:37

  —————————–

  Hvar ætlar Eva góða að koma flóttamönnunum sínum fyrir , það er ekki nóg að hafa hugsjónir það verður að vera eitthvað vit í þeim.

  Posted by: Guðrún Skúladóttir | 18.10.2011 | 14:33:54

  —————————–

  Það er nú töluvert af tómu húsnæði á höfuðborgarsvæðinu að svo stöddu.

  Posted by: Kári Emil Helgason | 18.10.2011 | 18:44:36

  —————————–

  Guðrún vonda, hvað heldur þú að það hafi margir sótt um hæli hér sl 6 ár?

  Heldur þú virkilega að það sé ekki pláss hér í samfélaginu fyrir 45 manns á ári sem leita hér ásjár eftir hörmungar sem við getum vart ímyndað okkur?

  Það er ekki eins og þetta séu fleiri þúsund manns á ári. Svo er þetta fólk lokað inni í rasistabælinu Suðurnesjum, viljandi útilokað frá samfélaginu, fær ekki raunhæf tækifæri til að leita sér að vinnu þó að áhugi sé fyrir hendi, fá svo mögulega ekki atvinnuleyfi loks þegar þau fá vinnu og jafnvel hent út úr landinu þrátt fyrir að það sé komið með vinnu og búið að aðlagast að einhverju leyti, eignast vini og fleira.

  Fólk sem að er á móti því að hælisleitendur fái að starfa hér eins og „venjulegir útlendingar“ eru einfaldlega rasistar.

  Posted by: Gugga | 18.10.2011 | 19:17:32

Lokað er á athugasemdir.