Jarðskjálftar af mannavöldum þurfa ekki endilega að boða hamfarir

Fólk sem er búsett í námunda við Hengilssvæðið býr við stöðuga jarðskjálfta af mannavöldum. Það þykir bara allt í lagi þar sem þeir „þurfa ekki að boða frekari atburði á svæðinu„.

Einmitt það já? Það er sem semsagt ekki pottþétt að þetta fikt OR við náttúruna leiði til hamfara og þar með skulu menn bara vessgú halda kjafti og sætta sig við að jörðin skjálfi undir fótum þeirra. Af því að OR þarf að mylja undir álframleiðendur.

Með sömu rökum mætti fólk gjarnan dunda sér við að aka bílum á hús nágranna sinna, það þarf nefnilega ekki að vera merki um að húsið sé að hrynja, að vísu böggandi fyrir nágrannann en hvað með það?

Auðvitað yrði slík hegðun aldrei umborin. Það er nefnilega sitt hvað fólk og fyrirtæki. Í nafni fyrirtækis má megna andrúmsloftið, skemma náttúruperlur, valda loftlagsbreytingum og stugga þannig við jörðinni að hún hristist og skjálfi. Það er alveg sama hvaða hörmungar eru kallaðar yfir heiminn, svo fremi sem fyrirtæki er á bak við það, þykir það bara allt í lagi.

Og hvað ef það ótrúlega gerist nú samt? Hvað ef móðir Jörð fær nóg af fiktinu í OR og mótmælir með almennilegum skjálfta? Verður það þá OR sem borgar tjónið? Hver á annars OR? Og hvað ef einhver slasast? Ætlar þá OR að kyssa á bágtið?

Ég mótmælti þessum framkvæmdum á sínum tíma, lokaði vegi og lagði þar með þau skelfilegu óþægindi á nokkra af starfsmönnum Hellisheiðarvirkjunar að þurfa að ganga spottakorn, kannski 100-200 metra í vinnuna. Ég var dæmd fyrir það. OR kemst hinsvegar upp með að halda fjölda fjölskyldna í stöðugu spennuástandi með því að framkalla jarðskjálfta á svæðinu.

Finnst ykkur þetta í lagi?

Share to Facebook

One thought on “Jarðskjálftar af mannavöldum þurfa ekki endilega að boða hamfarir

 1. ———————————–

  Nei!

  Posted by: Skuggi | 16.10.2011 | 7:05:13

  ———————————–

  Það er ekki langt síðan að það þurfti að hætta við jarðvarmaverkefni í Sviss og í Kaliforníu útaf jarðskjálftum sem fylgdu framkæmdunum.

  Posted by: Sonja | 16.10.2011 | 7:29:58

  ———————————–

  Ef það er hægt að losa um spennu í jörðu með stjórnanlegum hætti þá er hér um stórkostlegt tækifæri að ræða til að koma í veg fyrir stóra hamfaraskjálfta og mikil skammsýni að stöðva slíkt vegna tímabundinna óþæginda.
  Það er líka mjög gott að geta skapað smáa skjálfta til að halda opnum glufum fyrir gufu upp úr jarðskorpunni og þannig halda uppi afköstum virkjana.
  Takist okkur að stjórna skjálftavirkni með svona aðferðum þá erum við að sjá fram á mikla möguleika í fyrirbyggjandi aðgerðum og forða bæði skemmdum á mannvirkjum og hugsanlega mannfalli.
  Það er því rétt að skoða þetta betur áður en fólk ríkur upp í geðshræringu og tekur vanhugsaðar ákvarðanir.

  Posted by: þorsteinn Valur Baldvinsson | 16.10.2011 | 9:10:54

  ———————————–

  Þorsteinn Valur, áttu við vanhugsaða ákvörðun á borð við þá að framkalla ekki jarðskjálfta?

  Mælirðu kannski líka með því að við framköllum minniháttar snjóflóð í námunda við mannabyggðir og smitum svona eina og eina sauðfjárhjörð af riðu?

  Posted by: Eva | 16.10.2011 | 20:47:05

Lokað er á athugasemdir.