Eins og hýenan rennur á blóðslóð

Rétt eins og hýenan rennur á blóðslóð, ráðast vinstri sósíalistar af hörku gegn öllum þeim sem andmæla hinni „réttu skoðun“.

Þannig kemst Brynjar Níelsson að orði í grein sinni „Nýjar vígstöðvar sósíalismans“  þegar hann lýsir  viðbrögðum umhverfissinna við þeirri skoðun forsætisráðherra að fjöldi umsagna frá náttúruverndarfólki ætti ekki að hafa áhrif á ákvarðanir um stórkostleg náttúruspjöll.

Ég vissi ekki fyrr að Brynjar væri skáldmæltur en líkingin er áhrifarík. Ég sé Sigmund Davíð fyrir mér, höktandi blóðugum sporum milli Stjórnarráðsins og Alþingishússins krýndan þyrnikórónu, með hýenuhóp á hælunum.  Það fossar blóð… syngur í huga mér.

Ég hef ekki séð neinar umræður í framhaldi af þessum pistli en af því að ég er hjartanlega ósammála Brynjari um umhverfismál og af því að pistillinn býður upp á áhugaverða umræðu, finn ég mig knúna til að leggja orð í belg þótt seint sé.

Átakakenningar

Það er reyndar rétt hjá Brynjari að vinstri menn finna átakakenningum farveg í þessum málaflokkum, kvenréttindum og náttúruvernd. Brynjar gleymir hinsvegar ástæðunni fyrir því að hugmyndin um stéttabaráttu þrífst ekki eins vel og áður.

Samkvæmt átakakenningum eru  átök milli þeirra hópa sem eru ráðandi (hvort sem vald þeirra helgast af stéttarstöðu, kynþætti, kyni eða einhverju öðru) og hinna valdalausu hvati mikilvægra samfélagsbreytinga. Kommúnistar beina sjónum sínum að átökum milli stétta, feministar að átökum milli kynja og umhverfissinnar sjá stórfyrirtæki sem ógn við náttúruna og samfélög fólks sem ekki er í neinni aðstöðu til að verjast.

Ég ætla ekki að kafa djúpt í átakakenningar en bendi á að ástæðan fyrir því að vinstri menn tala lítið um átök auðvalds og örykja í dag, er sú að kröfum um að fátæklingar og öryrkjar nytu heilsugæslu, framfærslu, menntunar og borgaralegra réttinda var mætt. Hægri menn á Íslandi hafa gengist inn á þá sósíalísku hugmynd að samfélagið beri einhverja ábyrgð gagnvart sínum smælingjum. Ekki að því marki sem ég vildi en þeir tala í það minnsta eins og þeir vilji klappa gamla fólkinu svolítið um leið og þeir mata útgerðarauðvaldið með silfurskeið. Og það dugar til þess að sefa meirihlutann.

Hvað feminismann varðar þá hefur kröfum um jafnrétti verið mætt ekkert síður en kröfum um allskonar handa aumingjum. Auðvitað vilja feminstar ganga lengra rétt eins og sósíalistar vilja ganga lengra í því að jafna kjörin en þótt þorri almennings aðhyllist kynjajafnrétti, þrífst hugmyndin um kynjastríð illa nema meðal gallharðra feminista. Átök feminista eru heldur ekki fyrst og fremst við ríkisvaldið (sem hefur komið verulega til móts við kröfur þeirra) heldur ekki síður við fyrirtæki og ýmiskonar misvel skilgreinda hópa.

Sjálfstæðismenn sjá sér hag í því að koma til móts við kommana og feministana en þeir eru ennþá gjörsamlega glórulausir í umhverfismálum. Jafnvel í  Bandaríkjunum er hægt að taka ákvarðanir um verndun svæða í eitt skipti fyrir öll. Maður heyrir t.d. engan stjórnmálamann gæla við þá hugmynd að virkja í Yellowstone þótt það gæti vafalaust skilað skammtímagróða, það er einfaldlega ekkert til umræðu.  Þessi hugsun virðist bara ekki þrífast innan Sjálfstæðiflokksins heldur tala sjálfstæðismenn á Íslandi um þjóðgarða og friðlýst svæði eins og það séu mjög öfgakenndar hugmyndir.

2009-04-07-karahnjukavirkjun

Ég er ekki að segja að umhverfissinnar séu lausir við ofstæki, í okkar röðum þrífst pólitískur rétttrúnaður alveg eins og meðal annars hugsjónafólks. Þeir eru til sem vilja friða hvali og aðrar skepnur óháð því hvort stofninn þolir veiðar eður ei og þeir eru til sem gera átakakenningar að drottningu sinni og leita uppi eitthvað til að vera á móti. En það eru ekki umhverfissinnar sem sitja við völd heldur stóriðjusinnar og að líkja þeim sem ætlast til þess að stjórnvöld taki tillit til ábendinga náttúruverndarfólks við blóðþyrstar hýenur,  ber fremur vott um skáldskapargáfu en umburðarlyndi gagnvart tjáningarfrelsi og lýðræði.

Vinstri menn og einkaframtak

Þótt fólk aðhyllist átakahugmyndir merkir það ekki að það hafi ekki trú á einstaklingum eða að áhugi þess á kynjapólitík eða náttúruvernd sé bara yfirvarp til þess að berja á strangheiðarlegum kapítalistum, klámkóngum, og álrisum. Í raun kemur umræðan um náttúruvernd og kvenréttindi eintaklingsframtaki lítið við.

Það er misskilningur að vinstri menn séu almennt mótfallnir einkaframtaki. Í sumum tilvikum er það starfsemin sem slík sem vinstri menn, einkum róttæklingar, telja slæma. Þetta á við um hvalfriðunarsinna og harðkjarna stóriðjuandstæðinga. Landsvirkjun er t.d. ekkert skárri í augum Saving Iceland liða þótt hún sé ríkisrekið fyrirtæki. Ég sé heldur ekki fyrir mér að feministar yrðu neitt hrifnari af hugmyndinni um ríkisrekin hóruhús en einkarekin.

Þeir sem tala gegn einkavæðingu þurfa ekki endilega að vera á móti einkarekstri eða tiltekinni starfssemi. Ég hef t.d. ekkert á móti því að Kristján Loftsson eigi fyrirtæki. Mér finnst hinsvegar gjörsamlega galið að hagsmunir Kristjáns Loftssonar ráði stefnu stjórnvalda í hvalveiðimálum.  Við skulum líka athuga að það eru ekki einstaklingar sem reka álver og virkjanir heldur stórfyrirtæki sem hafa pólitísk ítök og geta haft og hafa haft áhrif á lagasetningu. Það er einkavæðing grunnþjónustunnar og einkaeign á sameiginlegum auðlindum sem flest okkar eru mótfallin, ekki einkarekstur sem slíkur.

Ástæðan fyrir því að vinstri menn vilja að ríkið haldi uppi grunnþjónustu er ekki sú að þeir treysti ekki einstaklingum heldur sú að þeir treysta ekki auðvaldinu, hvort sem það er á hendi einstaklings eða stórrar fyrirtækjasamsteypu. Jóhannes í Bónus var t.d. alveg í náðinni á meðan flestir sáu hann sem krúttlegan kjörbúðakaupmann. Í dag er Baugur tákngervingur kapítalismans og það er það sem þetta snýst um. Ekki um það hvort einhver megi reka fyrirtæki heldur hvort hann öðlast með því vald til að stjórna markaðnum, fjölmiðlum og ríkisstjórninni.

Bæði umhverfissinnar og feministar eiga það svo til að gera hugsjónir sínar að trúarbrögðum. Rétt eins og kommúnistar. Rétt eins og kapítalistar. Málið er bara að þar sem kapítalistar eru í meirihluta, hafa meiri völd og meiri peninga er þeirra ofstæki skilgreint sem norm en ekki öfgar.

Þannig virkar lýðræðið

Það væri vissulega huggun ef gjörnýtingarstefnan væri bara blóðugt hræ sem hinar sósíalísku hýenur gætu rifið í sig en veruleikinn er allt annar. Ofstæki umhverfissinna kom ekki einu sinni í veg fyrir Kárahnjúkavirkjun svo þótt Sigmundur Davíð þurfi að þola skammir fyrir að hundsa kröfur þeirra sem vilja standa vörð um ósnortnar náttúruperlur ætti Brynjar Níelsson kannski að nýta blóðslóðarlíkinguna í ögn meira sannfærandi kveðskap.

Það er áreiðanlega leiðinlegt fyrir Sigmund Davíð að verða fyrir óvæginni gagnrýni en sú gagnrýni á fullan rétt á sér og við skulum reikna með að meiri óvæginni gagnrýni af hálfu umhverfissinna. Þeir sem ekki sitja við völd hafa nefnilega fullan rétt á að koma skoðunum sínum áleiðis og reyna að hafa áhrif á þá sem stjórna. Eins og Brynjar sjálfur myndi orða það; þannig virkar lýðræðið.

Afleiðingarnar af pólitískum rétttrúnaði

imagesÉg aðhyllist átakakenningar að vissu marki. Ég held að átök milli hópa séu bæði óhjákvæmileg og nauðsynleg. Hinsvegar á það við um átakakenningar eins og flest annað að þegar pólitískur rétttrúnaður knýr fólk til baráttu án góðrar ástæðu er voðinn vís.

Nú hafa átök feminista við meint feðraveldi orðið þess valdandi að tvær konur hafa verið skipaðar í efnahags- og viðskiptanefnd, hugsanlega án þess  að hafa sérstakan áhuga á því. Ein aukaverkunin af þessari ónauðsynlegu tilfærslu er sú að Brynjar Níelsson tekur sæti í umhverfisnefnd. Hvort þessi umskipti þjóna jafnréttismarkmiðum er vafasamt og hvort það þjónar markmiðum náttúruverndar að setja mann sem lítur á umhverfssinna sem blóðþyrstar hýenur í umhverfisnefnd er ennþá hæpnara. En þannig virkar pólitískur rétttrúnaður og nú myndi ég hlæja – væri ég ekki umhverfishýena.

Share to Facebook